03.02.1959
Neðri deild: 70. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

95. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1959

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið venja undanfarin ár, að samkomudegi reglulegs Alþingis, sem samkv. lögum er 15. febr., væri frestað fram í byrjun októbermánaðar, m. a. vegna þess, að þingstörfum ársins á undan hefur venjulega ekki verið lokið um það leyti, sem Alþingi hefur að reglulegum og eðlilegum hætti átt að koma saman. Það er fyrirsjáanlegt, að einnig í þetta sinn verður störfum Alþingis 1958 ekki lokið fyrir 15. febrúar n. k., og hefur því þetta frv. verið flutt. Frv. er með alveg sama hætti og önnur tilsvarandi frv. á undanförnum árum, að öðru leyti en því, að samkomudagurinn fyrir Alþingi 1959 er settur í síðasta lagi 12. okt., sem er mánudagur, vegna þess, að 10. okt., sem verið hefur samkomudagur Alþingis undanfarin ár, fellur á laugardag. Að öðru leyti er hér um enga breyt, að ræða frá því, sem verið hefur á undanförnum árum.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.