03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

115. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv. Sú athugun hefur einkum verið í því fólgin að bera töluliði þess saman við ríkisreikninginn árið 1956 og ber frumvarpinu saman við ríkisreikninginn hvað það snertir.

Það mun hafa verið venja frá upphafi til þessa dags, að athugun nefndar í þinginu um ríkisreikninginn er aðallega í þessum samanburði fólgin. Yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna hafa gert ýmsar athugasemdir við ríkisreikninginn að venju. Eru það 40 athugasemdir, sem þeir hafa allir til samans gert og einn yfirskoðunarmaðurinn, Jón Pálmason, hv. þm. A-Húnv., hefur þar að auki gert 25 sérathugasemdir eða viðbótarathugasemdir við ríkisreikninginn. Þessum athugasemdum yfirskoðunarmannanna hefur verið svarað af ráðuneytinu og eftir þau svör hafa yfirskoðunarmenn gert að venju tillögur til úrskurðar. Flestar eru till. þeirra, að athugasemdin sé til athugunar framvegis, til eftirbreytni framvegis. Þó er tveimur athugasemdum vísað til Alþingis af þeim, sem yfirskoðunarmennirnir gera allir í sameiningu. En hinar sérstöku athugasemdir frá Jóni Pálmasyni eru svipaðar, það ber meira á till. eins og „verður við svo búið að standa“ eða „til eftirbreytni“, „upplýst með svarinu“ o. s. frv., og „til viðvörunar framvegis,“ en 14. athugasemd sinni vill hann vísa til aðgerða Alþingis.

Nú hefur það verið þannig, þó að slíkar till. yfirskoðunarmanna hafi verið gerðar, að þessu og þessu máli sé vísað til aðgerða Alþingis, þá hefur verið við það látið sitja undir meðferð þessa máls og aldrei gert neitt í slíku annað en það, að það hafa stundum farið fram umræður um hin einstöku atriði. Ég sé enga ástæðu til að hefja neinar umr. um athugasemdirnar, en ég læt þá skoðun í ljós, sem ég hef áður gert á undanförnum þingum og öll fjhn. þessarar hv. deildar gerði fyrir nokkrum árum og var sammála um þá, að ég tel það ekki fullnægjandi, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna vísi máli til aðgerða Alþingis, án þess að gera nokkra till. um það, hvað Alþingi á í málinu að gera, og tel, að það ætti að taka það upp, að yfirskoðunarmenn gerðu ákveðnar till. um allar sínar athugasemdir að fengnum svörum, að við svo búið mætti standa, þetta væri til viðvörunar eða til eftirbreytni og í staðinn fyrir að vísa óákveðið athugasemd til aðgerða Alþingis, þá gerðu þeir till. um það, hvað Alþingi ætti að gera út af því.

Það er einróma till. fjhn., að frv, verði samþ. óbreytt og þar með ríkisreikningurinn.