17.04.1959
Neðri deild: 110. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

115. mál, ríkisreikningar

Eysteinn Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, einn af endurskoðendum landsreikninganna.

Það er ekki ofsögum sagt af því, að það er mikil orrusta háð sífellt til þess að reyna að koma í veg fyrir umframgreiðslur og það veltur á ýmsu í því tilliti og kemur þar margt til, bæði þetta, að undanfarna áratugi hefur verðbólgan vaxið nokkuð ár frá ári og sú þróun hefur haft það í för með sér, að áætlanir fjárl. hafa ekki getað staðizt. Af þessu hafa stafað sífelldar umframgreiðslur og óánægja með þær, eins og eðlilegt er. Og það er rétt að taka það fram, að þessi þróun hefur gert nokkru torveldara að fylgjast með því, hverjar væru raunverulegar umframgreiðslur ríkisins, því ef dæma á, hvað raunverulega hafi verið greitt umfram beinar fjárveitingar, þá þarf helzt að reyna að finna út, hvað þessi þróun verðbólgunnar hefur hækkað útgjöldin og draga það frá. Þetta hefur torveldað mjög, að hægt væri að fá rétta heildarsýn yfir þetta efni.

Nú hef ég haldið því fram við hv. þm. A-Húnv. áður, að hann væri mjög hlutdrægur í sínu starfi sem endurskoðari og við kljáðumst nokkuð um það hér, — ég man nú ekki, hvenær það var síðast, hann talaði þá mjög um eyðslu og sukk í ríkisrekstrinum — og eggjaði ég hann þá lögeggjan að sýna fram á það, í hverju þetta sukk og þessi óeðlilega eyðsla væri fólgin. Geri ég ráð fyrir því, að ástæðuna til þess, að hv. þm. skilar núna, að því er ég held í fyrsta skipti, sérstökum athugasemdum umfram það, sem hinir yfirskoðunarmennirnir gera, muni kannske vera að rekja til þessarar lögeggjunar, sem ég kom fram með á hendur hv. þm. að sýna fram á það í sundurliðuðu máli, hvað hann ætti við með þessum hörðu dómum, sem hann hafði komið fram með oftar, en einu sinni.

Í annan stað hef ég bent á það áður og vil benda á það enn, að það er mjög áberandi hjá hv. þm., að hann hefur hagað athugasemdum sínum undanfarin ár mjög mikið eftir því, hverjir hafa verið við völdin og skal ég færa fyrir því nokkrar sannanir.

Á árunum 1940–49 voru umframgreiðslur gífurlega miklar, þannig að umframgreiðslur eru nú, þótt þær séu verulegar, m. a. af þessari verðbólguþróun, sem ég var að lýsa, bara smámunir einir samanborið við það, sem var á þessum árum. En á þessum árum voru sjálfstæðismenn fjármálaráðherrar. Á þessum árum voru umframgreiðslur að meðaltali á rekstrarreikningi ríkisins 55%, — 55%, sem rekstrarreikningurinn var hærri, en fjárlögin. Nú skyldi maður halda, að hv. þm. A-Húnv. hafi gengið berserksgang til þess að benda á þessa þróun og honum hefði ekki verið neitt lítið niðri fyrir, samanborið við það, sem verið hefur undanfarið, þegar þessi ósköp voru að ske. En ég hef skoðað þetta og ég hef séð, að hann hefur ásamt félögum sínum gert nokkrar mjög dauflegar aths. um umframgreiðslur við reikningana 1941 og 1942, en úr því sé ég ekki, að það hafi yfir höfuð verið gerðar aths. við þessar gífurlegu umframgreiðslur, nema þá máske að finna mætti smávægilegar aths. við einstaka liði.

Þetta var nú þá. En 1956, — og það er reikningurinn, sem nú er verið að ræða um, — voru umframgreiðslur talsverðar. En þær voru lægri tiltölulega það ár, eða 9.6%, heldur en þær höfðu verið í 30 ár að undanskildum þremur árum. Þegar 3 ár eru undanskilin, þá voru þær hinar lægstu, sem þær hafa verið í 30 ár. Þær urðu lægri tiltölulega 1938, 1950 og 1952. En þá tekur hv. þm. A-Húnv. sig til og gerir aths. svo að segja við hverja einustu grein landsreikningsins og bendir á, að það séu svona og svona miklar umframgreiðslur á þessari grein, og vill fá skýringar á því. Ég er ekki að deila á hv. þm. fyrir að gera þetta, því að ég álit, að þetta hafi ekki verið neitt óeðlilegt, að yfirskoðendur vilji fá skýrslur um það, hvernig á umframgreiðslunum stendur. En ég er bara að sýna með þessu, hvað hv. þm. gerir sér mikinn mannamun í þessu sambandi og hvað hann viðhefur ólík vinnubrögð eftir því, hverjir fara með þessi mál.

Og ég vil líka benda á, að þessar séraths. hv. þm. A-Húnv. sýna það, að hann vinnur ekki þetta verk í raun og veru með það fyrir augum að fá neina niðurstöðu eða fá neina heildarmynd af hverri grein fyrir sig, heldur gerir hann það sýnilega aðeins til þess að flagga með því, að svona og svona miklar umframgreiðslur hafi verið á þessari og hinni greininni. Og ég skal færa glögg rök fyrir þessu.

Svo er nefnilega mál með vexti, að á fjárlögunum fyrir 1956 er sérstakur póstur á 19. gr., það eru áætlaðar hækkanir vegna nýrra launalaga og nokkur póstur vegna áætlaðrar hækkunar vegna launauppbótar og vegna vísitöluuppbótar og í landsreikningnum dreifast vitanlega þessar fjárhæðir inn í svo að segja alla liði fjárl., það er því alveg augljóst mál, að það hlýtur að koma fram umframgreiðsla á hverjum einasta lið, þar sem um laun er að ræða eða greiðslur, sem vísitala hefur áhrif á. Nú skyldi maður halda og ef hv. þm. A-Húnv. hefði viljað vinna þarna verk, sem átti að koma að nokkru gagni, þá hefði hann kynnt sér við endurskoðunina, hvað mikið af umframgreiðslunni á hverri grein eða hverjum lið stafaði af þessu og gat því ekki talizt undir venjulegar umframgreiðslur og séð þannig, hvað mikið var þá raunverulega umframeyðsla. Því aðeins gátu þessar aths. um umframgreiðslur haft nokkra þýðingu eða nokkurt gildi, að svona væri farið að, því að hv. þm. gat ekki séð, hvað var raunveruleg umframeyðsla í réttri merkingu þess orðs, nema með því að viðhafa þessi vinnubrögð. Og hann gat auðvitað mjög auðveldlega fengið þessar upplýsingar, jafnóðum og endurskoðuninni vatt fram, bara með því að krefjast þeirra frá stofnuninni og gera síðan aths. á grundvelli þeirra. Með þessu einu móti gat hann líka sjálfur séð, hvað var ástæða til þess að gera aths. um og hvað ekki. En í stað þessa fer hann þannig að, að hann tekur heildarniðurstöðuna á hverjum lið og segir: Umframgreiðslur eru svona miklar, — og gerir aths. við það. Niðurstaðan verður svo sú, að nær allir forstöðumenn starfsgreina láta gera skýrslur um þennan mismun, sem þarna kemur fram, en þær skýrslur hefði endurskoðandinn vítaskuld átt að láta gera fyrir sig, meðan hann var að vinna, til þess að hann gæti svo gert efnislegar aths. við frammistöðuna í hverri grein. En það gerði hv. þm. ekki, því að hann hefur auðsýnilega langað svo mikið til þess að geta slengt því fram, að það væri svona og svona mikil umframgreiðsla á þessum eða hinum liðnum. Á þessu sjáum við, að það er engin alúð lögð við þessa vinnu og þarna er ekki verið að reyna að vinna neitt verk, sem komi að nokkru gagni, heldur aðeins verið að reyna að finna ástæðu fyrir því að koma fram með slettur í þessu sambandi.

Þessi vinnubrögð ganga svo fram af ýmsum ágætum forráðamönnum starfsgreina og ríkisstofnana, að þeir sjá ástæðu til þess að láta orð um það falla í þeim skýrslum, sem af þeim er krafizt. Ég vil t. d. segja frá einu slíku svari frá valinkunnum sæmdarmanni, sem stendur fyrir merkri stofnun. Það er frá skólameistaranum á Akureyri. Hann getur ekki orða bundizt um þetta, sem ekki er von. Hann fær eins og aðrir til umsagnar að gefa skýringar á því, að reikningsniðurstaða fyrir hans skóla er hærri en fjárlögin. Og það er gerð aths. um það í einu lagi í stuttu máli. Með leyfi hæstv. forseta, segir skólameistari þannig í svari sínu:

„Sem svar við bréfi yðar, dags. 28. þ. m., þar sem óskað er svars við aths., sem yfirskoðunarmaður ríkisreikninga, Jón Pálmason alþingismaður, hefur gert við reikning menntaskólans á Akureyri fyrir árið 1956, leyfum vér oss að benda á, að í skýringum, sem fylgdu reikningi skólans á sínum tíma, er gerð grein fyrir greiðslum þeim, sem hér um ræðir.“ Þarna kemur þá fram, að hv. þm. virðist alls ekki hafa kynnt sér þetta. — „Væntum vér, að hér nægi að endurtaka það eitt, að hækkun á útgjöldum skólans þetta ár stafar af breytingum á launalögum, sem koma til framkvæmda frá áramótum 1955–56. Í fjárveitingu til skólans á 14. gr. fjárl. var ekki tekið tillit til þessarar hækkunar, en á 19. gr. fjárlaga var veitt í einu lagi vegna nýrra launalaga og átti menntaskólinn á Akureyri vitanlega sinn hluta af því.“ Svo kemur: „Virðist oss, að alþm. sjálfir hljóti að vita hér skil á, svo að óþarfi sé að orðlengja það fremur.“

Þetta er mjög hógvær aths., en hefur fulla meiningu. Og þannig er í öllum þessum svörum, að þá verður hver einasti forráðamaður starfsgreinar að gera grein fyrir því, að svona og svona mikill hluti af þessum mismun stafi af þessu, sem hv. þm. var auðvitað vel kunnugt um. Og ég vil líka t. d. lesa upphafið á svari frá póst- og símamálastjóra, þar sem hann segir:

„Umrædd hækkun, 4.159.686 kr., á gjöldum póstsins stafar ekki aðeins frá fjölgun póstferða samkv. þál., heldur jafnframt frá nýjum launalögum, nýrri reglugerð um launakjör á póstafgreiðslum, enn fremur af vísitöluhækkun, afnámi vísitöluskerðingar samkv. lögum“ — og síðan bætir hann við: „hærri aukavinnugreiðslu samkv. reglugerð og vegna breyttrar launaflokkunar, hækkuðu verðlagi innanlands og svo ekki sízt frá auknu póstmagni.“

Ég held því fram, að ef það á að vera nokkurt minnsta gagn að vinnu endurskoðendanna sem gagnrýnandi endurskoðun og til að reyna að sýna fram á, að eitthvað hafi verið ófyrirsynju lagt í kostnað, þá sé ekki hægt að vinna svona, heldur verði þá endurskoðendurnir að heimta að fá svona lagaða sundurliðun í sínar hendur, á meðan þeir eru að vinna og skoða svo mismuninn það, sem þeir mættu þá telja raunverulegar umframgreiðslur. Úr þessu verður engin vinna, að þessu verður ekkert gagn annað, en það að geta máske prentað einhvers staðar það, sem ég kalla slettur, það hafi verið svona og svona mikil umframgreiðsla á þessari eða hinni greininni, en allt slitið úr réttu samhengi, eins og þessar upplýsingar, sem ég hef gefið, sýna. Það gat ekki staðizt á fjárveiting og reikningur á nokkurri einustu grein, þegar Alþingi gekk þannig frá því að setja nærri 30 millj. kr. póst í 18. gr., þ. e. a. s. launin, sem áttu svo að skiptast inn í allar hinar greinarnar.

Það er svo víst rétt hjá hv. þm. A-Húnv., að það mun hafa reynzt of lágt áætlað, hvað launalögin kostuðu, en það var áætlað af embættismönnum, sem helzt áttu að hafa möguleika til að geta gert slíka áætlun rétta. Ég verð því að telja, að hv. þm. A-Húnv. hafi staðið sig mjög illa enn sem fyrr í þessu starfi, eða a. m. k. miðað við það markmið, sem hann hefur sett sér og þær fullyrðingar, sem hann hefur haldið fram, því að í stað þess að vera með almennar vangaveltur og athugasemdir, sem raunar voru markleysa að verulegu leyti, þá hefði hann náttúrlega átt að koma fram með hnitmiðaðar athugasemdir við einstök atriði eftir að hafa lagt einhverja vinnu í að setja sig inn í þetta, en ekki bara skoða niðurstöðutöluna á hverri grein fjárl. og bera hana saman við niðurstöðutölu hverrar greinar landsreikningsins. Þetta er engin vinna og satt að segja skil ég ekki, hvernig á því stendur, að hv. þm. skuli ekki hafa dregið af sér slenið og lagt vinnu í þetta.

Hv. þm. sagði, að það væri nokkur ljóður á svörum, að það væri kannske tæpast hægt að segja, að um væri að ræða svör fjmrh. við athugasemdunum. Það vita allir, sem til þekkja í þessum efnum, að þegar gera á grein fyrir útgjöldum í starfsgreinum, sem heyra undir önnur ráðuneyti, þá er aldrei viðhöfð önnur aðferð en sú, að hlutaðeigandi ráðuneyti verður að svara til, þ. e. a. s. það ráðuneyti, sem ber ábyrgð á rekstri þeirrar stofnunar. Það er ekki fjmrn., sem ber ábyrgð á framkvæmd hinna ráðuneytanna, t. d. menntmrn., dómsmrn. o. s. frv. Þau bera ábyrgð á því og þeim stofnunum, sem undir þau heyra og þess vegna hefur aldrei verið hægt að halda öðruvísi á því og það hefur aldrei komið til mála, að það væri gert öðruvísi, en að þessi ráðuneyti verða að gefa fjmrn. skýringu á því, sem þau hafa gert og þær upplýsingar eru svo notaðar að sjálfsögðu, þegar endurskoðendum landsreikninganna er svarað. En þeir eiga aftur aðgang að fjmrn. beint eftir eðli málsins. Það er ekki hægt að finna neitt að þessu, enda man ég satt að segja ekki eftir því, að að þessu hafi verið fundið áður, þó að þetta vinnulag hafi tíðkazt áratugum saman.

Ég vil svona til dæmis í þessu til að sýna, að það er ekki hægt að vinna þetta á aðra lund, taka aths. hv. þm. um barnafræðsluna fyrir árið 1956. Hv. þm. segir, að barnafræðslan hafi kostað 32 millj. og 200 þús. og það séu 8 millj. og 100 þús. umfram fjárlög, þ. e. a. s. hann tekur mismuninn eins og áður á fjárlagaliðnum og landsreikningsliðnum. Menntmrn. lét trúnaðarmenn sína að sjálfsögðu gera grein fyrir þessu eftir kröfu frá fjmrn. Og vegna þess að það gefur nokkra hugmynd um, hvernig unnið er að þessum málum, þá langar mig — með leyfi hæstv. forseta — að greina frá svarinu eða skýrslunni, sem trúnaðarmaður menntmrn. gerði um þetta og ráðuneyti menntamála gerir að sínu svari til fjmrn. og fjmrn. sendir að sjálfsögðu endurskoðendunum. Um þetta segir í þessari skýrslu :

„Það skal tekið fram, að í sumum atriðum eru svörin ekki nákvæm, til þess þyrfti að fara í frumgögn, svo sem hverja einstaka launaskrá. En hér skakkar þó ekki verulega. Hækkanir á þessum þremur liðum frá því, sem er í fjárlögum 1956 og fram kemur í ríkisreikningum, er að rekja til eftirfarandi:

1) Launalög, er tóku gildi 1. jan. 1955.

a) 10% grunnlaunahækkun.

b) Hækkun launa kennara við barnaskóla um einn launaflokk.

c) Aukaþóknun fyrir skólastjóra í tví- og þrískipuðum skólum.

d) Lækkun frádráttar í launum, ef skólinn starfar skemur en 9 mánuði.

e) Hækkun launa gagnfræðakennara um einn starfsmánuð.

f) Hækkun launa námsstjóra um einn launaflokk.

g) Tilsvarandi hækkun vísitölu á ofangreindar launahækkanir.“

Þetta er það, sem gerðist með launalögunum. — Og síðan stendur: 2) Hækkanir vísitölu, þar sem vísitalan var 2.6 stigum hærri, en gert var ráð fyrir. 3) Tveimur námsstjórum var bætt við á árinu 1956. Annar fékk greidd laun frá 1. marz, hinn frá 1. nóv. 4) Of lágt áætluð laun kennara, bæði í barnaskólum og gagnfræðaskólum, í fjárlögum 1956. 5) Reglugerð nr. 92/1956 — umsjónarkostnaður í heimavistarskólum. Síðan segir: „Hér fer á eftir sundurliðun þessara hækkana, eftir því sem næst verður komizt án þess að vinna þetta nákvæmar eftir frumgögnum, sem áður er vikið að.“

Samkvæmt því, sem þarna er upplýst, stafar þessi mismunur af nýju launalögunum, vegna hækkunar á vísitölu, vegna þess að tveir nýir námsstjórar hafa verið settir, vegna þess að laun kennara í barnaskólum og gagnfræðaskólum hafa verið of lágt áætluð af menntmrn., það er það rn., sem ber ábyrgð á þeirri launaáætlun, — og svo af nýrri reglugerð nr. 92/1956 varðandi umsjónarkostnað í heimavistarskólum. Þarna eru náttúrlega tvö atriði, sem mætti segja að hefðu ekki átt að eiga sér stað, að því er mér finnst, nema áður hefði verið búið að taka það inn í fjárlög og það var fjölgun námsstjóranna og þessi nýja reglugerð nr. 92/1956. Það mætti segja, að ef ströng regla hefði verið í þessu, þá hefði ekki átt að gera þessar ráðstafanir, fyrr en búið væri að setja pósta um það á fjárlögin. En þar er ekki fjmrn. um að sakast, ef um sök er að ræða, því að það er ekki það, sem hefur sett þessa reglugerð eða fjölgað námsstjórum, heldur annað ráðuneyti. Og dæmið sýnir glöggt, að það er engin furða, þó að fleiri komi við sögu, þegar svarað er endurskoðendunum, heldur en fjmrn. eða fjmrh.

En ég veit náttúrlega mjög vel, af hverju hv. þm. A-Húnv. er að impra á þessu. Hann er að impra á þessu vegna þess, að hann langar svo mikið til þess, að það líti svo út, að allar umframgreiðslur síðustu 10 árin hljóti að vera Eysteini að kenna. Það virðist vera aðalatriðið hjá hv. þm. A-Húnv. En sannleikurinn er sá, að hér er um mjög flókið mál að ræða og æði margir, sem gera ráðstafanir, sem hafa áhrif á ríkisútgjöldin og því er ekkert einkennilegt og ekki nema sjálfsagt, að þeir séu til kvaddir að standa reikningsskap fyrir sínu máli.

Sannleikurinn er sá, að þó að við höfum verið að kýta, ég og hv. þm. A-Húnv., vegna þess að hann hefur verið að reyna að kenna við mig margt af því, sem mér kemur ekkert við, þá höfum við að vissu leyti verið samherjar á undanförnum árum í því að finna að umframgreiðslum og ýmsum ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið af öðrum til þess að hækka ríkisútgjöld og landsreikning umfram það, sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Og þetta, að við höfum af og til verið að kýta, það sýnist mér stafa aðallega af því, að hv. þm. A-Húnv. vill það endilega og þá get ég ekki verið að skorast undan því. Ég hef heldur ekki geð í mér til þess að láta það fara þegjandi fram hjá mér, að hann er með sífelldar hnútur í minn garð algerlega að ófyrirsynju og um mál, sem ég ber ekki ábyrgð á. Hv. þm. hefur viljað hafa þetta svona, og ég er ekkert að kvarta yfir því í sjálfu sér.

Ég skal svo ekki vera að lengja þessa umræðu með því að fara lengra út í þetta mál og ég lét þessar athugasemdir falla að gefnu tilefni. En ég vil aðeins að lokum benda á, að hv. þm. A-Húnv. sagðist álíta rétt, að reikningur fyrir útflutningssjóð fylgdi ríkisreikningnum, en að fjmrn. hafi ekki viljað fara inn á það eða ekki séð ástæðu til þess. Ég vil bara segja út af þessu, að ef hv. þm. telur það mikið atriði, að reikningur útflutningssjóðs fylgi ríkisreikningnum, þá vil ég benda honum á einfalda leið til þess að reyna að koma vilja sínum fram og hún er sú að flytja brtt. við lögin um útflutningssjóð, það er núna einmitt frv. í þinginu til meðferðar um útflutningssjóð, þar sem berum orðum sé tekið fram, að reikningur útflutningssjóðs skuli birtur með ríkisreikningnum. Og af því að Sjálfstfl. hefur haft áhuga fyrir því undanfarið, að þessar útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur og allt slíkt væri ekki aðeins birt í reikningi með ríkisreikningnum, heldur haft á fjárlögum, þá geri ég líka raunar ráð fyrir því, að annaðhvort við 2. eða 3. umr. fjárlaganna muni koma brtt. frá sjálfstæðismönnum, þar sem þeir geta nú ráðið mestu um afgreiðslu fjárlaganna, um það að bæta þessari súpu allri saman inn á fjárlögin, niðurgreiðslunum og útflutningsuppbótunum. Og mér sýnist það ekki ólíklegt, að þeir geti fengið þessu ráðið, eins og núna standa sakir, að bæta þessu inn á fjárlögin, svo að þessi heildarmynd komi fram, sem þeir fram að þessu hafa verið að tala um að vantaði. Og hitt, sem ég vil benda hv. þm. á, að berjast þá fyrir því, ef hann ekki fengi þetta fram, sem ólíklegt er að hann gæti ekki fengið, að hann flytti þá brtt. um það við útflutningssjóðslögin, að það væri skylt að birta reikninginn með ríkisreikningnum.

Hv. 9. landsk. þm. (6B) minntist nokkuð á nefndarstörf og nefndarkostnað, og ég vil taka undir það með honum, að ég teldi, að það væri æskilegt, að einhvers staðar kæmu fram skýrslur um það, t. d. árlega, hvernig starf hverrar nefndar stendur. En ég geri mér ekki vel grein fyrir því alveg á stundinni, hvar eðlilegt væri, að slík skýrsla kæmi fram, eða hver ætti að krefjast hennar. Það er atriði, sem vert er að íhuga. En varðandi kostnaðinn við efnahagsmálarannsóknirnar get ég að sjálfsögðu ekki gefið sundurliðaðar upplýsingar hér á stundinni, enda verð ég að segja, að ef hv. þm, hefði haft verulegan áhuga fyrir því að vita, hvernig þessi kostnaður var, þá hefði honum verið í lófa lagið að fá upplýsingar um það, á meðan þetta mál var í hv. fjhn. Og fyrst hann ekki gerði það, þá virðist hann ekki hafa séð ástæðu til að leggja vinnu í að fá þessar upplýsingar, en þær getur hann að sjálfsögðu fengið hjá stjórnarráðinu. En ég dreg það ekkert í efa, að í þessu er allur kostnaður eða mér þykir óhugsandi annað, en að í þessu sé allur kostnaður, bæði kostnaður við störf innlendra manna og erlendra.