17.04.1959
Neðri deild: 110. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

115. mál, ríkisreikningar

Eysteinn Jónsson:

Ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. þm. A-Húnv. (JPálm) þurfi að hafa eins og stendur neinar áhyggjur af fjármálastjórn ríkisins eða slíkum efnum, þannig að öllum áhyggjum geti verið af honum létt í því atriði. En það kemur sjálfsagt allt ljóst fram á sínum tíma.

En út af því, sem ég sagði um hlutdrægni hv. þm., þá vil ég taka það fram, að ég átti ekki við hlutdrægni í aths. á undanförnum árum, því að þær hafa, eins og hann hefur tekið fram, verið frá endurskoðendunum sameiginlega, heldur átti ég við þær ásakanir, sem hv. þm. hefur ævinlega í sambandi við meðferð landsreikningsins borið fram hér á hv. Alþingi og eru orðnar fastur líður nú síðustu áratugina í störfum Alþingis, þar sem hann hefur verið með ýmsar órökstuddar fullyrðingar um þessi efni, sem hann svo ekki hefur getað staðið við, þegar hann sem endurskoðandi hefur átt að gera það. Ég átti við þetta, en ekki við aths., sem eru sameiginlegar frá landsreikningsendurskoðendunum, eins og hann réttilega tók fram, að undanskildum aths. hans núna við landsreikninginn 1956, sem vitanlega hljóta að teljast til hlutdrægni frá þeim manni, sem hefur verið endurskoðandi landsreikninganna, þegar umframgreiðslur hafa verið miklu stórfelldari, en þær voru 1956, án þess að hann gerði um það aths. sérstaklega, og eins þegar litið er á það, hvernig frá aths. er gengið, eins og ég ræddi áðan og skal ekki vera að endurtaka.

Hv. þm. gerir lítið úr prósentureikningi, og mér skilst, að hann telji hann villandi. En mér þykir nú furða, ef hv. þm. A-Húnv. vill í raun og veru halda því fram, að það sé hægt að bera saman krónutölur, eins og þær voru t. d. fyrir 10–15 árum, við krónutölur nú, þar sem gildi peninganna er allt annað og krónan ekkert sambærileg. T. d. að þúsund króna umframgreiðsla nú væri hliðstæð við þúsund króna umframgreiðslu fyrir 20 árum, það er auðvitað hrein fjarstæða og það veit ég að hv. þm. sér, enda sé ég ekki betur en hv. þm. telji prósentureikning mjög vel nothæfan, t. d. þegar hann er að reikna út hvað vínneyzla stjórnarráðsins hafi aukizt, því að þá notar hann einmitt prósentureikning við að sýna fram á það. Þá er hann vel nothæfur.

Þetta vildi ég aðeins benda á, að það er ekkert skakkt í því að bera saman tiltölulegar umframgreiðslur fyrr og síðar.

Hv. þm. A-Húnv. vill ekki almennilega sleppa því, að fjmrn. ráði öllu um útgjöld ríkissjóðs, en er þó nú farinn mjög að linast í þessu og orðinn hógvær. Ég vil benda hv. þm, á það og öðrum, að ráðherrar geta sett reglugerðir, sem hafa útgjöld í för með sér, alveg án samþykkis fjmrn., og þess eru dæmi, að slíkar reglugerðir hafa verið settar án samráðs við fjmrn., sem hafa haft í för með sér stórkostleg útgjöld.

Ég vil enn fremur benda á, að samkvæmt bæði venju og stjórnskipulega séð, þá geta aðrir ráðh. en fjmrh. skipað nefndir í einstök mál og krafizt þess, að þeim séu greidd laun fyrir, og þess eru mýmörg dæmi.

Ég vil einnig geta þess, að aðrir ráðh. og stofnanir geta ráðið starfsmenn alveg án samráðs við fjmrn. og hafa gert þráfaldlega og meira að segja gegn mótmælum þess, og fjmrn. getur ekki neitað að greiða þessum mönnum laun. Þeir eru löglega ráðnir, það þarf ekki samþykki fjmrn. til þess, að þeir séu löglega ráðnir og eigi lagakröfu á ríkið fyrir sínum launum.

Þetta höfum við þráfaldlega látið athuga í fjmrn., vegna þess að aðrir ráðh. hafa gert þetta gegn okkar vilja oftar en einu sinni og við létum sérstaklega athuga þráfaldlega, hvort það væri hægt að stöðva þetta með neitun á launagreiðslum. Það var ekki hægt.

Þannig liggja þessi mál, að fjmrn. hefur ekki með höndum framkvæmd á allri útgjaldahlið fjárl., því fer svo alls fjarri.

Þar að auki er svo það að segja, að útgjaldaáætlun er að verulegu leyti líka á ábyrgð annarra. Ég vil t. d. taka það fram, að ár eftir ár hefur það komið fyrir, að áætlanir menntmrn. um kennaralaun hafa reynzt of lágar, sem þeir á vegum rn. hafa gert fyrir fram, þótt þeir hafi fullyrt, að launin mundu verða svona, og af því hafa stundum stafað milljóna umframgreiðslur, sem ég hef ekkert verið ánægðari yfir en hv. þm. A-Húnv. Eins og ég tók fram áðan, höfum við í fjmrn. haft í því mjög svipað sjónarmið og kom fram hjá hv. þm., að vilja hafa umframgreiðslur sem allra minnstar og halda mönnum til þess að vinna þannig að undirbúningi fjárl., að þær þyrftu ekki að verða.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að vera að þreyta þessar umr. Ég vildi aðeins sérstaklega gefa þessar skýringar á því, sem ég átti við, þegar ég deildi á hlutdrægnina.