09.02.1959
Efri deild: 66. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 1. landsk. Samkv. frv. þarf samþykki ráðh. til þess, að heimild sú, sem þar er ráðgerð, verði notuð. Heimildin verður vafalaust ekki notuð nema til þess, að gjöldin geti orðið jafnhá eða svipuð og þau hafa verið áður. Með þessu frv. er ekki stefnt að því, að þau verði hækkuð umfram það, sem þau hafa verið hingað til. Þyki hv. n., sem með málið kemur til með að fjalla, ekki nægilega tryggilega frá þessu gengið í frv., eins og það nú er orðað, þá er ekkert á móti því, að því verði breytt á þá lund, að þarna kæmi einhver takmörkun, t. d. á þann veg að binda hækkunarheimildina við þá skattupphæð eða fjárhæð, sem innheimt hefur verið hingað til af fasteignum, þannig að ekki geti orðið hætta á því, að bæir eða sveitarfélög hækki fasteignaskatta umfram það, sem tíðkazt hefur hingað til. — Ég vildi einungis að gefnu tilefni skjóta þessu hér fram til athugunar fyrir hv. nefnd.