09.02.1959
Efri deild: 66. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni þess, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér áðan. Hann telur, að mín ummæli hafi verið mjög villandi. Ég get ekki fallizt á það. Ég vil undirstrika það enn, að ég er ekki í grundvallaratriðum andvígur því, að fasteignagjöld hækki. Ég hafði sjálfur fylgt því í bæjarstjórn á árinu sem leið, þegar samþykkt var gerð um það. En síðan, nú eftir áramót, varð veruleg breyting á með setningu nýrra laga um efnahagsmál. Í tilefni af því flutti fulltrúi Framsfl. till. um, að þessi hækkun kæmi ekki til framkvæmda, — eingöngu í tilefni af því. Og eingöngu í sama tilefni fylgdum við Alþb.-menn þeirri till. í bæjarstjórn. Og það eru meira að segja fjölmargir menn í Sjálfstfl., sem álitu þetta eðlilegt og sjálfsagt, sennilega allir þeir sjálfstæðismenn, sem nokkur alvara var með, að verðlag í landinu ætti að stöðvast og lækka. Ég skal aðeins lesa — með leyfi hæstv. forseta — nokkur orð úr einu stjórnarblaðinu 3. febr. 1959 um þetta mál, en þau eru í stjórnarblaðinu Vísi:

„Fyrir nokkru var boðuð hækkun á ýmiss konar gjöldum til Reykjavikurbæjar. Kom það mjög flatt upp á marga, þar sem þetta var gert um það bil, sem ákveðið var að lækka vísitöluna verulega og þar með laun manna, auk þess sem vörur allar og þjónusta eiga að lækka um vissan hundraðshluta. Menn munu nú almennt hafa gert ráð fyrir, að bæjaryfirvöldin mundu breyta afstöðu sinni í þessu máli, en ekki hefur verið tilkynnt um það enn. Getur það þó orðið fljótlega og verður raunar að gerast, því að þótt bærinn þarfnist vitanlega mikils fjár til mikilla og margvíslegra framkvæmda, verða að gilda sömu reglur um hann og aðra. Það er líka hættulegt vopn, sem meiri hl. bæjarstjórnar selur andstæðingum Sjálfstfl. í hendur, ef ekki verður breyting á þessu.“

Þetta sagði stjórnarblaðið Vísir 3. febr. s. l., en síðan hefur það skeð, að bæjarstjórnarmeirihl. þráast við og heldur fast við sína hækkun þrátt fyrir allt skraf hér á hinu háa Alþingi í sjálfstæðismönnum um nauðsyn á lækkun verðlags og launa.

Ég hef því miður orðið var við það, að alvaran hjá Sjálfstfl.-mönnum og Alþfl.-mönnum að baki því að lækka vöruverðið til jafns við launin eða til móts við launalækkunina er ekki nógu mikil. Þess vegna er það og að fenginni reynslu á síðasta bæjarstjórnarfundi, að ég vantreysti því, að ekki verði notuð heimild af hálfu bæjarstjórnarmeirihl. til þess að hækka um 100% fasteignaskattinn frá því, sem hann nú er ákveðinn. Og þó að ég treysti hæstv. dómsmrh. til alls hins bezta í þessu máli, þá verð ég þó að segja, að ég treysti ekki allt of vel öllum hans flokksmönnum í máli sem þessu. En ef þetta yrði sem sagt að lögum óbreytt og bæjarstjórnarmeirihl. freistaðist til þess að vilja nota sér þá heimild, þá er traustið þar, að hæstv. ráðh standi á móti.