27.02.1959
Efri deild: 76. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef áður látið það í ljós, að ég teldi fasteignaskatt réttlátan gjaldstofn og vil þess vegna frv. áfram. Ég skal líka bæta því við, að ég tel rétt, að sveitarstjórnirnar, hreppsnefndir eða bæjarstjórnir, hafi sem rúmastar hendur í þessu máli. Þess vegna vil ég, þar sem ég er líka með stöðvunarstefnu ríkisstj., lofa þeim að hafa þær innan þeirra marka, sem áður voru með þennan skatt, en ekki gefa þeim það rúmar hendur, að þær geti hækkað hann úr því, sem hann var fyrir 1. maí 1957. Þess vegna er mín till. fram komin. Og mér er alveg sama, hvort hún er borin upp núna eða komi ekki fyrr en við 3. umr., það skiptir mig engu máli og tillöguna.