03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það er kannske minna undrunarefni fyrir mig, að hv. n. hefur ekki getað fallizt á mína till., sem ég flyt á þskj. 288, heldur en það, að n. skuli ekki geta fallizt á till. hv. 1. þm. N-M., sem er á þá lund, að gjöldin til sveitarfélaganna, sem miðuð eru við fasteignamat, skuli aldrei verða hærri en þau voru hæst, er síðasta fasteignamat tók gildi.

Þegar hæstv. félmrh. mælti hér fyrir þessu frv. fyrir nokkrum dögum, tók hann það sérstaklega fram og rökstuddi frv. með því, að það væri alls ekki meiningin að hækka gjöldin frá því, sem nú væri og taldi þá ekki óeðlilegt, að n. gerði þessa breyt. á frv., ef ekki þættu nægilega tryggar hans yfirlýsingar um það, að rn. hans mundi ekki leyfa slíkar hækkanir.

Ég verð að segja það, að mér finnst miklu meiri ástæða til þess að vera á móti frv. eftir þessa afgreiðslu n. heldur en áður, því að mér þykir sýnilegt, að með því að lýsa yfir andstöðu sinni við þessa till. hv. 1. þm. N-M., þá sé um leið sama sem verið að lýsa því yfir, að meiningin sé að opna allar gáttir fyrir t. d. Reykjavíkurbæ til að þrefalda fasteignagjöldin frá því, sem nú er.

Hitt er aftur að sjálfsögðu matsatriði, sem menn geta haft mismunandi skoðanir á, hvort eigi að gera upp á milli íbúðarhúsnæðis og annars húsnæðis. Ég tel það vera fyllilega réttmætt, eins og ég rökstuddi hér fyrr í þessum umr., að þarna sé gerður nokkur munur á.

Það komu fram hér tvennar röksemdir gegn þessari till. frá hv. frsm. meiri hl. n.: Í fyrsta lagi, að hækkunin á fasteignagjöldunum kæmi ekki að gagni, ef íbúðarhúsnæði yrði undanskilið og í öðru lagi, að það væru svo miklir erfiðleikar á framkvæmd slíkrar skiptingar, að það væri ekki fært að samþykkja till. af þeirri ástæðu. Það er að sjálfsögðu rétt, að hækkunin mundi ekki gefa bæjarfélögunum eins mikið, ef íbúðarhúsnæði yrði undanskilið. Það gefur náttúrlega auga leið. En ég hygg samt, að í flestum tilfellum mundi þetta þýða það, að hækka mætti gjöldin á þriðjungi alls húsnæðis. Og þar sem ekki er undir neinum kringumstæðum um mjög tilfinnanlega tekjulækkun að ræða hjá bæjarfélögunum, jafnvel þó að ekki væri heimild til að hækka fasteignagjöld á neinu húsnæði, þá teldi ég þetta vera hóflegri leið. Að þarna séu miklir erfiðleikar í framkvæmd, það get ég ekki fallizt á, nema e. t. v. hér í Reykjavík. Það er ekki fyrir það að synja, að hér kynnu að vera einhverjir erfiðleikar á framkvæmdinni. En ef það er ekki meiningin að hækka gjöldin frá því, sem nú er, þá snertir till. alls ekki Reykjavík. Og mér er kunnugt um það, öfugt við það, sem hv. frsm. meiri hl. lýsti hér, að það hafa ekki komið fram neinir örðugleikar á að framkvæma þetta í því eina bæjarfélagi, þar sem það hefur verið reynt hingað til. Og ég get líka upplýst það, að athugun fór fram á þessu í því bæjarfélagi, þar sem ég er kunnugastur og þar voru ekki taldir neinir örðugleikar á því að hafa á þennan hátt út frá því séð, að það væri svo erfitt að skipta húsnæði, þar sem bæði væri verzlun eða einhver annar atvinnurekstur og íbúðir. Í bæjum utan Reykjavíkur er ekki um það að ræða í svo stórum stíl, að það geti valdið nokkrum erfiðleikum. En eins og ég gat um áðan, ef allt er með felldu og fer í samræmi við það, sem m. a. hæstv. félmrh. hefur lýst yfir um framkvæmd á þessu frv., þá snertir þetta atriði ekki Reykjavíkurbæ.