03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég heyri það, að n. leggur á móti því, að mín brtt.samþ. Við því er nú ekkert að segja út af fyrir sig. En dálítið er ég samt hissa á því. Ég er hissa á því, að fjórir nm. skuli vera sammála um það að heimila bæjarstjórnum og hreppsfélögum að hækka þessi gjöld frá því, sem þau voru, áður en fasteignamatið gekk í gildi. Ég er hissa á því. Einn þessara manna telur sig ákveðinn flokksmann núv. ríkisstj., sem er að reyna að lækka. En hér vill hann hækka. Hann vill láta standa heimild um, að það megi hækka fasteignagjöldin þó nokkuð í nokkrum bæjarfélögum í landinu. En látum það nú vera. Tveir af þeim, sem skrifa undir nál., formaður og annar til, eru stuðningsmenn núv. ríkisstj, og telja sig vilja lækka tilkostnaðinn við hvað eina í landinu. Þeir eru þó með því að hækka hér. Þeir vilja láta standa heimild um, að hér megi hækka. Já, sjálfsagt að láta það standa, segja þeir.

Hvað gengur nú þessum mönnum til? Þessir tveir síðastnefndu eru þar að auki menn þess flokks, sem setti það að skilyrði, ófrávíkjanlegu skilyrði, til þess að fylgja fasteignamatinu, þegar það var samþykkt á Alþingi, að það yrðu sett inn ákvæði um það, að fasteignamatsgjöldin hækkuðu ekki. Voru þeir á móti því innan flokksins, þegar þetta var sett fram af flokknum? Eða hefur þeim snúizt hugur síðan og vilja nú láta hækka það, sem þeir þá vildu láta standa í stað? Ég spyr. Ég skil ekki þetta. Og hæstv. ráðh., þegar hann leggur málið fyrir, þá gengur hann út frá því, að eins og frv. sé, þá eigi ekki að felast í því nein hækkun og að stjórnarráðið muni bremsa, ef einhver hækkun eigi að verða. Það kann vel að vera, að þessi stjórn, sem vill nú allt lækka og hefur tekizt það töluvert, — það kann vel að vera, að hún geti sett stólinn fyrir dyrnar og bannað, að það sé hækkað. En hvað situr hún lengi? Erum við bara að semja þessi lög, á meðan hún er? Og treystum við því, að hún sitji það lengi, að það sé ekki hætta á, að það komi hækkun hér á? Ég skil ekki þetta. Ég skil ekki, hvernig stendur á, að tveir menn, sem settu þau skilyrði, þegar fasteignamatslögin voru sett, að það yrðu sett inn í þau ákvæði um það, að engin gjöld af fasteignum mættu hækka og það var orðið við því, nú vilja þeir brjóta það skilyrði, sem þeir þá settu og skapa möguleika fyrir því, að gjöldin geti hækkað. Það eru ekki annars flokks menn, sem vilja gera það. Nei, það eru þeir sjálfir. Þeir eru að brjóta þau eigin skilyrði, sem þeir þá settu, og láta fasteignagjöldin geta hækkað. Ég skil það ekki. Og ég skil heldur ekki, hvers vegna þeir menn, sem eru áfram um að reyna að lækka sem allra flesta útgjaldaliði í landinu, sem hvíla á einstökum mönnum, vilja láta fasteignagjöldin hækka. Ég skil heldur ekki, hvernig stendur á því, að þeir vilja láta skapa möguleika til þess, að það sé hægt að hækka þessi gjöld, þó að þeir treysti stjórninni til að halda þeim í skefjum núna eitthvað fyrst, á meðan hún situr. En hafa þeir nokkra ábyrgð fyrir því, að hún sitji svo lengi, að hún geti haldið þeim í skefjum að eilífu? Ég vil ekki láta þau hækka. Meðan sú stefna ríkir í fjármálum, sem nú er, þá vil ég ekki láta þau hækka frá því, sem þau voru, og standa við þá samninga, sem gerðir voru við Sjálfstfl., þegar fasteignamatslögin voru samþykkt.