06.03.1959
Neðri deild: 87. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

125. mál, almannatryggingar

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þó að félagsmálalöggjöf standi á allháu stigi hér á landi, miðað við mörg önnur lönd, þá fer því að sjálfsögðu víðs fjarri, að á því sviði sé ekki víða umbóta þörf.

Eitt þeirra atriða á sviði félagsmála, sem nokkuð hafa dregizt aftur úr, er slysatryggingar. Fyrsti vísir að lögboðinni slysatryggingu hér á landi kom fram í lögum nr. 40 frá 10. nóv. 1903, um lífsábyrgð fyrir sjómenn á þilskipum. Þar var ákveðið, að greiða skyldi nokkra upphæð í dánarbætur fyrir sjómenn, sem fórust af þilskipum. Árið 1925 var stofnað til almennari slysatrygginga, sem náðu ekki aðeins til sjómanna, heldur einnig til iðnaðarmanna og ýmissa hópa verkamanna. Slysatryggingalöggjöf var síðan felld inn í alþýðutryggingalögin frá 1936 og er nú í 3. kafla almannatryggingalaga.

Slysa- og dánarbætur hafa jafnan verið lágar og hafa ekki hækkað á undanförnum árum til jafns við ýmsa aðra hluti. Þær hafa ekki bætt nema lítinn hluta þess tjóns, sem orðið hefur af slysum, þó að þær að sjálfsögðu hafi verið góðra gjalda verðar, svo langt sem þær hafa náð.

Því var það, að snemma á yfirstandandi Alþingi flutti ég ásamt þeim hv. 5. og hv. 10. landsk. þm. til., til þál. um, að Alþingi fæli ríkisstj. að láta fara fram endurskoðun á ákvæðum almannatryggingalaganna um upphæð slysabóta, með það fyrir augum, að slíkar bætur yrðu hækkaðar. Eftir að mér hafði verið falin forstaða félmrn., fól ég n. kunnáttumanna að endurskoða þessi lagaákvæði. Hér er um talsvert vandaverk að ræða, sem óhjákvæmilega tekur nokkurn tíma.

Þá gerðist það eftir s. l. áramót, er Landssamband ísl. útvegsmanna og sjómannasamtökin innan Alþýðusambands Íslands gerðu með sér heildarsamning um fiskverð o. fl., að samningsaðilar ákváðu að beita sér fyrir því við ríkisstj. og Alþingi, að dánarbætur eftir lögskráða sjómenn skyldu hækkaðar um 100%, og þeirri hækkun yrði komið á með breyt. á lagaákvæðum um slysatryggingu nú á yfirstandandi Alþingi. Tilmæli um þetta hafa síðan komið til félmrn. bæði frá Alþýðusambandi Íslands og Landssambandi ísl. útvegsmanna. Ríkisstj. vill fyrir sitt leyti verða við óskum sjómannasamtakanna og landssambandsins um þetta efni, og frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á l. nr. 24 29. marz 1956, um almannatryggingar, er flutt í því skyni að mæta óskum þessara aðila.

Í frv. felst það, að slysabætur vegna dauða lögskráðra sjómanna, sem greiddar eru í eitt skipti fyrir öll, hækki um 100% frá því, sem nú er. Þá er einnig lagt til, að hækkun þessi gildi frá s. l. áramótum, þannig að þessar hækkuðu bætur greiðist vegna dauðaslysa lögskráðra sjómanna, er átt hafa sér stað eftir s. l. áramót. Þetta þýðir að sjálfsögðu það, að reglum um áhættuiðgjöld verður að breyta frá sama tíma. Það mun að sjálfsögðu valda erfiðleikum og aukinni fyrirhöfn við iðgjaldainnheimtu, sem annars á sér stað fyrir fram. En eins og á stendur, þykir ekki verða hjá því komizt.

Frv. þetta gerir ráð fyrir, að enn breikki bilið milli dánarbóta lögskráðra sjómanna og annarra slysatryggðra manna. Það er að vísu vafasamt og má eflaust um það deila, hvort slíkt sé réttmætt út af fyrir sig. En að svo komnu máli vil ég gera ráð fyrir því, að þeir kunnáttumenn, sem nú fjalla um slysatryggingarnar almennt, muni á sínum tíma leggja til, að bil þetta minnki aftur, með því að hinar almennu slysa- og dánarbætur verði hækkaðar.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.