23.10.1958
Efri deild: 8. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

4. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það var áðan verið að vísa til 3. umr. frv. um framlengingu á lögum um tekjur til ríkissjóðs. Það er nú til umr. að vísa öðru frv., sem líka er um framlengingu á lögum, sem gefa ríkissjóði tekjur, til 3. umr. Frsm. fyrra málsins, sem hér er á dagskrá, tók það fram, að n. hefði borið frv. saman við lög þau, sem nú gilda um þetta efni, og séð, að ártalinu hefði verið breytt og hefði ekkert við það að athuga, svo að það gilti fyrir 1959, í staðinn fyrir að hitt gilti fyrir 1958. Er nú ekki þörf á að athuga þetta svolítið meira?

Síðari frsm. nefndi ekki, hvað þeir hefðu sérstaklega athugað við frv. Væntanlega hafa þeir borið saman við gildandi lög og séð, að ártalinu hafi verið rétt breytt frá núgildandi lögum og öðru ekki.

Mér sýnist allt útlit á því, að það muni þurfa þó nokkru meiri tekjur fyrir árið 1959, heldur en 1958 og að það sé ekki búið að grandskoða það, hvaðan þær tekjur eigi að koma. Og ég vildi spyrja fjhn. að því, hvort hún er svo viss um það, að ekki þurfi að hækka liði, sem á þessum lögum eru, að það sé ástæða til að drífa þau í gegn, áður en farið er að leggja nokkurn grundvöll að því af þinginu sem heild a.m.k., hvernig þeirra viðbótartekna verður aflað, sem áreiðanlega koma til með að vanta til að geta látið fjárlög standast á. Mig langaði til að vita hjá n., sem hefur haft bæði þessi mál til meðferðar, hvort hún hefur athugað þetta og hvort það er nú sú óskaplega nauðsyn á að flýta framgangi þessara mála, að þau séu afgreidd, áður en ljóst liggur fyrir a.m.k. mér og ég býst við fleiri þm., hvort ekki þurfi að hækka einhverja liði á þeim til að afla tekna ásamt með mörgu öðru, sem gera þarf til tekjuöflunar.