21.04.1959
Efri deild: 105. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

125. mál, almannatryggingar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir nú, er til 2. umr., en rétt á eftir eru á dagskránni brtt. við sömu lög og þetta frv. er brtt. við og í Nd. er í dag rætt enn eitt frv. um breyt. á sömu lögum, öll á almannatryggingalögunum. Það frv., sem liggur fyrir seinna á dagskránni, er ekki komið enn þá til umr. hér, þótt það liggi fyrir að gera það. Hæstv. ráðh. mun gera grein fyrir því, þegar að því kemur, vona ég, þó að hann sé í Nd. núna.

Nú er spurningin, hvernig á með þetta að fara. Það er alveg sýnilegt, að frv. verða alltaf tvö samþ., annars vegar frv., sem verið er að gera að lögum í dag í Nd., og hins vegar sjálfsagt þetta frv., sem við setjum nú til 3. umr. eftir örfá augnablik. En þá kemur spurningin, áður en það frv., sem við nú ræðum, kemur til 3. umr.: Á þá ekki að reyna að sameina þessi tvö frv., sem við erum með bæði í dag á dagskránni? Ef það er meining hæstv. ríkisstj., að þau fari bæði í gegn, þá er náttúrlega sjálfsagt fyrir n., sem nú fær þetta frv. til meðferðar, sem við nú erum að ræða, að bíða með það, þangað til hún er búin að athuga frv., sem nú kemur frá ríkisstj. og er til 1. umr. hér í dag.

Annars er náttúrlega fyrir neðan allar hellur að láta fyrir sama þingið með dálitlu millibili þrjú frv. til breyt. á einum og sömu lögunum, svo að maður, sem eftir tvö eða þrjú ár vill sjá, hvað eru lög í almannatryggingunum, hann flettir upp þingtíðindum nú í ár og sér, að þarna hefur verið gerð við þau breyting, — en hvernig á honum að detta í hug, að sama þingið hafi verið að leika sér að því að eyða tíma í að gera þrjár brtt. við sama frv og semja þrjú lög til að breyta þeim?

Ég vil biðja n. að athuga þetta. Ef það er meining hæstv. ríkisstj., að þetta frv., sem hún leggur fram í dag, eigi að fara í gegnum þingið, frumvarp, sem mun hafa í för með sér nokkra milljónatugi í útgjöld, þá þarf að reyna að sameina það þessu frv., sem við erum með núna og það vil ég biðja n. að athuga vel, áður en hún kemur með þetta frv. aftur til 3. umr.