20.10.1958
Sameinað þing: 3. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

1. mál, fjárlög 1959

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú lagt fram þriðja fjárlfrv. vinstri stjórnarinnar og mun þetta frv. sízt vekja minni undrun þjóðarinnar en þau fyrri. Núverandi hæstv. fjmrh. hefur farið með yfirstjórn fjármála ríkisins allt frá 1950. Fyrstu sex ár þessa tímabils naut hann samstarfs Sjálfstfl. Allan þann tíma var hagur ríkissjóðs mjög góður og milljónatuga greiðsluafgangur sum árin, enda þótt skattar væru lækkaðir, þar til árið 1956, að afla varð ríkissjóði nokkurra viðbótartekna vegna afleiðinga stórverkfallsins 1955. Var næsta eftirtektarvert, að hinn mikli greiðsluafgangur frá þessum tíma var það helzta jákvæða, sem hæstv. fjmrh. taldi fram í frumræðu sinni nú ásamt ýmiss konar öðrum merkum ráðstöfunum frá stjórnartíð tveggja fyrrverandi ríkisstj. Hlýtur það að hafa vakið athygli margra, að í yfirliti sínu tók fjmrh. ekki sérstaklega blómatíma núverandi ríkisstj., heldur allt tímabilið frá 1950, sem sýnilega er gert til þess að fá fallega útkomu.

Eftir þessa reynslu af samstarfi við Sjálfstfl. um fjármál ríkisins uppgötvaði fjmrh. það allt í einu snemma árs 1956, að ógerlegt væri að stjórna fjármálum ríkisins í samvinnu við Sjálfstfl. Efnt var því til núverandi stjórnarsamstarfs og nýir tímar áttu að renna upp varðandi fjárstjórn ríkisins svo sem önnur helztu vandamál þjóðarinnar.

Hin nýja stefna í fjármálum ríkisins, sem hæstv. fjmrh. hafði þráð svo mjög, sagði fljótt til sín. Stórfelldur greiðsluhallabúskapur hélt innreið sína, afla þurfti ríkissjóði hundrað millj. kr. nýrra tekna í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1957 og þrátt fyrir þessa miklu tekjuöflun hefur orðið um 70 millj. kr. greiðsluhalli hjá ríkissjóði árið 1957. Tekjurnar 1957 fóru aðeins 39.5 millj. kr. fram úr áætlun, en gjöldin 107.8 millj. Virðist það vera orðin föst venja hjá hæstv. fjmrh. að eyða a. m. k. 100 millj. kr. á ári umfram heimildir fjárlaga.

Hæstv. fjmrh. taldi í framsöguræðu sinni raunar greiðsluhallann ekki nema 22 millj., en mér er ekki ljóst, hvernig sú upphæð er fundin. Ég hef stuðzt við niðurstöður ríkisreiknings, en fjmrh. sleppir sýnilega stórum upphæðum. Kemur hér fram, sem ég hef oft fundið að, hversu yfirlitsreikningurinn er settur upp, þannig að árlega er deilt um, hver raunveruleg niðurstaða sé.

En það er ekki aðeins varfærnin um áætlun tekna og gjalda ríkissjóðs, sem hæstv. fjmrh. virðist hafa fórnað í þágu hinnar nýju fjármálastefnu, heldur sýnist einnig hafa glatazt öll viðleitni eða geta til þess að marka nokkra stefnu um afgreiðslu fjárl. Hafa tvö síðustu fjárlfrv. verið svo hörmulega úr garði gerð, að furðulegt er, að slík plögg skuli koma úr höndum jafnþaulreynds manns og hæstv. fjmrh., sem hefur lengur gegnt embætti fjmrh., en nokkur annar Íslendingur. Hefur í grg. beggja þessara fjárlfrv. verið afdráttarlaust lýst yfir fullkomnu úrræðaleysi til að afgreiða fjárl. á sómasamlegan hátt. Má að vísu segja, að sú hreinskilni sé góðra gjalda verð, ef menn þá jafnframt draga þær réttu ályktanir af uppgjöfinni: að segja af sér, en það mun hvorki fjmrh. né ríkisstj. hafa hugkvæmzt að gera. Þetta algera úrræða- og stefnuleysi hefur leitt hæstv. fjmrh. út í sífellt verri ógöngur, sem náðu hámarki við afgreiðslu síðustu fjárl., þegar hann greip til þess einstæða óyndisúrræðis að taka margra milljónatuga útgjöld út af fjárl. til þess að geta á pappírnum afgreitt þau greiðsluhallalaus. Það er ekki vandamikið að sýna góða útkomu á búreikningum sínum með þeim hætti. Kannske þessi nýja reikningsfærsla eigi að vera lausnarorð ríkisstj. til þjóðfélagsborgaranna úr þeim miklu lífsbjargarerfiðleikum, sem dýrtíðarflóð verðbólguöngþveitisins magnar með hverjum mánuðinum.

Þegar fjmrh. lagði fram fyrsta fjárlfrv. vinstri stjórnarinnar haustið 1956, örlaði þar ekki á annarri nýbreytni en þeirri, að sýnilegt var, að fjárlögin yrðu með greiðsluhalla, ef ekki kæmi til ný tekjuöflun. Var það borið fyrir, að ríkisstj. hefði ekki unnizt tími til að marka hina nýju stefnu og stuðningslið ríkisstj. í fjvn. kom með þá skáldlegu samlíkingu í nál. sínu, að þegar stokkið væri af vagni, yrði í fyrstu að hlaupa í sömu átt og vagninn til þess að missa ekki fótanna.

Þegar fjárlfrv. fyrir 1958 var lagt fram, kom í ljós, að þessi hlaupakenning stjórnarliðsins ætlaði ekki að reynast sérstaklega giftusamleg. Frv. sýndi eigi aðeins algera uppgjöf fjmrh. við að sporna fótum gegn sívaxandi útþenslu ríkisútgjalda, heldur var því beinlínis lýst yfir í grg. frv., að fjmrh. gæti ekki bent á nein úrræði til þess að afgr. greiðsluhallalaus fjárl., af því að ekki hefði fengizt tækifæri til þess að hafa samráð við þingmenn stjórnarflokkanna.

Þeim mönnum, sem haft höfðu álit á forustuhæfni hæstv. fjmrh., hnykkti við og það mun hafa verið mat þeirra manna, sem mest umburðarlyndi áttu, að slíka gjaldþrotayfirlýsingu gæti enginn fjmrh. gefið oftar en einu sinni án þess að biðjast lausnar. En einhvern tíma verður allt fyrst.

Í fjárlfrv. sínu fyrir árið 1959 hefur hæstv. fjmrh. tekizt að setja nýtt met. Nú er ekki lengur talað um, að úrræðanna sé að vænta hjá þingliði ríkisstj., heldur þingum ýmissa stéttasamtaka í landinu. Hafa menn nokkurn tíma þekkt aðra eins fjármálaforustu?

Fjárlfrv. fyrir árið 1959 er jafnvel enn ómerkilegra plagg, en fjárlfrv. fyrir árið 1958, og er þó langt jafnað. Í frv. örlar ekki á neinni fjármálastefnu. Safnað hefur verið saman hinum hefðbundnu upplýsingum frá stofnunum ríkisins og efnisniðurröðun í frv. hefur verið breytt allverulega, þannig að útgjaldaliðirnir eru flokkaðir saman eftir þeim ráðuneytum, sem viðkomandi málaflokkar heyra undir. Er það sennilega gert til þess, að ljósar liggi fyrir, að önnur ráðuneyti, en fjmrn. séu útgjaldaráðuneyti, svo sem fjmrh. lagði mikla áherzlu á í fjárlagaræðu sinni í fyrra.

Í fjárlfrv. er miðað við kaupgreiðsluvísitöluna 183 stig, sem er sú vísitala, er bjargráðaútreikningarnir voru miðaðir við. Er þó ljóst, að strax fyrir þessi áramót verður vísitalan orðin miklu hærri, hvað þá á næsta ári, nema róttækar skipulagsbreytingar verði gerðar á því kerfi. Um þetta segir aðeins í grg. frv., að það sé nauðsynlegt að taka sjálft vísitölukerfið til athugunar, þar eð kaupgjald og afurðaverð breytist sjálfkrafa með breytingu á framfærsluvísitölu. Engin vísbending er gefin um það, hvaða lausn sé líkleg á þessu mikla vandamáli, heldur er það eitt sagt, að slík mál verði að leysa í nánu samstarfi við stéttasamtökin í landinu.

Niðurstaða af sjóðsyfirliti fjárlfrv. er 900 millj. kr. Er þar um að ræða 93 millj. kr. hækkun frá fjárl. þessa árs. Raunverulega er þó hækkunin meiri, því að nú hafa öll útgjöld vegna niðurgreiðslna á vöruverði verið flutt yfir á útflutningssjóð, og fellur því niður af þeim sökum 40 millj. kr. útgjaldaliður hjá ríkissjóði.

Þessa miklu útgjaldaaukningu telur fjmrh. að miklu leyti stafa af afleiðingum efnahagsráðstafana ríkisstj. s. l. vor. Með bjargráðalögunum varð mikil hækkun á verðtolli og söluskatti. Var áætlað, að tekjur ríkissjóðs ykjust af þessum sökum um 140–150 millj. kr. Þessi nýja tekjuöflun er þannig étin algerlega upp.

Samkvæmt útreikningum, sem hæstv. menntmrh. hefur nýlega birt í ræðu, er áætlað, að bjargráðin valdi 28 stiga hækkun á vísitölu. Að vísu hélt ráðh. því fram, að hækkunin stafaði fyrst og fremst af kauphækkunum, en kauphækkanirnar eru vitanlega afleiðing dýrtíðarflóðsins, sem ráðstafanir ríkisstj. hafa valdið.

Nú þegar hefur vísitalan hækkað um 25 stig, og er afleiðingin 17 stiga hækkun kaupgjaldsvísitölu strax 1. des. Eru þá ekki komnar fram verðhækkanir þær, sem ríkisstj. lofaði vegna kauphækkunar Dagsbrúnar og þessi mikla hækkun kaupgjaldsvísitölunnar hlýtur svo aftur að valda nýjum hækkunum og allar leiða hækkanir þessar af sér stóraukin útgjöld, bæði fyrir ríkissjóð og útflutningssjóð, svo sem réttilega er bent á í grg. fjárlfrv. Áætlað er, að hvert vísitölustig kosti ríkissjóð 2 millj. kr. Að óbreyttu skipulagi verða því strax í byrjun fjárhagsársins fallin á ríkissjóð um 40 millj. kr. ársútgjöld, sem ekki er reiknað með í fjárlfrv. Að vísu segir í grg. frv., að ekki hafi verið hægt að reikna með annarri vísitölu, en vitað var um, þegar frv. var samið. Þessi staðhæfing er út í bláinn, því að við undirbúning fjárl. er yfirleitt reynt að mynda sér skoðun um, hver sennileg vísitölubreyting verði á væntanlegu fjárhagsári. Hefði fjmrh. a. m. k. getað fengið lánaða þá áætlun, sem menntmrh. gerði, því að ekki er svo ónáið samband milli þessara tveggja hæstv. ráðh.

Sé hins vegar ætlunin að leysa vandann með því að festa vísitöluna og láta heldur ekki koma til framkvæmda þá 17 stiga hækkun, sem þegar er orðin, þá lítur málið auðvitað út á annan veg. En um það tjóa ekki neinar hálfkveðnar vísur eða bollaleggingar um það, að þeir aðilar eigi að bjóða að fyrra bragði fram þá lausn, sem helzt eiga að verða fyrir barðinu á henni, en ríkisstj. sjálf hafi ekki kjark til að forma ákveðnar tillögur um það efni.

Ég öfunda ekki hæstv. fjmrh. að standa nú andspænis afleiðingum fjármálaþróunar þeirrar nýju stefnu, sem hann taldi svo mikilvægt að koma í framkvæmd árið 1956, að hann gekk til stjórnarsamstarfs við flokk, sem hann til þess tíma hafði talið versta óhappaaflið í íslenzkum stjórnmálum og hefur síðan beinlínis lagt kapp á að afneita í orði og verki þeim kenningum, sem hann áður taldi meginatriði.

Þegar hæstv. forsrh. lét gera hina margumtöluðu úttekt á þjóðarbúinu við valdatöku vinstri stjórnarinnar, úttekt, sem stranglega hefur verið haldið leyndri fyrir þjóðinni, væntanlega af hlífð við Sjálfstfl., þá lýsti forsrh. því yfir, að úttektin hefði staðfest, að efnahags- og fjármálakerfi þjóðarinnar væri helsjúkt. Hvaða lýsingarorð halda menn þá að helzt mætti nota til þess að lýsa heilsufari efnahagskerfisins í dag eftir rúmlega tveggja ára læknisaðgerðir ríkisstj. hans?

Í stað greiðsluafgangs er kominn verulegur hallarekstur hjá ríkissjóði og ríkisstj. hefur nú beinlínis vísað frá sér þeim vanda að finna úrræði til þess að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl. fyrir næsta ár.

Lagðar hafa verið á tveimur árum á þjóðina nýjar álögur, sem nema 900–1000 millj. kr. og þó er stöðvun framleiðslunnar á næsta leiti, ef ekki tekst fyrir áramót að finna ný úrræði henni til bjargar. Vegur lítið á móti svo stórkostlegri hækkun tolla smávægileg lækkun beinna skatta, enda eru þær lækkanir ekki meiri en svo, að beinir skattar eru áætlaðir 5 millj. kr. hærri í frv. en fjárl. þessa árs.

Framfærsluvísitalan hefur hækkað um 31 stig eða úr 186 stigum í 217 stig og mikil frekari hækkun væntanleg á næstu mánuðum. Nú á einum mánuði hefur vísitalan hækkað um 13 stig.

Þessu til viðbótar hafa niðurgreiðslur hækkað mjög mikið. Eru nú samtals greidd niður 22 vísitölustig, en þar af er 9.6 stiga niðurgreiðsla til komin í tíð vinstri stjórnarinnar, aðeins á tveimur árum. Er fróðlegt að íhuga til samanburðar, að frá árslokum 1952 til miðs árs 1955, þegar áhrifa verkfallsins mikla byrjaði að gæta, stóð framfærsluvísitalan alveg í stað og voru þó niðurgreiðslur aðeins auknar sem nam 1.65 vísitölustigi á árunum 1953–55. Hefði hæstv. fjmrh. 1956 viljað sinna tillögum sjálfstæðismanna um stöðvun vísitöluhækkana með auknum niðurgreiðslum, þyrfti þjóðin ekki nú að standa andspænis því öngþveiti, sem blasir við. Nei, þá sem oftar varð öll skynsemi að víkja fyrir pólitískri ævintýramennsku Framsfl.

Nú í sumar og haust hefur flóðalda verðhækkana og dýrtíðar á öllum sviðum magnazt svo, að óþekkt er áður. Hafa komið vikur, sem tilkynntar hafa verið nýjar verðhækkanir daglega. Heilbrigt viðskiptalíf hefur stórlega lamazt, en óheilbrigð spákaupmennska aukizt. Sýnilegt er, að fjárlög ársins 1959 munu ná milljarðsmarkinu og samkvæmt áætlun, um tekjuþörf útflutningssjóðs, var reiknað með 1.200 millj. til greiðslu núgildandi bóta. Er þá heildarskattheimtan komin töluvert yfir 2.000 millj. kr. og hlýtur þó að verða enn meiri, ef halda á áfram á sömu braut.

Um afkomu ríkissjóðs og útflutningssjóðs, það sem af er þessu ári, er mér ekki kunnugt, en nokkra vísbendingu gefur það og hana ekki góða, að 1. okt. var yfirdráttarskuld ríkissjóðs við seðlabankann 128 millj. kr., en var 97.5 millj. um sama leyti í fyrra. Eru þó skattar innheimtir fyrr í ár, en í fyrra.

Ótalinn er þó sá þáttur efnahagsmálanna, sem er jafnvel geigvænlegastur, en það eru viðskiptin við útlönd og gjaldeyrisstaðan. Ríkisstj. hefur talið sér það mjög til gildis að hafa tvöfaldað skuldir þjóðarinnar við útlönd á tveimur árum og sé það eitthvað annað, en í tíð fyrrv. stjórnar, sem að mestu leyti hafi orðið að standa undir margvíslegum framkvæmdum með árlegum gjaldeyristekjum.

Á hinum skamma valdaferli ríkisstj. hafa verið tekin erlend lán að upphæð 618.5 millj. kr. Og aðeins á þessu ári munu hafa verið til ráðstöfunar á fjórða hundrað millj. í erlendu lánsfé. Þessa staðreynd mun hæstv. fjmrh. telja til kímnibókmennta, eins og hann komst að orði í frumræðu sinni. Öllu meiri kímnisögu hygg ég þó flesta hafa talið, þegar hann sagði, að unnið væri að samningum um smíði togaranna, en síðasta árið a. m. k. mun nefnd hafa verið alveg á förum til útlanda til að semja um þessi skipakaup.

En þrátt fyrir þennan geysimikla lánsgjaldeyri, sem verið hefur til ráðstöfunar á þessu tímabili, hefur gjaldeyrisstaðan versnað svo, að fullkomið öngþveiti er að verða á því sviði. Skal um þetta efni leitt vitni, sem naumast verður talið óhagstætt fyrir ríkisstj., sjálfur aðalbankastjóri seðlabankans, Vilhjálmur Þór, en hann komst svo að orði í ræðu, er hann flutti 19. sept. s. l. á aðalfundi Verzlunarráðs Íslands:

„Í lok ágúst var heildargjaldeyrisskuldin að meðtöldum öllum skuldbindingum 238 millj. kr. og hafði hún vaxið um 41 millj. frá síðustu áramótum, en um 100 millj. frá ársbyrjun 1957 og 119 millj. frá ársbyrjun 1956. Hér þarf svo að hafa í huga, að auk þessa hafa verið tekin stór lán, bæði 1956, 1957 og 1958. Er því um að ræða ógnarlegan gjaldeyrishalla á þessum tíma.“

Það er því sama, hvar gripið er niður, hvarvetna blasir við óhugnanlegt öngþveiti, sem leitt hefur af ráðleysisfálmi hæstv. ríkisstj. undir forustu hæstv. fjmrh. Þetta er hin nýja fjármálastefna, sem átti að leiða þjóðina út úr ógöngunum, eftir að sjálfstæðismenn hefðu verið gerðir áhrifalausir.

En þrátt fyrir það þótt hæstv. fjmrh. hangi nú í lausu lofti fram af gjábarmi fjármálaöngþveitisins og hangi í því hálmstrái einu, að stéttasamtökin bjargi honum úr ógöngunum, þá er hann samt enn í hópi þeirra örfáu Íslendinga, sem segja, að ríkisstj. hafi mörgu góðu til leiðar komið og aldrei hafi verið betur búið að höfuðatvinnuvegunum og efnahagslögin frá í vor hafi miðað mjög í rétta átt, eins og fjmrh. komst að orði í margumtalaðri ræðu, sem hann flutti í Rangárþingi nú seint í sumar.

Sannleikurinn er þó sá, að þjóðarinnar vegna má enginn maður síður vera blindur fyrir þróun efnahags- og fjármálanna, en einmitt fjmrh. Það er því alvarleg staðreynd, þegar það er einmitt sá ráðh., sem allra manna harðast berst fyrir áframhaldi þess hörmungarstjórnarfars, sem engin úrræði finnur til lausnar stærstu vandamála þjóðfélagsins og meira að segja aðalhagspekingur ríkisstj. lýsir svo í blaði stærsta stjórnarflokksins fyrir fáum dögum, að þegar haustið 1957 hafi sú bjartsýni, sem fylgdi myndun vinstri stjórnarinnar, verið þorrin.

Hvernig er svo um það hálmstrá, sem fjmrh. heldur nú dauðahaldi í, væntanlegt samþykki verkalýðssamtakanna á afnámi vísitöluuppbótar? Um þetta kemst Þjóðviljinn svo að orði í feitletraðri klausu í forsíðugrein s. l. miðvikudag, þar sem hann ræðir um verðhækkanir af völdum bjargráðanna:

„Þessar staðreyndir sýna hins vegar, hversu fráleitar eru hugmyndir þeirra afturhaldsmanna, sem ímynda sér, að hægt sé að fá verkafólk til að fallast á, að vísitöluuppbætur verði felldar niður með öllu og menn beri bótalaust þær stórfelldu verðhækkanir, sem dunið hafi yfir síðustu vikur og mánuði.“

Finnst ekki hæstv. fjmrh. þetta dæmalaust ánægjulegar undirtektir við hugmynd hans, einmitt frá mönnunum, sem hann undanfarnar vikur hefur skipað fylgismönnum sínum að styðja til að halda völdum í Alþýðusambandi Íslands?

Þegar stjórnarliðið þrýtur öll rök til varnar aðgerðum ríkisstj., þá er síðasta trompið þetta: Ríkisstj. hefur þó a. m. k. ekkert gert nema í samráði við vinnustéttirnar. — En hér er sannarlega ekki um neitt frægðarstrik að ræða hjá hæstv. ríkisstj., heldur er þetta einn raunalegasti þátturinn í ólánssögu hennar.

Verkalýðssamtökin og bændasamtökin eru félagssamtök stétta, sem gegna einu þýðingarmesta hlutverki í þjóðfélagi voru. En bæði eru heildarsamtök þessi byggð á stéttarlegum grundvelli, þar sem saman eiga að geta unnið að hinum stéttarlegu hagsmunamálum menn með annars gerólíkar skoðanir. Samkvæmt íslenzkri stjórnskipan er hið æðsta pólitíska vald í höndum Alþingis, sem er skipað fulltrúum allrar þjóðarinnar, er verða síðan að leggja verk sín undir dóm þjóðarinnar í almennum kosningum. Alþingi og ríkisstj. er ætlað að hafa hina pólitísku forustu og því aðeins geta þessar stofnanir notið nauðsynlegs trausts og virðingar, að þjóðin finni, að þessir kjörnu valdhafar ræki forustuhlutverk sitt á sómasamlegan hátt.

Ef ríkisvaldið er ekki hið æðsta vald í þjóðfélaginu, sem þjóðfélagsborgararnir, hvar í stétt og stöðu sem þeir eru, geta leitað halds og trausts hjá, þá er þjóðfélagið í mikilli hættu statt. Framselji ríkisstj. forustuhlutverk sitt í hendur stéttasamtaka, hversu nytsöm sem þau samtök eru, þá er farið inn á mjög hættulega braut. Þegar svo er komið, að horft er með meiri eftirvæntingu til Alþýðusambandsþings, en sjálfs Alþingis og ríkisstj. sjálf lýsir því yfir, að fjármálastefna hennar velti á aðgerðum þess þings, hvar í ósköpunum erum við þá stödd með okkar stjórnskipun? Er þá ekki ríkisstj. búin að gera Alþingi að skrípasamkomu, sem eðlilegast sé að leysa upp og spara þannig þjóðinni þau útgjöld, sem leiðir af setu þess? Þannig horfir málið við frá sjónarmiði allra þeirra þjóðfélagsborgara, sem ekki þekkja samráð ríkisstj. við alþýðusamtökin.

Samráðin við stéttasamtökin eru nefnilega eintóm sýndarmennska og blekking, svo sem flest annað í starfi og stefnu hæstv. ríkisstj. Það er ósköp þægilegt fyrir ríkisstj. að geta varið vanhugsaðar aðgerðir sínar með því, að fjölmennustu stéttasamtökin í landinu hafi talið þær skynsamlegar. Hin ímynduðu samráð við stéttasamtökin eru svo óspart notuð gegn óánægjuröddum í þingliði ríkisstj. Niðurstaðan er því sú, að þjóðin er blekkt, þingið er óvirt og stéttasamtökin eru óvirt. Allt vald færist þannig í hendur ríkisstj. og fámennrar klíku náinna samstarfsmanna hennar. Þegar svo þessi hópur er sjálfum sér svo sundurþykkur, að hann getur ekki komið sér saman um neina skynsamlega stefnu, þá er ekki von, að vel fari.

Tilvera ríkisstj. byggist á hinu eindæma ólýðræðislega framferði Hræðslubandalagsins í síðustu kosningum. Samráðin við stéttasamtök eru í sama anda. Þing stéttasamtakanna hafa aldrei verið spurð ráða, heldur aðeins stjórnir þeirra, sem ekkert umboð hafa til þess að samþykkja kvaðir á meðlimi samtakanna.

Við samþykkt bjargráðanna s. l. vor fékkst meiri hluti stjórnar Stéttarsambands bænda aðeins til að segja það, að álögurnar kæmu ekki þyngra niður á bændum en öðrum, sem sannast sagna er þó mjög hæpið.

Samráðin við verkalýðssamtökin voru fólgin í viðræðum við stjórn Alþýðusambands Íslands og svokallaða 19 manna nefnd, sem beinlínis hafði verið falið það hlutverk á Alþýðusambandsþingi að gæta þess, að ríkisstj. legði ekki nýjar álögur á almenning. Niðurstaðan varð sú, að fulltrúar 18% verkalýðsins lýstu fylgi við bjargráðin, en fulltrúar 82% voru þeim andvígir.

Þetta túlkaði forseti Alþýðusambandsins sem stuðning verkalýðsins og ráðherrar Framsfl. voru ekki seinir að taka undir það. Hér var einmitt sú tegund af lýðræði, sem er framsóknarmönnum sérstaklega geðþekk, enda mun ætlun ríkisstj. að setja svipaðan leik aftur á svið, ef tækifæri býðst.

En með framferði sínu hefur ríkisstj. því miður lánazt það að magna stórkostlega hin pólitísku átök innan stéttasamtakanna. Er það því kaldhæðnislegt, þegar hæstv. fjmrh. talar nú fjálglega um nauðsyn samheldni verkalýðsfélaganna. Vofir mikil hætta yfir verkalýðshreyfingunni, ef ekki tekst að útiloka hin pólitísku átök og sameina hana á stéttarlegum grundvelli.

Skoðun sjálfstæðismanna er sú, að verkalýðshreyfingin megi ekki láta beita sér fyrir vagn eins ákveðins stjórnmálaflokks eða ríkisstj., heldur eigi hún á þjóðhollum og lýðræðislegum grundvelli að vinna að hagsmunamálum félaga sinna án hliðsjónar af því, hvaða flokkar fara með hin pólitísku völd í landinu.

Það, sem einkum hefur komið hæstv. fjmrh. í koll og leitt hann út í hinar dæmalausu ógöngur með fjárl. síðustu árin, er hin furðulega trú hans, að fjármál ríkisins og þróun efnahagsmálanna séu sitthvað. Eftir kröfu fjmrh. hafa ráðstafanir vegna dýrtíðar og aðstoð við framleiðsluna í því sambandi verið slitin úr tengslum við fjárl. En hvernig sem hæstv. fjmrh. fer að, þá tekst honum ekki að breyta þeim lögmálum, sem hér eru að verki. Þessi undarlega hugmynd fjmrh., að rekstur ríkissjóðs geti verið einfalt kassabókhald, sem ekki komi öðrum þáttum efnahagsmálanna við, er villukenning, sem þegar hefur leitt margt illt af sér og vonlaust er um nokkra heilsteypta fjármálastefnu, meðan þessi skoðun ræður ríkjum í fjmrn.

Sú staðreynd verður ekki lengur dulin, að ríkisstj. hefur gersamlega mistekizt að uppfylla þau loforð, sem hún gaf þjóðinni í síðustu kosningum, að svo miklu leyti sem hún hefur haft nokkra tilburði í þá átt að efna þau. Hvarvetna blasir við augum uppgjöf og ráðleysi og þjóðarskútan veltist stjórnlaus í brimróti efnahagslegs öngþveitis og sundrungar. Lokaþáttur hrakfallasögu ríkisstj. er að hefjast. Sterkasta vopn kommúnista og Alþfl. í nýafstöðnum kosningum til Alþýðusambandsþings var að afneita stjórnarstefnunni. Daglega fordæmir blað stærsta stjórnarflokksins stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum, þótt að vísu allir þm. Alþb. nema einn greiddu henni atkv. á Alþingi og flokkurinn eigi tvo ráðherra í ríkisstj. Enn þá berjast þó hæstv. fjmrh., félmrh. og menntmrh. örvæntingarfullri baráttu að halda stjórninni saman, þótt þeir eygi enga lausn á aðsteðjandi vandamálum, og í rökþrotum sínum frammi fyrir sívaxandi gagnrýni þjóðarinnar er svo gripið til þess hetjulega úrræðis að kenna stjórnarandstöðunni um allar ófarir stjórnarinnar. Er hægt að hugsa sér öllu aumlegri afsökun ríkisstj., sem taldi sig hafa allt í sinni hendi. Í málflutningi stjórnarliðsins rekst þó eitt á annars horn, sem vænta mátti. Með leyfi hæstv. forseta, langar mig til að nefna nokkur dæmi.

Í frásögn Tímans af Rangárþingsræðu hæstv. fjmrh. um næstsíðustu mánaðamót er t. d. þannig sagt frá ummælum ráðherrans:

„Efnahagslöggjöfin frá í vor hefði miðað mjög í rétta átt, hún hefði gert ráð fyrir 5% kauphækkun. Nú hefði stjórnarandstöðunni tekizt að valda meiri hækkun. Þjóðin getur nú þegar byrjað að þakka Sjálfstfl. það, að augljóst er, að enn þarf nýjar ráðstafanir í efnahagsmálunum í vetur.“

Hvort man nú enginn þá röksemd þessa sama hæstv. ráðh., að Sjálfstfl. hafi verið óhæfur til stjórnarsamstarfs, m. a. vegna þess, að hann hafi ekki haft nein áhrif í verkalýðsfélögunum? Sjálfstfl. má vissulega vel við una, ef áhrif hans í launþegasamtökunum hafa vaxið svo gífurlega við starf vinstri stjórnarinnar, að hann mótar nú stefnu verkalýðshreyfingarinnar í kjaramálum.

Í grg. bjargráðafrv. var beinlínis gert ráð fyrir nauðsyn frekari aðgerða í haust. Öllum hv. þm. mun til viðbótar kunn sú till., sem deildarstjórinn í fjmrn. flutti í bæjarstjórn Reykjavíkur, að bæjarstjórnin semdi tafarlaust um 13% kauphækkun til Dagsbrúnar, þótt stjórn Dagsbrúnar teldi síðar sjálf mjög vel við unandi að fá 9.5% kauphækkun. Hvort telja menn líklegra, að það hafi verið Sjálfstfl. eða Eysteinn Jónsson, sem hafi sent deildarstjórann með þessa till. á bæjarstjórnarfund?

Í sambandi við þessa einstaklega heiðarlegu fræðslustarfsemi hæstv. fjmrh. er fróðlegt að íhuga ummæli Þjóðviljans 31. marz s. l. Þar segir svo:

„Það ætti að vera tímabært fyrir verkamenn í almennri vinnu að segja upp samningum til þess að fá einhverja lagfæringu á núverandi kaupgjaldi, án þess að efnahagskerfið biði tjón af því. Þvert á móti ætti leiðrétting á kaupgjaldi verkamanna að hafa örvandi áhrif á framleiðsluna, ef skynsamlega er á haldið.“

Heldur hæstv. fjmrh. ef til vill, að sjálfstæðismenn hafi komið þessari grein í Þjóðviljann?

Til viðbótar þessari kynlegu fræðslustarfsemi bætir svo hæstv. fjmrh. þeirri furðulegu skáldsögu nú, að vinnuveitendur hafi beinlínis hvatt verkamenn til að heimta hærra kaup. Þegar fyrri bjargráð ríkisstj. voru lögfest fyrri hluta árs 1957, lýsti einn af stuðningsmönnum ríkisstj., hv. þm. Siglf., því yfir, að þær ráðstafanir mundu auka öngþveitið í efnahagsmálunum og við afgreiðslu síðari bjargráðanna s. l. vor lýsti þessi sami hv. þm. því yfir, að með þeim ráðstöfunum væri öngþveitið fullkomnað og undir þau ummæli tóku þá tveir aðrir þm. stjórnarliðsins. Það eru aðgerðir ríkisstj. sjálfrar og aðgerðaleysi, sem hafa leitt til þess öngþveitis, sem þjóðin á nú við að stríða, og er tilgangslaust af hæstv. fjmrh. að reyna að koma skömminni yfir á Sjálfstfl. Bezta vitnið gegn fjmrh. í því efni er málgagn nánasta stuðningsmanns hans, hæstv. menntmrh. Þar segir svo 19. marz s. l.:

„Núverandi ríkisstj. á að hafa betri aðstöðu til þess, en fyrirrennarar hennar, að leysa efnahagsmálin, af því að Sjálfstfl, er kominn á réttan stað í íslenzkum stjórnmálum.“

Hér hefur aðeins verið drepið á nokkur helztu atriði, sem einkennandi eru fyrir fjármálastefnu hæstv. fjmrh. í því nýja samfélagi um stjórn ríkisins, sem hann í dag vinnur kappsamlegast allra manna að því að viðhalda. Þar sem enn er allt á huldu með næstu bráðabirgðaúrræði ríkisstj. til afgreiðslu fjárlaga og lausnar á vandkvæðum útgerðarinnar um næstu áramót, er á þessu stigi málanna enginn umræðugrundvöllur til að ræða í einstökum atriðum þær leiðir, sem þar koma helzt til greina.

Ég hygg það sammæli allra, að núverandi ástand í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar sé óviðunandi. Enginn lætur sér lengur til hugar koma, að vandinn verði leystur með neinum töfrabrögðum, eins og núv. ríkisstj. lofaði að gera. Lækningin kostar áreiðanlega fórnir. En ég hygg, að þjóðin sé reiðubúin að taka á sig nokkrar kvaðir í því skyni, ef hún finnur, að með stefnufestu, skynsemi og réttsýni er á málum haldið og þeim gráa leik hætt að klæða allar ráðstafanir stjórnarvalda í blekkingahjúp. Hrun gjaldmiðilsins verður að stöðva og framleiðslustarfsemi verður að komast á þann grundvöll, að hún laði til sín fjármagn og vinnuafl. Stöðvið verðbólguhjólið og gefið okkur trú á gjaldmiðilinn, er krafa þjóðarinnar til valdhafa sinna í dag.

Reynslan hefur sýnt, að dómgreind þjóðarinnar er meiri, en núverandi valdhafar hafa vonað. Frumskilyrði til lausnar vandamálanna er að segja satt og rétt frá staðreyndum og reyna að fræða þjóðina á sem raunhæfastan hátt um eðli vandamálanna og þær ýmsu leiðir, sem til greina koma við lausn þeirra. Til þess að eðlilega verði að málum unnið, verður jafnframt að koma á lýðræðislegum stjórnarháttum, þar sem raunverulegur meiri hluti ræður og eðlilegt tillit er tekið til minni hlutans, í stað þess að lítill hluti þjóðarinnar fari með völdin í skjóli ranglátra kosningahátta og noti síðan hin rangfengnu völd til þess að beita meiri hlutann margvíslegum bolabrögðum. Fjármálastjórnin verður að komast í það horf, að reynt sé að finna einhvern grundvöll undir fjárlagaafgreiðsluna. Ástæða er til að halda, að enda þótt verðbólguáhrifa hætti að gæta, muni útgjöld ríkissjóðs að óbreyttu skipulagi samt hækka árlega meira, en eðlilegri tekjuhækkun nemur. Þetta þarf að rannsaka, því að draga verður óhjákvæmilega úr útgjöldum, sem þeirri umframhækkun nemur. Áætlanir þyrfti að gera nokkur ár fram í tímann um nauðsynlegar framkvæmdir í hafnagerð, vegagerð, skólabyggingum og öðrum fjárfestingarframkvæmdum, sem ríkið þarf að meira eða minna leyti að standa straum af, svo að hægt sé að gera sér grein fyrir, hvað við raunverulega höfum efni á að framkvæma.

Útgjöld ríkissjóðs vegna ríkisábyrgða aukast mjög ár frá ári og er sá útgjaldaliður einn nú hækkaður um 10 millj. kr. Þessi vanskil stafa í flestum tilfellum af bágbornum hag viðkomandi sveitarfélaga og virðist þessi mikla hækkun vanskila ekki benda til þess, að alls staðar sé atvinnulíf með svo miklum blóma sem hæstv. félmrh. vill halda fram í ferðalýsingum sínum í Þjóðviljanum, því miður. Það sýnist því fullkomlega tímabært að reyna að bæta fjárhagsafkomu sveitarfélaganna og í annan stað er nauðsynlegt að koma einhverju föstu skipulagi á veitingu ríkisábyrgða og reyna að koma í veg fyrir hin alvarlegu vanskil, því að ríkisábyrgðirnar eru orðnar svo gífurlegar, að þessi útgjaldaliður getur orðið mjög alvarlegur. Er með þessum ábendingum vissulega ekki verið að gefa í skyn ódæði eða afbrot, en það skildist mér fjmrh. telja felast í öllum umr. um hækkanir á ríkisútgjöldum. Það er sannarlega erfitt að ræða þessi mál, þegar viðbrögð fjmrh. eru slík.

Að lokum nokkur orð um sparnað í ríkisútgjöldum, sem alltaf er mikið talað um, en minna verður úr framkvæmdum. Hver sparnaðarnefndin eftir aðra hefur verið skipuð og þær skilað ýtarlegum nefndarálitum. En sjaldnast hafa nokkrar till. þeirra verið framkvæmdar. Síðast í fyrra var sparnaðarnefnd starfandi. Hún skilaði ýtarlegu áliti, sem fjmrh. af einhverjum ástæðum neitaði fjvn. Alþingis um að fá í hendur á síðasta þingi. Svo að segja engar till. þeirrar nefndar hafa verið teknar til greina.

Hæstv. fjmrh. sagði eitt sinn í ræðu, er fundið var að lítilli viðleitni hans til sparnaðar, að hann hefði hvað eftir annað auglýst eftir sparnaðartill., en engar fengið. Þótt slík auglýsingastarfsemi beri ekki árangur, getur það alls ekki reynzt næg syndakvittun fyrir fjmrh., allra sízt hann, sem hefur gegnt því starfi öllum öðrum lengur, því að enginn hefur betri aðstöðu til að gera sér grein fyrir, hvar helzt má sporna fótum við útgjöldum.

Það er áreiðanlega hægt að spara á mörgum sviðum. En það þarf í senn réttsýni og kjark til að gera slíkar ráðstafanir á viðunandi hátt. Án einbeittrar forustu fjmrh. á hverjum tíma er þess ekki að vænta, að andi sparnaðar og hagsýni ráði í ríkisrekstrinum. Ég efa ekki góðan vilja hæstv. fjmrh. í þessu efni, en þá duga engin vettlingatök eða sýndarmennska, svo sem endurteknar skipanir sparnaðarnefnda, sem hafðar eru að engu, eða slíkar ráðstafanir til eftirlits með ríkisrekstrinum sem lögfestar voru á síðasta þingi, því að það er einhver haldlausasta löggjöf á þessu sviði, sem sett hefur verið og tilgangurinn sýnilega aðeins sá að slá ryki í augu þjóðarinnar, sem er eftirlætisiðja hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Að lokum þetta: Það er lífsnauðsyn fyrir þjóðina, að vandamál hennar séu tekin nýjum tökum. Núv. ríkisstj. hefur reynzt gersamlega ófær um að leysa þann vanda, sem hún lofaði að leysa við valdatöku sína. Þjóðin á nú við erlent ofbeldi að etja. Í því máli er þjóðin einhuga. Varðandi efnahagsmálin er líka áreiðanlega mjög vaxandi skilningur á því, að þau vandamál verði að leysa með samstilltu átaki. Síaukið fylgi Sjálfstfl. sýnir, að þjóðin treystir ekki núv. ríkisstj. til að hafa forustu um þá lausn, því að óheilindi hennar og bolabrögð leiða til sundrungar, en ekki samheldni. Vandamálin verða ekki leyst með því að beita meginorku ríkisstj. að því að ýta helmingi þjóðarinnar til hliðar, svo sem hæstv. forsrh, stærði sig af í kjördæmi sínu í sumar að væri eitt aðalstefnumál ríkisstj. Slíkan hugsunarhátt fordæmir íslenzka þjóðin, og því krefst hún þess, að ríkisstj. misbjóði hvorki heiðri né efnahagslegum hagsmunum þjóðarinnar, meira en orðið er. Mælirinn er nú þegar fullur.