20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

1. mál, fjárlög 1959

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Samvinnunefnd samgöngumála flytur brtt. við 13. gr. fjárl., það er framlag til flóabáta, á þskj. 403. Frsm. n., hv. þm. A-Sk., veiktist skyndilega í dag og bað mig að gera grein fyrir tillögum n. Nefndinni er ljóst, að þrátt fyrir þörfina á því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs er ekki unnt að lækka framlög til flóabáta og meira að segja ekki unnt að láta þau standa í stað, nema með því móti að draga úr þeirri þjónustu, er þessar samgöngur veita, Útgerðarkostnaður flóabátanna hefur sannarlega ekki lækkað frá því í fyrra og lækkun vísitölu, sem nú er mjög vitnað til, nær ekki til þessara sjómanna, sem á flóabátunum eru. Hitt er aftur á móti staðreynd, að margir þessara báta búa við mjög bágborinn fjárhag, sumir með lítt viðráðanlegar skuldir, enda eru þessir flutningar enginn gróðavegur. Auk þessa verða þessir bátar oft og einatt fyrir tjóni, sem eigendur þeirra hafa enga möguleika til þess að ráða við nema með aðstoð og hana er ekki annars staðar að fá en frá hinu opinbera. Það væri vægast sagt að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur, ef ætti að skera niður fjárveitingu til þessara samgangna. Það fólk í landinu, er nýtur samgangnanna með flóabátum, er ekki svo kröfuhart á önnur ríkisútgjöld, að réttlætanlegt sé að draga úr þessari þjónustu hins opinbera, eins og sakir standa. Sú þjónusta, sem flóabátarnir veita, er hins vegar ómetanleg fyrir þá landshluta, er njóta þessara samgangna og n. vill ekki mæla með því, að úr þessari þjónustu verði dregið.

Þá var því hreyft í samvinnunefnd samgöngumála, að rétt væri, að samgmrn. í samráði við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins léti athuga, hvort hægt væri að auka þjónustu strandferðaskipa ríkisins við þá staði, sem flóabátar sigla til og breyta jafnframt að einhverju leyti ferðum bátanna, þannig að leitt geti til sparnaðar í rekstrarkostnaði. Vil ég taka þetta fram sérstaklega, að n. er því hlynnt, að þessi athugun fari fram, þótt vitað sé reyndar, að Skipaútgerð ríkisins getur ekki að neinu verulegu ráði hlaupið þarna í skarðið.

Ég skal þá víkja að einstökum flóabátum: H/f Skallagrímur hefur skipið Akraborg í flutningum milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness. Í fyrra voru veittar 500 þús. kr. til þessa báts, en auk þess voru veittar 50 þús. á 22. gr., heimildagreininni. Sótt var um allmikla hækkun fyrir þennan bát, en n. leggur til, að bátnum verði veittar 650 þús. kr.

Þá er lagt til, að Mýrabátur, sá er annast flutninga fyrir Mýrasýslu vestanverðri, fái sömu upphæð og áður, 3600 kr.

Stykkishólmsbátur hafði í fyrra 450 þús. kr., auk þess 50 þús. á heimildagr. fjárlaganna og þar að auki voru honum greiddar 100 þús. samkv. sérstakri þál., sem samþykkt var í fyrra, eða alls voru þetta 600 þús. kr. N. leggur til, að honum verði veittar 500 þús. kr. og auk þess 75 þús. kr. til viðgerða á bátnum, eða alls 575 þús. kr. og er það þá heldur lægra, en hann fékk greitt samtals í fyrra.

Flateyjarbátur á Breiðafirði fékk í fyrra 170 þús. kr., og leggur n. til, að hann fái sömu upphæð nú, en báturinn varð fyrir miklum skemmdum og hefur verið í viðgerð síðan um áramót og er ekki enn kominn til flutninga vegna þeirrar viðgerðar og vegna þess, að fé skortir til þess að greiða viðgerðarkostnaðinn. Sótt var um 130 þús. kr. fjárveitingu vegna þessarar viðgerðar á bátnum. N. leggur til, að veittar verði 65 þús. kr. og sé það fyrri greiðsla, og ætlast þar af leiðandi til, að á 2 árum fái báturinn þessa upphæð, 130 þús. kr.

Langeyjarnesbátur, sem annast flutninga frá Stykkishólmi inn Hvammsfjörð, var með 18 þús. kr. í fyrra, en n. leggur til, að hann fái 25 þús. kr. nú.

Djúpbátur, sá sem annast flutninga um Ísafjarðardjúp, hafði á fjárlögum í fyrra 460 þús. kr., auk þess 75 þús. kr. til viðgerðar á bátnum og 50 þús. kr. á 22. gr. fjárlaga, eða alls voru honum greiddar í fyrra 585 þús. kr. N. leggur til, að hann fái 560 þús. eða aðeins lægri upphæð, en hann fékk samtals greidda í fyrra.

Patreksfjarðarbátur hafði 3 þús. kr. fjárveitingu í fyrra og leggur n. til, að hún verði óbreytt.

Arnarfjarðarferja hafði 10 þús. kr. í fyrra, og n. leggur til, að sú upphæð verði óbreytt. Dýrafjarðarferja hafði einnig 10 þús. kr. í fyrra og leggur n. til, að það verði einnig óbreytt.

Strandabátur í Húnaflóa hafði 100 þús. kr. fjárveitingu í fyrra og leggur n. til, að sú upphæð verði hin sama nú, en auk þess leggur n. til, að honum verði veittar 40 þús. kr. til vélakaupa. Það er óhjákvæmilegt fyrir þennan bát að kaupa nýja vél, og eigendur bátsins hafa ekki möguleika til þess og því er fallizt á þessa fjárveitingu honum til handa.

Þá er það Norðurlandsbátur. Hann hafði í fyrra 450 þús. kr. á fjárlögum. N. leggur til, að þessi fjárveiting verði óbreytt, en auk þess var nú sótt um allháan byggingarstyrk, vegna þess að nú hefur verið keypt nýtt skip til þessara ferða. N. sá sér ekki fært að taka upp till. um slíkan byggingarstyrk á þessum lið fjárlaga, þótt hún hins vegar liti svo á, að full sanngirni mælti með því, að báturinn fengi slíka aðstoð. N. vísaði því þessari till. til hv. fjvn., og hún flytur nú till. um þetta atriði.

Haganesvíkurbátur hafði 7 þús. kr. í fyrra, og n. leggur til, að það verði óbreytt. Hríseyjarbátur hafði 20 þús. kr. fjárveitingu í fyrra. N. leggur til, að hann fái 25 þús. kr.

Flateyjarbátur á Skjálfanda hafði í fyrra 35 þús. kr. fjárveitingu, en n. leggur til, að hann fáí nú 40 þús. kr.

Loðmundarfjarðarbátur hafði í fyrra 35 þús. kr. fjárveitingu og er lagt til, að sú fjárveiting verði óbreytt nú. En auk þess var sótt um 25 þús. kr. fjárveitingu nú vegna kaupa á björgunartækjum, sem bátnum er gert að skyldu eins og öðrum bátum að hafa, en eigendur bátsins hafa ekki möguleika til þess að fullnægja þessari skyldu sinni nema með aðstoð og því leggur n. til, að þessum bát séu einnig veittar 25 þús. kr. til kaupa á björgunartækjum.

Mjóafjarðarbátur hafði í fyrra 87 þús. kr. og er lagt til, að sú upphæð verði óbreytt nú. Þá kemur Suðurlandsskip. Þetta er nú reyndar ekkert skip, þó að svo hafi staðið í fjárlögum um langt skeið, heldur er þetta aðstoð við vöruflutninga til Vestur-Skaftafellssýslu. Þessi upphæð var í fyrra 215 þús. kr., og er lagt til, að hún sé lítið eitt hærri, eða 225 þús. kr.

Til bátaferða í Austur-Skaftafellssýslu og vöruflutninga til Öræfa voru veittar í fyrra 80 þús. kr., og leggur n. til, að það verði nú 100 þús. kr.

Vestmannaeyjaskip hafði á fjárlögum í fyrra 350 þús. kr. fjárveitingu, en auk þess hafði það 50 þús. kr. fjárveitingu á heimildagrein fjárlaganna, 22. gr. Þessi heimild var notuð, og voru því þessu skipi greiddar 400 þús. kr. í fyrra. N. leggur til, að þessi upphæð verði óbreytt, þannig að það verði í einu lagi 400 þús. kr., í staðinn fyrir að þetta var í tvennu lagi í fyrra, eins og ég nefndi. Nú er gert ráð fyrir, að nýtt skip taki upp þessar ferðir seint á þessu ári. Það er því ekki víst, að þessi bátur þurfi að ganga allt árið í þessum ferðum. En þótt svo sé, sá n. sér ekki fært að lækka fjárveitingu til bátsins af þessum ástæðum. Það er vegna þess, að þó að á skorti einn eða tvo mánuði, að báturinn gangi allt árið, þá hefur útgerðarmaður núverandi flóabáts enga möguleika til þess að starfrækja bát sinn til annarrar atvinnu þann stutta tíma, sem eftir er af árinu og því er lagt til, að þessi upphæð verði sú sama og bátnum var greidd samtals í fyrra.

Ég hef þá nefnt alla þessa flóabáta, en sundurliðun á þessu er í nál. á þskj. 402. Samkvæmt þessum till. verður heildarupphæð til flóabáta 3.605.600 kr. Þetta er 227 þús. kr. hærri upphæð en á síðasta ári, ef með er talið það, sem þá var greitt samkvæmt heimildum í fjárlögum og samkvæmt sérstakri þál.

Samvn. samgm. flytur því þá brtt. við 13. gr., fjárlaganna á þskj. 403, eins og ég nefndi í upphafi, að í stað 3.078.000 kr., sem er í fjárlagafrv., komi 3.605.600 kr., eins og brtt. á þskj. 403 ber með sér. Allir nm. í samgmn. beggja þd. eru sammála um að gera þessar till., en einn nm., hv. 1. þm. Rang. (IngJ), skrifar undir nál. með fyrirvara.

Ég ætla, að það þurfi varla að kvíða því, að þessi till. samvn. samgm. nái eigi fram að ganga, þar sem 10 hv. alþm. eru flutningsmenn að henni.