20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

1. mál, fjárlög 1959

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við 13. gr. fjárlaga á þskj. 409. Till. er um að hækka framlag til steyptra og malbikaðra vega í kaupstöðum og kauptúnum um 1 millj. kr.

Ég hef áður leyft mér að bera fram till, um breytingu á þessu framlagl. Fyrst lagði ég til, að tekinn yrði upp sá háttur, sem upphaflega var á hafður, þegar benzínskatturinn var lagður á, en þá var einmitt gert ráð fyrir, að verulegur hluti skattsins skyldi notaður til þess að greiða fyrir varanlegri gatnagerð í kaupstöðum og kauptúnum. Bifreiðafjöldinn var þá minni, en nú og varanlega gatnagerðin því ekki orðin eins aðkallandi, enda varð bið á því, að þetta væri notað og var þá hætt við að nota þetta ákvæði og það síðan afnumið, en féð látið renna í ríkissjóð og hefur svo verið síðan, að öðru leyti heldur en því, að 100 þús. kr. hafa árlega verið veittar á fjárlögum í þessu skyni. Í fyrra leyfði ég mér að leggja til hækkun á þeim lið.

Nú er að því komið, að því verður ekki lengur skotið á frest að hefja varanlega gatnagerð, þar sem umferð er mest. Á hinn bóginn er fjárhagur flestra kaupstaða og kauptúna svo bágborinn, að erfitt er að rísa undir eins dýrum framkvæmdum og varanleg gatnagerð steyptra eða malbikaðra vega er. Mér virðist því, að lágmarkskrafa þessara aðila hljóti að vera, að ríkissjóður taki hér nokkurn þátt í, eins og upphaflega var til ætlazt. Kaupstaðirnir hafa nú myndað með sér samtök einmitt til undirbúnings frekari aðgerða í þessum málum og er því orðið tímabært að veita nokkurt fé á móti úr ríkissjóði. Ég leyfi mér að leggja til, að þessi upphæð verði í ár hækkuð upp í 1.100 þús. kr.

Ég vil enn fremur leyfa mér að mæla nokkur orð fyrir annarri till., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt þm. N-Ísf., við 22. gr. fjárlaga, á þskj. 409 og fjallar um, að ríkisstj. skuli heimilt að gefa eftir söluskatt af meiri háttar hafnargerðum, brúargerðum og vegaframkvæmdum, sem unnar eru í ákvæðisvinnu.

Við flm. þessarar tillögu fluttum fyrr á þessu þingi till, til þál. um vegagerð, þar sem m. a. var bent á að láta vinna slík verk í ákvæðisvinnu, eins og venjulegt er í nágrannalöndum okkar. Í umsögn vegamálastjóra til hv. fjvn. kemur fram, að vegamálastjórnin hafi með góðum árangri látið gera nokkrar brýr á Vestfjörðum í ákvæðisvinnu og telur hann, að með þessu hafi ríkissjóði sparazt talsvert fé. Enn fremur hefur Vegamálastjórnin sannprófað, að með því að nota beztu fáanleg tæki væri unnt að bera ofan í vegi, þar sem aðstaða er sæmileg, fyrir um helming þess, sem það kostar nú að meðaltali. Hins vegar er löggjöfin nú þannig, að ef vegagerðin annast verkið ekki sjálf, heldur fengi það í hendur verktaka í ákvæðisvinnu, þá yrði sá verktaki að greiða söluskatt, og torveldaði þetta, að unnt væri að fara frekar út á þá braut.

Þessi till. er flutt til þess að lagfæra þetta. Hér er ekki verið að rýra tekjur ríkissjóðs. Ríkið fær ekki tekjur af þessu nú, ef opinberir aðilar annast verkið. Þvert á móti er ég þess fullviss, að nokkurn sparnað gæti í framtíðinni leitt af því, ef verktakar tækju að sér að vinna þessi verk í ákvæðisvinnu. Virðast þær tilraunir, sem gerðar hafa verið á þessu sviði, benda til þess, að svo sé.