21.04.1959
Sameinað þing: 42. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

1. mál, fjárlög 1959

Forseti ( JPálm ):

Það er nú svo ástatt, því miður, eins og hv. 1. þm. S-M, vék að, að það eru nokkrir þingmenn nú veikir og var á það minnzt við mig, hvort ég vildi ekki fresta þessari atkvgr., en á það get ég ómögulega fallizt, og það er sérstaklega vegna þess, að hér er í uppsiglingu farsótt og við gætum átt von á því, að það yrði verra á morgun eða næstu daga. Þess vegna tel ég ekki undan því komizt, að þessi atkvgr. fari fram.

Varðandi aðstöðuna að öðru leyti, þá er það augljóst, að hinar sameiginlegu tillögur fjvn. eru öruggar í gegn, hvort sem er. Um till. nefndarhlutanna er það væntanlega eins og verið hefur, að um þær er sleginn hringur flokkanna, með eða móti. Þá eru það tillögur einstakra manna, sem hafa það á valdi sínu að sjálfsögðu að fresta atkvgr. um þær til 3. umr.

En varðandi þá ósk hv. 1. þm. S-M. að taka aftur eitthvað af till. fjvn., þá vil ég ekkert um það segja og tel eðlilegast, að það sé hæstv. fjmrh. og hv. frsm., sem segi um það, hvort þeir vilja taka aftur eitthvað af þeim till. Því verða þeir að ráða, en ekki ég.