21.04.1959
Sameinað þing: 42. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

1. mál, fjárlög 1959

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Út af þeim tilmælum, sem hér hafa komið fram um að taka aftur einhverjar till. 1. minni hl. fjvn., þá vil ég vekja athygli á, að greiðsluheimild sú, sem ríkisstj. hefur nú, er útrunnin um mánaðamótin. Ríkisstj. leggur áherzlu á að þurfa ekki að leita eftir frekari bráðabirgðagreiðsluheimildum hjá Alþingi. Til þess að komizt verði hjá slíku, er óhjákvæmilegt, að fjárlögin fái afgreiðslu fyrir mánaðamót. Til þess að svo megi verða, þarf 3. umr. um fjárlagafrv. að fara fram helzt á mánudaginn kemur. Undir 3. umr. þarf nokkurn undirbúning og nokkurrar athugunar við, m. a. í sambandi við þann greiðsluhalla, sem er á fjárlagafrv., og er því nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að sjá, hvernig málin standa, sem allra fyrst og ef umr. á að geta farið fram á mánudaginn, þá má það varla vera seinna, en í dag. Út frá þessu sjónarmiði er nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að fá tillögur þær allar, sem hér liggja fyrir, afgreiddar, þannig að útkoman verði séð.

Ég vil líka benda á, eins og kom fram hjá hæstv. forseta, að þeir þingmenn, sem nú eru fjarverandi, munu liggja veikir í þeirri farsótt, sem gengur nú í bænum. Sú farsótt er á byrjunarstigi og ómögulegt að vita um það, hversu margir þingmenn kynnu að veikjast í henni mjög fljótlega og getur því verið enn þá erfiðara að koma atkvgr. við, ef þetta dregst eitthvað. Ég verð þess vegna að óska eftir því, að atkvgr. fari fram um þær till., sem hér liggja fyrir og ráða úrslitum um það, hvernig heildarútkoman yrði á fjárlagafrv. eftir 2. umræðu.