28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

1. mál, fjárlög 1959

Frsm. 2. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Áður en ég vík að þeim till., sem ég geri hér sem 2. minni hl. fjvn., vil ég aðeins minnast á tvær till., sem ég ásamt hv. þm. Vestm. (JJós) flyt og prentaðar eru á þskj. 449.

Þar er í fyrsta lagi gerð till. um það, að til Björgunarfélags Vestmannaeyja verði greiddar 200 þús. kr. úr ríkissjóði til kaupa á björgunartækjum. Félag þetta er elzt þeirra félaga, sem starfa í þess grein, var á sínum tíma komið á fót af mjög knýjandi þörf fyrir rúmlega 40 árum og vann þrekvirki á sinni tíð með því að koma af stað almennri gæzlu á sjó hér við land, bæði til björgunar og landhelgisvörzlu og er raunar foreldri að landhelgisgæzlunni íslenzku. En það var einmitt þetta félag, sem á sínum tíma keypti þann elzta Þór, sem hingað kom til björgunarstarfa og landhelgisvörzlu. Félag þetta hefur starfað jafnan síðan og hefur að vísu létt verulega á störfum þess við það, að ríkissjóður hefur almennt tekið við þeim störfum, sem félagið annaðist eitt og nær óstutt í upphafi. Nú hagar því hins vegar þannig til, að á þetta félag hlýtur að falla aukin ábyrgð af björgunarstörfum við Eyjar, en þar er, svo sem menn vita, mestur fjöldi fiskiskipa á fiskislóðum um vetrarvertíð, en við útfærslu landhelginnar hefur af eðlilegum ástæðum svo farið, að landhelgisgæzlan, sem tiltækust hefur jafnan verið til björgunarstarfa fyrir fiskibátana, rekur sína starfsemi miklum mun fjær landi nú en áður var. Samtímis þessu hefur svo þróunin orðið sú, að við hliðina á útgerð stórra vélbáta, sem veiða í net, hefur vaxið upp verulegur fiskiskipastóll smæstu báta og eru þeir gerðir út til veiða með handfæri og skapast af þessu nokkurt bil á milli þess, sem landhelgisgæzlan getur með góðu móti séð yfir og hinnar grynnstu slóðar, þar sem hin minnstu fiskiskip stunda veiðar sínar. Björgunarfélag Vestmannaeyja er æði oft beðið um aðstoð, sem það í mörgum tilfellum á feikilega óhægt með að veita, sökum þess að það hefur ekki skipakost til þess að annast þessa björgunarstarfsemi, eins og nú er komið. Hins vegar hefur Björgunarfélagið nú gert samninga við Vestmannaeyjahöfn um, að væntanlegur bátur, sem annast á hafnsögumannaflutning og önnur nauðsynleg störf fyrir Vestmannaeyjahöfn, verði búinn, — þ. e. a. s. Björgunarfélag Vestmannaeyja búi hann nýtízku björgunartækjum og geri sérstakan samning við hafnarsjóð, sem annars er ætlað að reki þann bát, um, að hann skuli annast björgunarstörf og Björgunarfélag Vestmannaeyja hafi forgangsafnot af honum til slíkra starfa. Hyggst félagið kaupa fullkominn björgunarútbúnað til þess að setja í bát þennan og hefur af þeim sökum beðið um þennan styrk.

Þess má geta, að hv. samflm. minn að þessari till., þm. Vestm., er einn af forgöngumönnum að stofnun þessa félags og hefur jafnan fylgzt með störfum þess síðan og geri ég þess vegna ráð fyrir því, að það gegni ekki síður því máli um hann en mig, að fátt sé ömurlegra, en að horfa upp á það, að ekki sé gert allt, sem í mannlegu valdi stendur, til þess að vernda öryggi þeirra sjómanna, sem öll þjóðin byggir öðrum mönnum fremur afkomu sína á.

Þá höfum við einnig gert till. um það á sama þskj., að hækkað verði framlag til Vestmannaeyjaflugvallar. Ég gerði upprunalega þá till., að til hans yrðu veittar 1.5 millj. kr., og gerði þá grein fyrir því sérstaklega, að þó að völlur þessi sé nú að verða um það bil 12 ára gamall í notkun, þá er þetta aðeins ein braut og of stutt til þess, að aðrar flugvélar en smæstu flugvélar, sem tíðkast í farþegafluginu, geti lent þar. Það er hálfgerð við hann viðbót, sem mundi, ef við hana væri lokið, gera það mögulegt, að þar gætu setzt stærri flugvélar og með því að nú er mjög þröngt um flugvélakost í innanlandsflugi, þá mundi það mjög bæta úr þörfinni, ef hinar stærri flugvélar gætu setzt þarna, en það munar nú mjög litlu.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að lýsa þessa flugbraut, þannig að hægt sé að nota hana, þótt farið sé að rökkva, en svo er ekki nú.

Enn fremur er það bráðnauðsynlegt á stað sem Vestmannaeyjum, sem ekki er í neinu sambandi við það stærsta samgöngukerfi, sem við hér í landi höfum, þ. e. a. s. þjóðvegakerfið, og er þess vegna mjög upp á flugsamgöngur kominn, að hann fái möguleika til þess að hafa sem allra öruggastar flugsamgöngur og því höfum við gert ráð fyrir því, að þegar á þessu ári yrði byrjað þar á gerð þverbrautar á þá braut sem fyrir er, þannig að flugvöllinn verði hægt að hagnýta, þótt ekki blási vindurinn nákvæmlega úr þeirri átt, sem hagkvæmast er fyrir þá flugbraut, sem nú er.

Við höfum þess vegna gert till. um það, að framlag til þessa flugvallar verði jafnt því hæsta, sem tíðkast úti á landsbyggðinni, en til Ísafjarðarflugvallar hefur nú verið ákveðin 1 millj. og 200 þús. kr. fjárveiting og er það í alla staði eðlilegt og sanngjarnt. En við teljum, að það sé eðlilegt, að litið sé á Vestmannaeyjaflugvöll sem jafnnauðsynlegan Ísafjarðarflugvelli og ráðstafanir gerðar til þess að fullgera þá braut, sem fyrir er og hefja gerð nýrrar flugbrautar og höfum miðað okkar till. við það.

Kem ég þá að þeim till., sem ég flyt sem 2. minni hl. í fjvn. Þær till. eru prentaðar á þskj. 450 og eru í rauninni ekki fjárhagslegs eðlis, þar eð þær taka ekki til neinna breytinga á þeim útgjöldum eða tekjum, sem frv. að öðru leyti gerir ráð fyrir. Við 2. umr. fjárlaganna gerði ég slíkar till., og með því að þær fengu ekki samþykki, hvorki þær till., sem vörðuðu útgjöld eða sparnað, þá hef ég ekki séð ástæðu til að flytja slíkar till. aftur. Mér þótti þá sem hv. meiri hl. Alþingis gengi nokkuð blint að því að fella allar till. nema þær, sem hann sjálfur hafði gert.

Til dæmis um það, hversu langt var þar gengið í því að hlýða ekki á sjálfsagðar till., skal ég geta aðeins einnar till. Ég gerði tillögu um það, að framlag til útrýmingar refa og minka yrði lækkað um 1 millj. kr., en það er nú í frv. 2½ millj. Sú áætlunarupphæð var á sínum tíma gerð með tilliti til þess, að litið var svo á, að svo mikil væri veiði á þessum meindýrum, að ekki væri hægt að komast af með minna fé, en þetta með tilliti til allra þeirra veiðiverðlauna, sem gjalda yrði. Síðan hefur komið í ljós og var reyndar komið í ljós, þegar hæstv. Alþingi felldi mína tillögu, að verulegur hluti af þeim verðlaunum, sem greidd höfðu verið, voru alls ekki verðlaun fyrir veiði á dýrum, heldur verðlaun fyrir falsanir og sviksemi. En hv. meiri hl. Alþingis virðist ætla að halda fast við það eftir sem áður, að ætla fé til gjalda til verðlauna fyrir slíka sviksemi og er ófáanlegur til þess að breyta sínum áætlunum, þótt slíkar upplýsingar liggi fyrir. Þar af leiðandi sé ég ekki ástæðu til að gera neinar tillögur við þessa umr., en sá hv. meiri hl. Alþingis, sem svo fer að í sínum lagasamþykktum, verður þá auðvitað að bera ábyrgð á sínum gerðum.

Síðari tillagan, sem ég hef gert á þskj. 450, er varðandi úthlutun á atvinnubótafé. Við 2. umr. var samþ., að til þess skyldi varið 10 millj. kr. og að 5 manna nefnd skyldi kosin með hlutfallskosningu í Sþ. til þess að úthluta fé þessu. Ég er samþykkur því, að nýr háttur sé upp tekinn á úthlutun þessa fjár, þannig að Alþingi hafi þar sjálft hönd í bagga um. En með tilliti til þeirrar reynslu, sem á hefur orðið á undanförnum árum við þessa úthlutun, þá vil ég einnig, að Alþingi taki ákvörðun um það, svo að ekki verði um villzt, að til þess sé ætlazt af hverjum þeim, sem kemur til með að úthluta þessu fé, að hann setji ekki nein héruð eða landssvæði í bann frá því að geta notið þessara framlaga og að eingöngu verði við úthlutunina tekið tillit til þess, hvar atvinnuþörfin er fyrir hendi eða hvar möguleikarnir eru til framleiðsluaukningarinnar, en ekki hins, hvort viðkomandi aðili, sem á að taka við þessu láni eða framlagi, sé búsettur á þessum staðnum eða hinum. Þess vegna hef ég hér flutt till. um það, að texti sá, sem þessi fjárveiting er tengd við, verði á þá leið, að allir umsækjendur skuli hafa jafnan rétt til þessa fjár, hvar sem þeir eru búsettir á landinu, aðeins eftir þörfum þeirra fyrir atvinnu og möguleikum þeirra til að auka framleiðsluna.

Hin fyrri till., sem ég flyt á þessu sama þskj., er varðandi greiðsluna til útflutningssjóðs. Við 2. umr. fjárl. var að tillögu hv. 1. minni hl. fjvn. samþ. að leggja útflutningssjóði til úr ríkissjóði 154 millj. kr. Þetta framlag var miðað við lauslega fjárhagsáætlun fyrir útflutningssjóð, sem lögð hafði verið fyrir fjvn. Ég lýsti því við þá umr. yfir, að ég teldi, að sú áætlun til útflutningssjóðs væri öll hæpin og mundi ekki standast. Að sjálfsögðu tóku hv. stuðningsmenn ríkisstj. ekki tillit til þess, enda höfðu þeir sjálfir staðið að áætlunargerðinni og skal ég ekki orðlengja um það. Þó hygg ég, að enginn þeirra muni þá hafa viljað halda því fram, að útflutningssjóður mundi eiga nokkuð í afgang, þótt hann fengi þær tekjur allar og reglulega, sem þar voru áætlaðar. Nú kemur hins vegar í ljós, að þótt af hv. stjórnarstuðningsmönnum sé þessari áætlun nokkuð breytt og í samræmi við það gerð tillaga um dálitla lækkun á framlagi ríkissjóðs til útflutningssjóðs, þá eru samt sem áður ekki gerðar neinar ráðstafanir til þess, að útflutningssjóður geti raunverulega staðið í skilum og staðið við þær skuldbindingar, sem hann hefur að lögum. Þvert ofan í fullyrðingar hæstv. fjmrh. og blaðs hans, Alþýðublaðsins, um það, að þau leyfisgjöld, sem ætluð voru útflutningssjóði, kæmu eingöngu á þær bifreiðar, sem innflutningur er veittur á án gjaldeyrisleyfa, eru nú uppi áætlanir, eins og hv. talsmaður 1. minni hl. minntist á, um að þessar upphæðir verði allar hækkaðar nokkuð og gjöldin komi einnig á þá bila, sem veitt er bæði gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir. Það er augljóst, að ef þessi áætlun yrði framkvæmd, sem mikill vafi leikur á og ég fyrir mitt leyti hef ekki trú á að verði framkvæmd, þá hefur útflutningssjóður enn skuldbindingar, sem hljóta að soga til sín allar þær tekjur, sem útflutningssjóði eru áætlaðar.

Til viðbótar þessu er á þskj. 447, þ. e. a. s. meðal tillagna frá hv. 1. minni hl. fjvn., gert ráð fyrir, að ríkisstj. verði heimilað að verja einmitt af þeim tekjum, sem útflutningssjóður á að fá, fé til þess að koma í veg fyrir verðhækkun erlends áburðar vegna efnahagsráðstafana á s. l. ári umfram þá verðhækkun, sem orðið hefur á innlendum áburði. Það hefur ekki verið útskýrt hér, hversu miklum útgjöldum framkvæmd á þessari tillögu mundi valda. Hins vegar hefur verið í það vitnað, að þessi till. sé gerð til þess að koma verulega til móts við tillögur, sem hér hafa verið uppi um þetta efni frá hv. 1. þm. Rang. og fleirum, en sú till. var um að greiða niður áburð almennt, þannig að verðlag hans á þessu ári yrði ekki hærra, en það var á s. l. ári. Um þessa till. hefur fjvn. nokkuð fjallað og aflað sér nokkurra upplýsinga um hana. Og það er vert að upplýsa það hér, að samkv. þeim upplýsingum, sem fjvn. hefur fengið, mundi það kosta um 41 millj. kr. að greiða niður eitt vísitölustig með því að greiða niður áburð. Það er þess vegna sýnilegt, að ef sá er tilgangurinn að halda niðri vísitölunni með niðurgreiðslum á áburði, þá er valinn þar nokkurn veginn eins óhagkvæmur liður fyrir ríkissjóð eða fyrir útflutningssjóð og hægt er að velja, því að í fáu, ef nokkru, er vísitölustigið jafndýrt og í niðurgreiðslu á áburði. Mér telst svo til, að miðað við svipaðan innflutning áburðar og var í fyrra og þótt tekið sé tillit til þess, að innlendur áburður mun hafa hækkað í verði um nálægt 15%, þá mundu útgjöld ríkissjóðs eða útflutningssjóðs að samþykktri og framkvæmdri þessari till. verða um 5½ millj. kr., ef innflutningur áburðar yrði svipaður að magni og hann var á s. l. ári. Nú er hins vegar margt, sem bendir til þess, að innflutningur á áburði hljóti að verða nokkru meiri nú, en á s. l. ári, vegna þess að sökum rafmagnsskorts hefur áburðarverksmiðjan hér ekki getað afkastað eins miklu í framleiðslu sinni og áður og þótt hún kunni að eiga einhverjar birgðir frá fyrri tímum, þá held ég, að óvarlegt sé að áætla, að innflutningur á áburði muni ekki eitthvað vaxa á þessu ári.

Ég sé þess vegna ekki hinn minnsta möguleika til þess, að hægt sé að auka á útgjöld útflutningssjóðs án þess að ætla honum nýja tekjustofna, nema því aðeins að það komi beinlínis niður á þeim skyldum, sem á útflutningssjóð hafa verið teknar. Mér er enda kunnugt um það, að útflutningssjóður er þegar kominn í nokkur vanskil. Það er farinn að myndast á hann hali, eins og það er oft kallað. Allan síðari hluta ársins 1958 stóð útflutningssjóður við hverja sína skuldbindingu og greiddi jafnan út á þeim tíma, sem lög um hann ákveða, en nú þegar eru greiðslur úr honum farnar að dragast. Bændur, sem eiga að fá niðurgreiðslur sínar á mjólk og aðrar búvörur, eru þegar farnir að bíða umfram eðlilegan tíma og umfram lögákveðinn tíma eftir sínum greiðslum. Útvegsmenn fá ekki heldur sínar greiðslur á réttum tíma og vanskil útflutningssjóðs munu, að því er ég bezt veit, þegar nema um 50 millj. kr. Það er þess vegna hreinlega að svíkjast undan skyldum við útflutningssjóð að hlaða á hann frekari skyldum án þess að sjá honum jafnframt fyrir auknum tekjustofnum til þess að standa við þær. Það er í rauninni að láta hið opinbera komast í vanskil við framleiðslustéttir þjóðfélagsins, ef á hér að bæta enn ofan á útflutningssjóð án þess að afla honum nokkurra tekna.

Við allt þetta bætist svo það, að ekki er annað sýnilegt, en hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn láti sér fullkomlega detta í hug, að þótt samþykktar séu til handa útflutningssjóði greiðslur úr ríkissjóði, þá verði greiðslurnar dregnar máske fram á eða fram yfir síðasta dag ársins, þannig að allar þær greiðslur, sem útflutningssjóður á að fá, eða stór hluti þeirra hljóti að verða um verulegt skeið utan hans vörzlu og þá auðvitað þannig, að þær hljóta að valda því, að útflutningssjóður verður enn að auka vanskil sín.

Ég fyrir mitt leyti hef hér áður látið í ljós mikla tortryggni á því, að hæstv. ríkisstj. auðnist að halda fjármálaafgreiðslu þjóðarinnar innan þess ramma, sem fjárlögin mynda, eins og sýnt þykir að þau verði úr garði gerð. Ég er raunar ekki einn um þessa skoðun. Það kemur t. d. í ljós í sambandi við þessa umr., að þegar rædd er till. um það að heimila ríkisstj. að taka 6 millj. dollara lán erlendis og verja því til ýmissa opinberra framkvæmda: til raforkumála og til ræktunarsjóðs, til hafnargerða, þá er einn sá sjóður til í landinu, sem engan veginn er oftroðinn og engan veginn á auðvelt með að standa við sínar skuldbindingar og sinnir raunar ekki nema hluta af því hlutverki, sem hann lögum samkv. hefur, þ. e. a. s. fiskveiðasjóður, — hann er mjög ófús á að taka þetta lán, þrátt fyrir þarfir sínar. Og hvers vegna? Vegna þess að forráðamenn hans hafa enga trú á fjármálastjórninni í landinu og reikna með því, að með þeim aðförum sem hér eru nú hafðar við afgreiðslu fjárlaga og fjármálastjórn landsins yfirleitt, þá sé þannig að staðið, að gengisbreyting, þ. e. a. s. gengisfelling, muni verða óhjákvæmileg á komandi hausti. Þess vegna tregðast fiskveiðasjóður við að sækjast eftir láni af þessu erlenda láni, sem hann mundi þá verða að taka á sig gengisskuldbindingu á, vegna þess að hann hefur ekki trú á því, að svo sé nú stjórnað í landinu fjármálunum, að núverandi gengi geti staðizt nema skamma hríð.

Það færi betur, að þessar grunsemdir mínar og þessar grunsemdir forráðamanna fiskveiðasjóðs og þessar almennu grunsemdir, sem uppi eru í landinu og að því er ég hygg einnig hjá núverandi stjórnarvöldum, væru ástæðulausar. En því miður, ég kemst ekki hjá því að bera nokkurn ótta í brjósti um, að til þessa hljóti að draga. Ég hef hins vegar viljað leggja það litla reikningsdæmi fyrir hv. stjórnarstuðningsmenn, hvort þeir sjálfir hafa trú á því, að þeir geti staðið við þær skuldbindingar, sem ríkissjóði eru lagðar með þeirra eigin fjárlögum. Ef þeir treysta sér til þess að standa við þær skuldbindingar, sem þeir taka á ríkissjóð með afgreiðslu fjárlaga, þá sé ég ekki, hvað þeir ættu að geta haft á móti því að greiða framlag ríkissjóðs til útflutningssjóðs reglulega á ákveðnum gjalddögum. Þess vegna hef ég gert tillögu um það, að þegar hinn 30. þ. m., þ. e. a. s. þegar ætla má að fjárlög fyrir árið 1959 gangi í gildi og liðinn er þriðjungur af árinu, þá verði líka á þeim degi greiddur þriðjungurinn af framlaginu, sem ríkissjóði er ætlað að greiða útflutningssjóði og enn fremur, að framvegis verði mánaðarlega, hinn síðasta dag hvers mánaðar, greiddur 1/12 hluti af heildarupphæðinni, sem ríkissjóður á að greiða útflutningssjóði, hann verði þá goldinn til útflutningssjóðs.

Þessi till. fjallar, eins og ég tók fram í upphafi, ekki um fjárupphæðir. Hún fjallar um gjalddaga á greiðslum ríkissjóðs. Og ég hygg, að það verði ekki véfengt, að réttmætt sé, að ríkissjóður greiði þriðjunginn af þessu framlagi, þegar þriðjungur af árinu er liðinn og síðan reglulega 1/12 hluta af heildarupphæðinni mánaðarlega eftir á. Hitt er annað mál, að ef hv. stjórnarstuðningsmenn hafa ekki trú á því, að það sé neitt hald í þessu plaggi, þ. e. a. s. fjárlögunum eða fjárlagafrv., sem þeir hafa nú sett svip sinn á, þá er náttúrlega ósköp eðlilegt, að þeir skjóti sér undan því að setja á þetta nokkra gjalddaga og hugsi sér eins og hverjir aðrir vanskilamenn að trassa sínar greiðslur.

Ég hef við þessa umr. ekki séð ástæðu til að flytja fleiri tillögur að svo stöddu. En að lokum vildi ég taka fram, að fjárlagaafgreiðslan, eins og nú er komið, er vissulega á ábyrgð þeirra manna, sem standa að hæstv. ríkisstj., og þykir mér sem með afgreiðslu fjárlaganna sé efnt til þess, þótt síðar verði, að þjóðin fái að súpa seyðið af því, hve hér er farið að með ógætilegum hætti, hve hér er hvort tveggja í senn efnt til nýrra útgjalda og jafnframt látið hjá líða að taka raunhæfa afstöðu til fjölmargra þeirra hluta, sem í fjárlagafrv. felast og eru vægast sagt mjög hæpnir, bæði fyrir ríkissjóð og einnig fyrir útflutningssjóð og þó einkum fyrir þann síðarnefnda. Grunur minn er sá, að hér sé um það að ræða, að hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarstuðningsflokkur, Sjálfstfl., séu hér að haga sér líkt og leikarar á sviði, sem leyna sínum innra manni, en hafa tekið að sér ákveðið hlutverk til að sýnast. Ég skal viðurkenna, að í sumu eru þeir ekki fráleitir leikarar. En hins vegar uggir mig það, að aðgangurinn að þessu leikriti og þessi leiksýning öll verði með þeim hætti, að ekki hafi þjóðin hag af henni frekar, en af sumum öðrum leiksýningum og ætla ég þó því miður, að þessi verði þjóðinni dýrust.