28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

1. mál, fjárlög 1959

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Á þskj. 449 flyt ég ásamt hv. 2. landsk. þm. tvær till., og er sú fyrri um styrk til Björgunarfélags Vestmannaeyja til kaupa á björgunartækjum, 200 þús. kr., og hin síðari við 20. gr., að framlag til Vestmannaeyjaflugvallar sé 1.200 þús. kr. í stað 600 þús., sem virðist hafa verið ráð fyrir gert af meiri hl. eða ráðandi hluta í hv. fjvn.

Ég þarf ekki að bæta við rök hv. samþm. míns, hv. 2, landsk. þm., þessi mál snertandi. Ég hlustaði á hans ræðu um þau í dag og fann og skildi, að hann taldi þar fram sömu ástæður, sem fyrir okkur háðum vöktu og vaka í þessu efni og ég vil nota þetta tækifæri til að láta í ljós þakklæti mitt til hv. 2. landsk. þm. fyrir að hafa haft forgöngu að málafærslu okkar fyrir þessum báðum till. fyrir hæstv. Alþ. og ég vona, að ráðamenn fyrir fjárlagaafgreiðslunni og þeir flokkar, sem þar að standa, taki til greina þau rök, sem fram hafa verið talin í þessum málum og mér þykir óþarfi að endurtaka, vegna þess að þau eru hin sömu, sem ég sjálfur mundi hafa talið fram, ef því hefði verið að skipta. Ég vona, að hv. n. eða sá ráðandi hluti í n., sem getur gefið úrslitaatkvæði í þessu efni, hafi látið sannfærast um, að hvort tveggja málið er brýn nauðsyn fyrir Vestmannaeyjakaupstað.

Þegar 2. umr. um þetta fjárlagafrv. fór hér fram á hæstv. Alþ., lá ég rúmfastur, eins og komið hefur fyrir fleiri nú í flensunni og gat þess vegna ekki mætt við umr. eða við atkvgr. Ég átti eina brtt. sérstaklega, sem ég hafði mikinn hug á, við 22. gr. og hún er varðandi sjómannaheimili í Vestmannaeyjum. Sökum þess, hvernig á stóð og ég taldi mig sjálfan óvígan að mæta til að standa að því máli, sendi ég skilaboð til hæstv. forseta um að biðja hann að taka þá till. til frestunar til 3. umr., hvað hann og gerði. Hef ég því leyft mér að flytja hana nú að nýju, þó ekki alveg eins og þá hina fyrri, en breyt. er í þá einu átt, að hún á að gera hæstv. Alþ. hægara fyrir með að samþykkja hana, en ella mundi. Skal ég víkja nokkuð að því máli síðar. En áður en þar að kemur, vildi ég mega minnast á það, meðan á þessari umr. stendur, að ég hef verið talsvert áhyggjufullur af að hlusta á þær umr. um raforkumálin, sem fram hafa farið núna síðustu stundirnar í þingsalnum og þó að ég ekki geti fellt neinn úrskurð um það mál í bili, hafandi líka lítil gögn í því efni í höndum, þá verð ég að segja, að bæði Vestmanneyingar og aðrir nágrannar okkar eru þannig staddir í rafmagnsmálum, að þeir hafa sett miklar vonir til hinnar miklu tíu ára áætlunar, sem sett var í samstjórnartíð framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, og var þá Steingrímur Steinþórsson, að ég held, forsrh.

Sú tíu ára áætlun fól í sér það fyrirheit m. a. til Vestmanneyinga, að þeirra raforkumálum yrði kippt í lag innan ramma þessarar áætlunar og þótt okkur á þeim tíma þætti nokkuð langt til stefnu að fá að komast í sams konar raforkusamband við stórar raforkuveitur og sum önnur héruð landsins, t. d. Suðurnesin, þar sem raforkan hefur verið tengd í hverja vík og vog og inn á hvert heimili núna fyrir löngu, þá vorum við hv. 2. landsk. þm., sem höfum haft þennan tíma málefni Vestmannaeyja sérstaklega á samvizkunni, sammála um að reyna að gera okkar ýtrasta til þess að fá því verki hraðað, þannig að tíu ára áætlunin hvað snertir Vestmannaeyjar stæðist a. m. k., ef ekki væri hægt að flýta henni eitthvað frekar. Af því tilefni fluttum við — að ég held á síðasta þingi — þáltill., sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hraða svo sem unnt er, lagningu rafveitulínu frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja samkv. heimild í l. nr. 65 1956, sbr. lög nr. 53 1954 og lög nr. 5 1956, þannig að sú orkuveita verði tilbúin til afnota ekki síðar en haustið 1959.“

Í grg. var fram tekið þetta m. a.:

„Þegar á árinu 1952 samþykkti Alþ. að heimila ríkisstj. að fela Rafmagnsveitum ríkisins að leggja aðalorkuveitu úr Landeyjum til Vestmannaeyja og var um leið ríkisstj. heimiluð lántaka í þessu skyni.

Þótt enn hafi eigi mikið úr framkvæmdum orðið, má þess þó geta, að athugun á skilyrðum fyrir lagningu sæstrengs fyrir raforkuveitu þessa milli lands og Eyja hefur fram farið, að sögn með jákvæðum árangri.

Í tíu ára áætlun rafmagnsveitna ríkisins er ráð fyrir því gert, að Vestmannaeyjaveitunni verði komið á, á árinu 1960. Það er að vísu að margra manna áliti nokkru lengri biðtími, en æskilegt væri fyrir jafnþýðingarmikla framleiðslustöð og Vestmannaeyjar eru, að komast í samband við aðalraforkuveitu Suðurlands. En hugsanlegt er, að sú orka Sogsins, sem þegar er virkjuð, næði skammt til að fullnægja orkuþörf Vestmannaeyja eins og er í viðbót við allar aðrar kröfur þess svæðis og fyrirtækja þar um raforku, sem þegar eru til hennar gerðar.

Nú er talið, að hin nýja Sogsvirkjun — Efra-Sogsvirkjunin — muni taka til starfa seint á árinu 1959 og er þá víst, að þá mun næg orka verða fyrir hendi til þess að fullnægja m. a. raforkuþörf Vestmannaeyja. Mundi þar af leiðandi hagkvæmt fyrir báða aðila, raforkuveituna og Vestmanneyinga, að svo vel væri framkvæmdum komið á veg, þegar Efra-Sogsvirkjun tæki til starfa, að tenging Vestmannaeyja við Sogskerfið gæti þá þegar tafarlaust átt sér stað.

Til þess að það geti orðið, er nauðsynlegt að afla sæstrengsins og leggja hann milli lands og Eyja á næsta ári eða svo og að öðru leyti koma upp þeim mannvirkjum í landi og í Eyjum, sem nauðsynleg eru í þessu sambandi og tryggt geta tafarlausa tengingu Vestmannaeyja við Sogsvirkjunina, jafnskjótt og Efra-Sogsvirkjunin tekur til starfa.

Á fundi bæjarstjórnar Vestmanneyinga 15. nóv. s. l. var þm. kjördæmisins og 2. landsk. þm. falið að flytja nú á Alþ. till. þess efnis, að raforkumálaskrifstofunni verði falið að festa kaup á rafstreng (sæstreng) þeim, er með þarf til Sogs-orkuveitu til Vestmannaeyja, með því að ætla má, að nú liggi fyrir hagkvæmt tilboð á slíkum rafstreng hjá raforkumálastjóra.

Fyrir því er þessi till. fram borin.“

Ég vil geta þess vegna niðurlagsorða grg., að þau voru sett af ásettu ráði vegna undangenginna samtala, sem þá áttu sér stað, þegar þessi till. var fram lögð og höfðum við þær upplýsingar þaðan frá, að það lægju fyrir heppileg tilboð um kaup á streng. Við vildum gera okkar til þess, að þau tilboð kæmu að gagni og yrðu notuð og strengurinn lægi fyrir tilbúinn til lagningar, þegar Efra-Sogsvirkjuninni væri lokið.

Það var yfir höfuð af hálfu Alþ. vel tekið þessari þáltill. okkar hv. 2. landsk. þm., og var hún afgreidd frá Sþ. 16. apríl, þannig orðuð:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hraða svo sem unnt er lagningu rafveitulínu frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja samkv. heimild í l. nr. 65 1956, sbr. l. nr. 53 1954 og l. nr. 5 1956.“

Samkv. þessu taldi ég mig og við höfum víst verið saman um þá skoðun báðir tveir, hv. 2. landsk. þm. og ég, að ríkisstj. mundi nota þau heppilegu tækifæri, sem okkur var tjáð að lægju fyrir hjá raforkumálastjórninni um það leyti, sem þessi till. var samþ., þ. e. a. s., það var þá fyrrv. ríkisstj., sem sat að völdum. Nú hefur það sennilega ekki orðið, heldur dregizt úr hömlu og verður það því núv. hæstv. ríkisstj., sem vonandi hefur það hlutverk með höndum að kippa þessu máli í lag samkv. vilja Alþingis og tíu ára áætluninni.

Að öllu þessu athuguðu get ég ekki annað, en látið í ljós, að ég var talsvert hrelldur af þeim rökum, er hv. 1. þm. S-M, taldi hér fram um þær tilraunir, er væru í bígerð hjá ráðandi flokkum nú, að fresta þessari tíu ára áætlun að einhverju eða miklu eða öllu leyti og láta úr hömlu dragast þær framkvæmdir, sem áður höfðu verið fyrirhugaðar. Ég vil vona, að þetta reynist ofmælt hjá hv. 1. þm. S-M. og að það sé ekki tilætlunin, hvorki Sjálfstfl. né Alþfl., að hafa það þannig, sem hann lýsti. En mig vantar skýrar og glöggar yfirlýsingar fyrir mitt leyti frá þeim hluta hv. fjvn., sem hefur með þetta mál að gera, um það, að ekki standi til að fara þann veg með málið, eins og hv. 1. þm. S-M. lýsti og ég mundi taka undir með honum að fordæma, ef rétt reyndist.

Fólkið, sem byggir þessi pláss, hvar sem er á landinu, sem bíður eftir fullnægingu tíu ára áætlunarinnar, hefur sannarlega þörf fyrir, að ekkert sé látið undir höfuð leggjast til þess að fullnægja réttlátum óskum þess og kröfum og fullnægja þeim fyrirheitum, sem þessu fólki hafa verið gefin ár eftir ár svo að segja. Og þar sem vitað er, að það stendur til að taka ríkislán til þess m. a. að lyfta undir framgang raforkumálanna, þá fæ ég ekki séð, að nokkur — hvorki ríkisstj. né nokkur hluti af Alþ. — hafi neina heimild til að hægja á sér í þessum efnum meira en óhjákvæmilegt er, heldur beri að standa að fullu leyti við þau miklu fyrirheit, sem voru höfð í frammi af báðum flokkum, sem upphaflega stóðu að sköpun tíu ára áætlunarinnar og standa við orð sín gagnvart þjóðinni í þessu efni.

Ég heyrði líka á ræðu hv. þm. A-Sk. í þessu efni og skil vel hans áhyggjur, — hans eins og annarra, — þar sem ég tel mig standa hér til þess að verja hagsmuni fólks, sem stendur í nákvæmlega sömu sporum svo að segja hvað snertir raforkuþörf og líka hefur sett sína von til þessarar tíu ára áætlunar, sem eru Vestmanneyingar.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta í bili, en vil leggja áherzlu á, að ég tel, að það sé full þörf á því, að gefin sé opinber yfirlýsing af hálfu ríkisstj, og þess hluta fjvn., sem fyrir hana talar, er gangi í berhögg við það, sem hv. 1. þm. S-M. hélt fram, og gangi í berhögg við það og að öðru leyti taki burt frá okkur hinum, sem höfum hlustað á þetta, þær áhyggjur, sem óhjákvæmilega hafa risið í brjóstum okkar vegna framkvæmdar þessarar mjög svo mikilsverðu áætlunar og áhrifa hennar fyrir umbjóðendur okkar hér á Alþingi.

Ég hafði, eins og ég lýsti áður, hæstv. forseti, leyft mér að bera fram að nýju till., sem ég hafði lagt fram við 2. umr. fjárl., en hún er um sjómannaheimili í Vestmannaeyjum. Ég sé, að hún er ekki komin útbýtt enn þá, hún mun ekki vera komin úr prentsmiðjunni og vil því leyfa mér að segja frá henni, til þess að hv. þingmenn geti áttað sig á, um hvað verið er að ræða.

Till. mín er við 22. gr. og breytir því ekki tölum fjárlagafrv. að neinu leyti. Hún er við 22. gr. eða svokallaða heimildagrein fjárl. og gengur í þá átt, að ríkisstj. heimilist að styðja að því, að lokið verði við byggingu sjómannaheimilis í Vestmannaeyjum, sem góðtemplarareglan hefur staðið að nokkur undanfarin ár og stendur enn að og vill halda áfram með. Um nauðsyn þess að hafa gott sjómannaheimili á þessum stað ætti ég nú og þarf ekki sjálfsagt að segja mörg orð, enda hef ég haft á sínum tíma tækifæri til þess hér á hinu háa Alþingi að lýsa því, hvers vegna ég tel, að sjómannaheimili sé nauðsynlegt í Vestmannaeyjum, eins og nú er komið.

Um mörg ár hefur hið háa Alþingi veitt KFUM-félagsskapnum svolítinn styrk til þess að halda uppi sjómannastofu í Vestmannaeyjum. Það er, held ég, lítil upphæð oftast nær, en það hefur oftast nær fengið að standa óbreytt í fjárlögum og ég held, að það hafi oftast verið 5.000 kr. eða eitthvað því um líkt. Og KFUM hefur gert talsvert mikið í þessu efni og miklu meira, en hægt er að ætlast til fyrir þá litlu fjárupphæð. En það hefur haft erfiða aðstöðu, vegna þess að hús KFUM í Eyjum er ekki mjög hentugt til sams konar sjómannaheimilisstarfsemi og þarf að vera á svona miklum útgerðarstað. Og eitthvað þyrfti það að vera í svipaða átt og sjómannaheimilið á Siglufirði, sem ég þekki af eigin reynd og enn fremur af sögusögn margra sannorðra manna, sem ég veit að hafa skoðað það og dvalizt þar og lokið á það lofsorði.

Nú á tímum er það svo orðið, að fjöldi aðkomufólks sækir til Vestmannaeyja og hefur raunar gert mörg ár undanfarið. En aðstæðurnar fyrir það, hvernig þetta fólk getur eytt ævi sinni í Vestmannaeyjum við annað, en blátt áfram sjósóknina, hafa breytzt talsvert á hinum síðari árum, því að fyrrum var það þannig, að menn tóku sjómenn á heimili sín og voru þeir þar yfir vertíðina og skoðaðir sem heimilismenn og höfðu allan sama aðgang að hvíld og hlýju á heimilum eins og þeir væru þar fastráðnir menn til árs. En þetta hefur mjög breytzt á hinum síðari árum. Það er algerlega breyttur aldarháttur orðinn í þessu efni, síðan sá svipur stóriðju fór að koma á útgerðina í Vestmannaeyjum, sem nú er orðinn á henni, bæði svo að segja til sjós og lands. Það koma eins og áður hópar manna ofan af landi og jafnvel alla leið norðan úr landi, austan og vestan, fyrir utan útlendinga, eins og t. d. Færeyinga, sem hundruðum saman eru teknir í atvinnu í Vestmannaeyjum á vertíðinni. Aðbúnaðurinn, sem þetta fólk hefur, samanborið við þann aðbúnað, sem það hafði áður, meðan heimilin tóku menn upp á sína arma, er mjög breyttur til hins verra. Vegna fólksskorts á heimilunum geta þau ekki haft sjómennina til húsa, sem kallað er, hjá sér og er það því þannig, að alveg gagnstætt því, sem var siður áður, að hver útvegsmaður tók sína menn, bæði landmenn og sjómenn, á sín heimili og þeir höfðu þar sama aðbúnað sem annað heimilisfólk þann tíma, sem þeir ekki dvöldust við sín störf, þá er það nú orðið svo, að þeir hafa ekki nein — sem maður getur kallað — heimili að hverfa að, þessir aðkomumenn. Þeir hafa kannske svefnpláss á bærilegum stöðum og geta matazt á matsöluhúsum eða í mötuneytum, sem ég skal á engan veginn lasta, en það eru þó engin heimili fyrir þá.

Nú hafa templarar fyrir nokkrum árum reynt að hafa forgöngu í því að byggja yfir sjómenn, hefur verið fyrirhugað sem sjómannaheimili eða félagsheimili fyrir sjómenn í Vestmannaeyjum. Bygging þessi hefur staðið yflr í nokkur ár og meðan ég mátti mín nokkurs á sviði fjárveitinga, stuðlaði ég að því, að þeir fengju talsvert drjúgan opinberan styrk í ein 2–3 skipti. Þeir eru nú komnir langt með þessa byggingu, en eins og allir geta skilið, vantar töluvert á það enn þá, að hún sé fullgerð og starfhæf. En hennar er á þessum stað sannarlega mikil þörf. Það er mjög nauðsynlegt fyrir hinn mikla fjölda aðkomumanna, sem dvelst vetrarvertíðina í Vestmannaeyjum og oft langt fram á vor, að þeir þurfi ekki að eyða tómstundum sínum annaðhvort á götunni, í „sjoppum“ eða einhvers staðar þar, sem oftast nær fjöldi þeirra lendir í óreglu. Það er nauðsynlegt, að þeir geti leitað til almennilegs sjómannaheimilis eða félagsheimilis, sem hafi hlýleg og vistleg húsakynni að bjóða þeim. Það er siðmenningarmál mikið fyrir þennan mikla hóp manna. Og ég skal taka það fram, að það eru ekki búsettir menn í Vestmannaeyjum, sem þurfa sérstaklega þessa aðhlynningu, en það eru aðkomumennirnir og þeirra tala er svo að segja „legíó“ á vertíð, aðkominna bæði norðan, austan og vestan af landi.

Á síðasta ári ritaði ég hv. fjvn, ýtarlegt bréf um þetta erindi og lagði fram afrit af erindi húsbyggingarnefndar þeirrar, sem á vegum templarafélaganna þar eystra stendur fyrir byggingunni, svo að hv. n. er, að því er mig snertir, engra upplýsinga dulin í þessu efni. Ég var að segja frá því, að ég hefði á því þingi lagt upp í hendur hv. fjvn. öll gögn, sem mér stóðu til boða í þessum efnum og öll gögn, sem henni voru nauðsynleg til þess að dæma um þörf málsins. Þar að auki vissi ég, að ýmsir málsmetandi menn utan þingsins reyndu að beita áhrifum sínum málinu til framdráttar. Nú hefur það ekki orðið, að ég hafi skrifað hv. n. beint, en hún hefur fengið erindi frá öðrum stað, frá góðtemplarareglunni sjálfri, sem fer nokkuð í sama farveg og ég hef áður farið í þessu efni. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar hæstv. forseti ákvað að gefa fundarhlé vegna matsmálstíma, hafði ég komizt nokkuð áleiðis að lýsa tilefni brtt. minnar, sem nú er búið að útbýta, en var þá ekki útbýtt, á þskj. 457.

Hv. þm. til glöggvunar skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa efni þessar brtt., sem er við 22. gr. fjárl. IX. Nýr liður: Að greiða allt að 60 þús. kr. til þess, að lokið verði byggingu sjómannaheimilis í Vestmannaeyjum, sem verið er að reisa á vegum góðtemplarareglunnar. Það er sem sagt heimild til hæstv. ráðh.

Ég hafði nokkuð dregið saman þær ástæður, sem fyrir hendi eru á þessum stað og kalla eftir því, að til sé athvarfsstaður, félagsheimili fyrir sjómenn og verkamenn, sem dveljast í Vestmannaeyjum mánuðum saman, víðs vegar að af landinu og jafnvel frá Færeyjum. Þessi nauðsyn er í mínum augum orðin því meir aðkallandi með hverju ári sem líður og ég vil ekki láta mitt eftir liggja, á meðan ég nýt þeirra réttinda að mega mæla hér á Alþingi, að stuðla að því, ef hægt væri, að almennilegt félagsheimili fyrir þetta fólk verði reist þar í Eyjum og rekið, sem ég veit að muni verða af myndarskap, ef það er gert á annað borð og ég sjálfur þekki vel sjómannaheimili Siglufjarðar, sem ég tel bæði byggðarlaginu þar til sóma og góðtemplarareglunni, sem stendur fyrir því. Ég efast ekki um, að rekstur slíks heimilis í Vestmannaeyjum mundi hafa álíka holl og góð áhrif fyrir aðkomufólk í Vestmannaeyjum og það hefur á Norðurlandi.

Í Vestmannaeyjum yrði það aðallega vetrartíminn, sem þetta fólk nyti aðhlynningar, á Siglufirði er það sumartíminn og er þó talin ærin þörf á að reka heimilið þar og mundi það þá ekki síður í Vestmannaeyjum. Þar sem menn þola oft óblíða veðráttu og eiga, þeir sem þar eru og hafa svo sem hvergi verulega höfði sínu að, að halla, þá er það sannarlega ekki ofgert, að þjóðfélagið stuðli að því, að félagsheimili sé rekið til þess að stuðla að bættri líðan þessa fólks.

Það er oft brennandi spursmál og er kannske að verða meir og meir brennandi spursmál í okkar þjóðfélagi, einkum við framleiðsluna til sjósins, að okkur skortir mannafla, okkur skortir fólk. Mér finnst, að afleiðing þess sé sú, að hafa þurfi í frammi öll lögleg brögð og holl til þess að hylla fólk að þessum atvinnurekstri og í því starfi að hylla fólk að atvinnurekstrinum er það mjög sterkur liður, ef til eru góð og holl félagsheimill á þeim stöðum, þar sem stórframleiðslan á sér stað.

Ég hef átt mína hlutdeild í því á undanförnum rúmum þrjátíu árum eða nærri hálfum fjórða tug ára, sem ég hef átt því láni að fagna að vera fulltrúi Vestmannaeyja hér á Alþingi, — þá hef ég átt nokkra hlutdeild í því að bæta aðbúnað sjómanna þar frá ári til árs, einkum hvað snertir hafnarmálin og er nú svo komið og sú breyting á orðin, frá því að ég var ungur að alast upp á þessum stað, að í stað þess að höfnin var ótrygg og mátti segja hættuleg skipum og ótrygg öllum bátum, þá er höfnin orðin ein hin tryggasta á landi hér og hefur upp á að bjóða öryggi og þægindi fyrir fiskimenn og fiskibáta, ekki einasta Vestmanneyinga sjálfra, heldur hinn mikla fjölda, sem á hverju ári sækir til Vestmannaeyja frá öðrum héruðum þessa lands og taka þessir menn sinn þátt í þeirri geysilegu framleiðslu, sem þarna fer fram og undirbyggingu undir velferð þjóðfélagsins.

Ég vildi gjarnan, ef mér væri þess kostur, eiga hlut að því enn á Alþingi að bæta hag þessa fólks, gera brautir þess beinni og aðbúð betri og lyfta verlífinu á þessum stað siðmenningarlega frá því, sem það er nú og hefur verið undanfarið. En það er stórt átak, sem þarf til þess að gera það og eitt hið sterkasta hjálparmeðal í því efni er það, að þessir menn, sem dveljast í verinu oft og tíðum á óblíðum árstíma, eigi þess nokkurn kost að fá uppbót sinna heimila, sem þeir hafa yfirgefið víðs vegar á landi hér til þess að stunda atvinnu sína úti í Vestmannaeyjum. Með góðu félagsheimili á staðnum væri þessum mönnum veitt uppbót þess, sem þeir fara á mis við, er þeir yfirgefa eigin heimili og sú aðstoð eða uppbót er af þeim vel verðskulduð. Verkamaðurinn er verður launanna, stendur skrifað og hann er ekki einasta verður þeirra í þeim peningaútlátum, sem hann fær, heldur í þeim félagslega aðbúnaði, sem þjóðfélagið býr honum á staðnum, þar sem hann dvelur við störf sín.

Ég vildi með þessu segja, að á herðum þjóðfélagsins hvílir sú skylda að gera vel við þessa menn, sem dveljast þarna eins og útlendingar og aðkomnir. Þótt þeir séu sama þjóðernis, þá eru þeir jafnókunnugir í plássinu fyrir því og verja vikum og mánuðum saman til þess að stuðla að kraftmestu framleiðslu til undirstöðu þjóðarbúskaparins á þeim stað landsins, sem einna beztar líkur hefur til þess, að sú starfsemi gefi góða raun.

Það er vegna þessa, að ég hef enn þá ráðizt í það að flytja fram brtt. við fjárl. í þessu skyni og ætla ég, að það sé nú við þessa 3. umr. málsins gert svo hóflega, að enginn þurfi að fælast aðferðina, þar sem það er gert aðeins sem heimild til hæstv. ríkisstj. og hækkar ekki fjárlfrv. um nokkurn skilding. Hæstv. ríkisstj. hefur vissulega á sínu valdi að dæma um það, hvort þetta fyrirtæki, sem góðtemplarar hafa ráðizt í, muni vera fært að leysa af hendi það siðmenningarlega og þjóðfélagslega þarfaverk, sem stefnt er að og einnig, ef hæstv. ríkisstj. sýnist svo, að setja aukaskilyrði, sem tryggi gott uppihald starfsins.

Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, þá hef ég af persónulegri raun kynnzt þessari starfsemi góðtemplara á Siglufirði og ég á ekki nógu lofsamleg orð reiðubúin til þess að lýsa því, hversu vel mér féll sá útbúnaður, sú frammistaða og sá hugsunarháttur, sem sýnilega liggur bak við allt starf góðtemplaranna á Siglufirði með sínu félagsheimili fyrir sjómenn eða sjómannaheimili, sem þeir kalla.

Ég ætla ekki að fara hér um allmörgum fleiri orðum. Ég vona, að hv. alþm. skilji, í hvers þágu þessi till. er flutt. Hún er flutt í þágu þess starfandi fólks, sem við allir þurfum svo mjög á að halda bæði til sjós og til lands. Hún er flutt til þess að sýna þessum mönnum í verki, hversu Alþingi lítur stórum augum á þeirra starf og hún mætti verða til þess að laða enn þá fleiri af yngri mönnum til þess að leita til sjávarins á þeim tíma, þegar okkur ríður mest á fólki. Hún mætti verða til þess að ýta við því frekar, en draga úr því og væri þá vel.

Herra forseti, ég ætla ekki að tefja umr. meir að þessu sinni. Vegna þess máls, sem ég er að flytja, þykist ég hafa talið fram það, sem að baki liggur þessari hugmynd, það sem ég tel nauðsynlegt að gert verði og það, sem ég tel að Alþingi beri skylda til að styðja og það er það, að Alþingi ber skylda til að stuðla að því, að þetta fólk njóti félagsheimilisaðbúnaðar, meðan það dvelst fjarri heimilum sínum, víðs vegar að af landinu og þannig láta þá finna til þess, að Alþingi kann að meta störf þeirra á fleiri, en bara einn veg. Það er gott að gefa skattaívilnun og sjálfsagt að gera það. En maðurinn lifir ekki af einu saman brauði. Og það er alveg eins með ungu mennina og menn reyndar á ýmsum aldri, sem koma þarna út í Eyjar á vetrum víðs vegar að af landinu, til þess að stunda til sjósins hættulegan atvinnuveg og til landsins erfiðan a. m. k., það er nauðsynlegt að gera það, sem hægt er, til þess að þetta fólk geti lifað, ekki óreglulífi og þurfa að binda sig við sjoppuhangs í frístundum sínum, heldur geti tekið þátt í hollu samstarfi á félagsheimili og fengið þar nokkra uppbyggingu, líkamlega og andlega, sér til styrktar og sér til þroska í starfi sínu, meðan það dvelst á þessum stað.

Ég fel svo þessa litlu brtt. velvild hv. alþm. og vil vona, að þeir, sem ráða í hv. fjvn., líti með velvild á, að hún verði samþ. af Alþingi, þegar atkvgr. fer fram.

Að lokum vil ég aðeins bæta því við, að sem Vestmanneyingur er ég stoltur af að vita til þess, að Vestmanneyingar hafa á undanförnum áratugum byggt svo upp sína útgerðarstöð, að hún er tryggari, öruggari en hún áður var, að hún er þess umkomin að taka á móti dugnaðarfólki úr öðrum héruðum landsins og við viljum vera þess umkomnir að veita þessu fólki líka í félagslegu starfi þann stuðning, sem það á skilið að fá af þjóðfélaginu og hefur sannarlega líka þörf fyrir.

Vil ég svo láta máli mínu lokið og óska eftir velvild hv. n. og hæstv. Alþingis við þessa litlu tillögu.