28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

1. mál, fjárlög 1959

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., gerði ekki ráð fyrir, að það gæfist neitt tilefni til þess. En það hefur nú farið svo, að megnið af þessum umr. hefur snúizt um allt aðra hluti, en venjulegt er við þessa umr. fjárl., þ. e. a. s. umr. hafa að mestu leyti snúizt um raforkumál, um fiskveiðasjóð og um hafnargerðir, sem að vissu leyti má segja að komi ekki afgreiðslu fjárl. við sem slíkri, heldur þeirri lánsheimild, sem tekin hefur verið upp af hv. 1. minni hl. fjvn. á 22. gr. frv. Ég skal þess vegna, þó að megnið af þessum umr. sé ekki verulega uppbyggilegt né efnislegt, leyfa mér að gera nokkrar aths. við það, sem fram hefur komið um þessi mál.

Hv. 2. þm. S-M. (LJós), sem var hér að ljúka sínu máli rétt í þessu, gerði fiskveiðasjóðinn sérstaklega að umtalsefni og taldi, að það væri illa farið, að enginn hluti af þessu fyrirhugaða láni yrði látinn renna til fiskveiðasjóðs og væri hann alls ómegnugur að verða við þeim lánbeiðnum, sem honum bærust, ef ekki væri aukið starfsfé hans. — Í þessu sambandi skal ég fyrst leyfa mér að minna á, að sjóðnum hefur ekki frá upphafi verið ætlað að lána til stórskipakaupa. Það var í l. um fiskveiðasjóð gert ráð fyrir, að aðallega væri lánað til skipa, sem eru innan við 200 rúmlestir. Lán til togarakaupa hafa mér vitanlega aldrei í sögunni komið frá fiskveiðasjóði og mjög sjaldan til stórra fiskvinnslufyrirtækja í landi, eins og síldarverksmiðja, hraðfrystihúsa og annars þess háttar. Það er þess vegna mjög sláandi, það sem hv. þm. sagði, að til síldarverksmiðjanna á Austurlandi, sem byggðar voru 1957 og 1958, var ekki hægt að lána nema um ½ millj. kr. til hvorrar, enda er það í samræmi við l. um fiskveiðasjóð, eins og þau voru, því að í 5. gr. l. um sjóðinn, eins og hann var, stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Hámark lána er 1.250.000 kr. til fiskiskipa og 600 þús. kr. til fasteigna og lengsti lánstími er 20 ár.“

Það hefði þess vegna, ef þessir hv. þm. hefðu haft brennandi áhuga fyrir því, að fiskveiðasjóður gæti betur staðið í stykkinu að þessu leyti, átt að bera fyrst fram till. um breyt. á l. um fiskveiðasjóð. (LJós: Það er búið að breyta lögunum.) Þessu atriði hefur ekki verið breytt. (LJós: Víst.) Ég hef hér lög um fiskveiðasjóð frá 1955. Einasta breyt., sem gerð hefur verið síðan, er gerð á árinu 1957. (LJós:1957 og þá var þessu breytt.) Ég hef það líka, en þar er eingöngu gert ráð fyrir í þeim breytingum, að til nýrra fiskiskipa, sem smíðuð eru innanlands, mega lán nema 3/4 kostnaðar af virðingarverðinu. Um lán út á eldri skip, en eins árs fer eftir ákvæðum sjóðsstjórnarinnar í hvert skipti. Lengsti lánstími er 20 ár. — En ég vil þá spyrja hv. þm.: Hvers vegna gat hann ekki séð til þess, á meðan hann stjórnaði þessum málum, að lánin til verksmiðjanna á Austurlandi, á Vopnafirði og í Neskaupstað, væru höfð hærri en ½ millj. kr.?

Það hefur verið venjan sú, að lán til stærri fiskvinnslustöðva hafa ekki verið veitt að neinu ráði úr fiskveiðasjóði. Og það hefur líka verið venjan, að lán til stærri skipa, en 200 tonna, hafa sjaldan eða aldrei verið veitt.

Það hefur verið í þessu sambandi vitnað mjög til þeirrar umsagnar, sem Framkvæmdabanki Íslands hefur gefið um fjármagnsþörf fiskveiðasjóðs og unnin er í samráði við forstöðumann sjóðsins. Í þessari áætlun segir, með leyfi hæstv. forseta, svo:

„Aðalniðurstaðan er sú, að sjóðurinn mun í árslok 1959 hafa handbæra um það bil 26 millj. kr. innstæðu í Útvegsbankanum og í árslok 1960 um 7 millj. kr., án þess að til komi nokkrar lánveitingar til sjóðsins á þessum árum. Að vísu er þá gert ráð fyrir, að samanlagðar lánveitingar til skipa, byggðra erlendis, fari ekki fram úr 61 millj. kr. eða að kostnaðarverð skipanna nemi ekki hærri upphæð heldur en 92 millj. En jafnvel þó að sú upphæð tvöfaldaðist, mundi vöntun á reiðufé ekki gera vart við sig fyrr en í árslok 1960.“

Þetta segir í skýrslu Framkvæmdabankans, sem samin er í samráði við forstöðumann sjóðsins. Síðan kemur:

Þessi niðurstaða er háð eftirfarandi:

1. Getu Útvegsbankans til að endurgreiða ca. 25–30 millj. kr. af innstæðu sjóðsins á 1–2 árum.

Það er náttúrlega rétt, að svo bezt getur sjóðurinn staðið í þessari útlánastarfsemi, að hann geti haft það fé laust, sem hann á geymt hjá Útvegsbankanum. Það liggur í hlutarins eðli.

2. Að ásókn á sjóðinn um lán til innlendra framkvæmda, bæði skipasmíða og annars, verði ekki meiri heldur en 36 millj. kr., sem gert er ráð fyrir í áætluninni, á ári.

3. Að endurgreiðslur eldri lána standist, en þær hafa verið mjög varlega áætlaðar í þessu yfirliti Framkvæmdabankans.

4. Geta sjóðsins er svo náttúrlega háð útflutningi sjávarafurða, því að þaðan hefur hann mestar tekjur sínar og hluta sjóðsins af útflutningsgjaldi. En hér hefur verið reiknað með sama útflutningsgjaldi 1959 og 1960 eins og varð árið 1958.

Ég vil til viðbótar þessu leyfa mér að lesa hér upp yfirlit það, sem gert hefur verið af þessum sömu aðilum um útlánastarfsemi ársins 1959, en það er þannig: Að það verði lánað til skipa byggðra erlendis 61 millj., til skipa byggðra innanlands 12 millj., til vélakaupa og viðgerða 14 millj. og til vinnslustöðva og verbúða 6 millj., eða samtals að sjóðurinn geti lánað á árinu 93 millj. kr. og hefur þó afgangs í árslok — eins og ég sagði í upphafi — 26 millj. kr., þannig að verulega má fara fram úr þessari áætlunarupphæð, án þess að sjóðurinn komist í greiðsluþrot.

Til samanburðar vil ég svo að lokum í þessu sambandi leyfa mér að skýra frá því, hvernig útlánastarfseminni hefur verið hagað á undanförnum árum og hve mikið var veitt úr sjóðnum í tíð þessa hv. þm., sem hér var mest að fárast út af getuleysi sjóðsins nú.

Útlán sjóðsins voru í árslok 1956 — heildarútlánin — 123.7 millj. kr. Heildarútlánin í árslok 1957 voru 155 millj. kr., þ. e. a. s. útlánahækkunin á árinu hefur orðið 32 millj. Í árslok 1958 voru útlánin 182.5 millj, kr., þ. e. a. s. hækkunin á árinu hefur orðið 27 millj., — 32 millj. annað árið og 27 millj. hitt árið. En í árslok 1959 er gert ráð fyrir, að útlánin verði komin upp í 268.5 millj. kr., þ. e. a. s. hækki á árinu um 86 millj. á móti 27 millj. 1958 og 32 millj. 1957. — Ef með þessu er verið að draga úr lánamöguleikum sjóðsins, þá kann ég ekki skil á hlutunum lengur og þessi hv. þm., sem hér var að tala síðast um getuleysi sjóðsins, varð að grípa til mjög annarlegra röksemda, svo að ég ekki orði það sterkara, því að þar mundu aðrir geta haft um önnur orð.

Hann fór að tala um, að sjóðurinn stæði ekki við skuldbindingar sínar að því er snerti 55% yfirfærslugjaldið, hann gæti ekki staðið við það. Þegar yfirfærslugjaldið kom á, á miðju ári 1958, þá höfðu verið veitt lán nokkrum bátum, þannig að þeir höfðu ekki greitt byggingarskuldina erlendis og skulduðu þess vegna lánið í erlendri mynt. Við 55% hækkunina eða yfirfærslugjaldið hækkaði náttúrlega þessi skuld í íslenzkum krónum og hv. þm. vildi láta liggja að því, að þessi hækkun væri skuldbinding á fiskveiðasjóði, sem hann þess vegna væri ómegnugur að standa við og hefði ekki gert ráð fyrir. En hér geri ég ráð fyrir að hv. þm. mæli á móti betri vitund eða hann kannske viti ekki betur, — ég veit það ekki, — en útlánin fara fram þannig, að það er ekki lánað út á bátinn úr fiskveiðasjóði, fyrr en hann kemur heim,og þá í einu lagi upphæð, sem er 2/3 hlutar af kaupverði bátsins. Hvernig svo fer um erlendu skuldina, það er annað mál og kemur ekki fiskveiðasjóði við, vegna þess að það er venjulega fengin bankatrygging fyrir þeirri greiðslu gegn því, að viðkomandi banki fái svo féð, sem kemur úr fiskveiðasjóði og kaupandi setji tryggingu, sem bankinn metur gilda, fyrir gengisáhættunni, þannig að þessi útlendu lán koma aldrei við fiskveiðasjóðinn, vegna þess að hann hefur aldrei tekið þau að sér. Hitt er annað mál, að það væri eðlilegt, að fiskveiðasjóður gæti hækkað útlán sín hér heima í íslenzkum krónum með hliðsjón af þeirri hækkun kaupverðs bátsins, sem felst í 55% yfirfærslugjaldinu, en þetta hefur mér vitanlega ekki verið gert í tíð fyrrv. ríkisstj.

Hv. þm. sagði, — ég held ég hafi skrifað það orðrétt upp eftir honum, — að samningur hefði verið gerður við fiskveiðasjóð um þetta, en mig langar til að sjá þann samning. Það var gengið eftir því oft af bönkunum, sem tóku að sér þessa gengisáhættu fyrir útvegsmennina, sem áttu bátinn og tóku að sér ábyrgð á láninu, að fiskveiðasjóður tæki að sér að hækka lánið um 2/3 hluta af því, sem yfirfærslugjaldinu næmi eða þeim hækkunum, sem yrðu á þessum greiðslum síðar, ef til annarra ráðstafana kæmi, sem hefðu áhrif á þetta. En mér vitanlega hafa ekki enn verið gerðir neinir samningar um þetta við fiskveiðasjóð. Hitt er annað mál, að ég hef nú fyrir nokkru sett nefnd til þess að endurskoða reglurnar um útlán fiskveiðasjóðs og þessari n. er m. a. ætlað það verkefni að kveða á um þetta.

Ég veit, að inn á sér finnur þessi hv. þm. og aðrir, sem um þessi mál hafa fjasað mikið í þessum umr., að hér er ekki um það að ræða, að verið sé að draga úr möguleikum fiskveiðasjóðs til útlána, heldur hefur fiskveiðasjóður með því fé, sem hann hefur til umráða, nú möguleika til að sinna sinni útlánastarfsemi miklu meir og betur, en hann hefur haft nokkurn tíma áður. Og hvers vegna skyldu þá vera tekin lán til þessarar útlánastarfsemi, ef þeirra þarf ekki með til þeirrar starfsemi, sem lögin gera ráð fyrir? Hitt er annað mál, að um það má náttúrlega deila, hvort fiskveiðasjóður ætti að taka að sér að lána til togarakaupa og til þeirra stóru hraðfrystihúsa og fiskvinnslustöðva, sem nú er verið að byggja og kosta tugi milljóna. En það verkefni hefur honum ekki verið ætlað og þess vegna hafa ekki heldur verið gerðar ráðstafanir til þess að afla fjár til þeirrar útlánastarfsemi, því að hún er ekki heimil samkv. l. um sjóðinn, eins og þau eru nú.

Ég skal svo láta þetta nægja um fiskveiðasjóðinn.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að raforkuframkvæmdunum, 10 ára áætluninni svokölluðu, sem mikið hefur komið við sögu hér.

Það var eitt af því fyrsta, sem raforkumálastjóri skýrði mér frá, þegar ég kom að þessum málum, að nú, þegar hálfnuð væri framkvæmd áætlunarinnar, þá hefðu komið í ljós ýmsir hlutir, sem gerðu það nauðsynlegt, að áætlunin öll væri endurskoðuð. Það hafði komið í ljós af reynslunni, að ýmislegt, sem var talið eðlilegt og kannske æskilegt að gera fyrir fimm árum, væri nú talið eðlilegt og æskilegt að gera nokkuð öðruvísi, en þá var hugsað. Og sérstaklega virtist mér, að stjórn raforkumálanna væri inn á þessu vegna þess, að við blasti gífurlegur halli á rekstri Rafmagnsveitna ríkisins, sem á þessu ári er áætlaður á fjárlögum 15 millj. kr.

Það hafði þess vegna lengi verið á döfinni hjá raforkumálastjóra og rafmagnsveitustjóra að freista þess að breyta þessum áætlunum þannig, að takast mætti að draga úr stofnkostnaði og rekstrarkostnaði, þó þannig, að þjónustan við almenning í landinu, sem gert er ráð fyrir í þessari áætlun, yrði ekki skert. Niðurstaðan af þessum athugunum raforkumálastjóra og rafveitustjóra ríkisins er sú, sem kemur fram í tillögu hans um breytingar á eftirstöðvum rafvæðingaráætlunarinnar 1954–1963 og er í því fólgin aðallega að fresta nokkrum vatnsvirkjunum og línum á milli byggða, en taka upp í staðinn dísilstöðvar, sem væru miklu ódýrari í stofnkostnaði og sömuleiðis ódýrari í rekstrarkostnaði og gætu, þegar fram í sækti, orðið varastöðvar og toppstöðvar fyrir vatnsaflsvirkjanirnar og unnið samhliða þeim og með þeim. Með þessu móti telur raforkumálastjóri að hægt sé að lækka áætlunina í heild á þessum 10 árum um allt að 88 millj. kr., en auka þó rafmagnsframleiðsluna um 4.000 kw., eða um 66% frá því, sem gert hefur verið ráð fyrir.

Ég held, að það verði ekki með neinni skynsemi mælt í móti því, að þessi aðferð er heppilegri, hún er ódýrari og hún kemur jafnmörgum aðilum til gagns eins og hin, en hún sparar ríkissjóði á þessu tímabili útgjöld, svo að skiptir mörgum tugum milljóna og hún sparar rekstrarútgjöld, sem sömuleiðis nema tugum milljóna á tímabilinu. Og hún gerir þetta „plan“ allt saman miklu viðráðanlegra, en áður hafði verið ætlað og það, sem ég vil undirstrika sérstaklega, að hún veitir sömu þjónustu að öllu öðru leyti en því, að vegna þess að þessar tengiveitur á milli héraða eru felldar niður, þá fá 110 bæir seinna rafmagn frá línu, en ella mundi og þó jafnhá tala annars staðar, sem er bætt við. En þessi 110 sveitabýli, sem ekki komast þá með, eru mjög lítill hluti af þeim 3.000 býlum, sem eru á þessari áætlun og þess vegna engin ástæða til þess að leggja svo mikið í sölurnar fyrir að ná öllu slíku með, sérstaklega ekki þegar hægt er að fullnægja þeirra þörfum á mjög ódýran hátt á annan veg.

Það kom fram í umr. hér í kvöld, að það var einhver hv. þm., sem hélt því fram, að ekki hefði tekizt á undanförnum árum að ljúka til fulls þeim áætlunum, sem gerðar hefðu verið um framkvæmdir. Ég skal sérstaklega, því að á það var minnzt, geta ársins 1958. Samkvæmt bréfi frá raforkumálastjóra, dags. 31. marz 1959, upplýsir hann um þetta og segir:

„Í eftirfarandi yfirliti eru þau verk talin upp, sem frestað var á síðasta ári.“ Það eru 11 línur samtals, byrjar á Vatnsdalslínu og endar á Hvítárholtslínu, með 124 býli, 136.8 km og kostnaður 12.6 millj. kr., sem ekki var unnið af þeirri áætlun, sem gert hafði verið ráð fyrir að vinna á árinu 1958. Það getur náttúrlega komið fyrir jafnvel hjá því góða fólki, sem farið hefur með stjórn þessara mála að undanförnu, að einhver tilfærsla og einhver breyting eigi sér stað í þessum hlutum. En ég vil geta þess, að á áætluninni, sem gerð hefur verið fyrir árið 1959, er gert ráð fyrir, að unnið verði að því, að allar þessar veitur verði byggðar, sem ekki voru framkvæmdar á árinu 1958 og enn þó nokkrar í viðbót, þannig að heildarkostnaðurinn við héraðsrafveiturnar á árinu verði, ef ég man rétt, 14.8 millj. kr. — og heildaráætlunin verði 76.6 millj. kr., sem unnið verði fyrir á árinu.

Í ræðu, sem hv. 1. þm: S-M. (EystJ) flutti hér í kvöld og ég heyrði a. m. k. hluta af, þá fannst mér hann gera mjög mikið úr því, að verið væri að rífa „raforkuplanið“ niður og miðaði sitt tal aðallega við kostnaðartölur, það hefði verið unnið fyrir svo og svo margar milljónir, — ég held hann hafi sagt 110 millj. kr. árið sem leið, upphæðin væri miklu lægri nú. Það var engu líkara, en honum fyndist aðalatriðið, hversu miklu væri hægt að eyða í þetta. Hann minntist ekkert á, hvað hefði fengizt og hvað hefði verið látið bíða, heldur eingöngu minntist hann á það, hvað mörgum tugum og hundruðum milljóna hafði tekizt að eyða. Þetta er all ólíkt því, sem ég hafði búizt við að fyrrv. fjmrh. hefði gert, ef hann hefði sjálfur átt að eiga einhvern hlut að stjórn þessara mála. Það er ekki aðalatriðið í þessu sambandi, hversu mörgum milljónum tekst að eyða, heldur hversu mörgu fólki er hægt að veita þjónustu á þennan hátt fyrir sem minnstan pening. Það er það, sem er aðalatriðið. Og það, sem er gert í þessu falli, er það, að það er veitt öll sú sama þjónusta að ég kalla á þessum fimm árum, sem eftir eru, fyrir 88 millj. kr. minni upphæð og þó þannig, að þær dísilstöðvar, sem byggðar eru til þess að ráða úr lausn vandans nú, verða liður í því, sem gert verður á eftir.

Hv. þm. A-Sk. (PÞ) beindi til mín fyrirspurn í þessu sambandi. Og vegna þess að hans dæmi er ákaflega sláandi um það, hver breyting hefur orðið á þessum hlutum með hinni nýju áætlun, þá skal ég leitast við að útskýra það eins nákvæmlega og ég get.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið hafinn undirbúningur að vatnsvirkjun í þessari sýslu, Smyrlabjargavirkjun og það er rétt. Og þessi undirbúningur var kominn það langt, að það var byrjað að kaupa efni til virkjunarinnar, en í tiltölulega mjög litlum stíl, þannig að langmestur hluti efnisins til virkjunarinnar er enn ókeyptur. En þegar raforkumálastjóri og hans starfsmenn fóru að athuga þetta mál betur, þá töldu þeir, að mál Austur-Skaftfellinga mætti leysa á annan hátt og betur, en gert hefði verið ráð fyrir og tóku þess vegna það fyrir að endurskoða þessa áætlun með hliðsjón af því. Vatnsvirkjunin held ég að hafi verið áætluð 1.000 kw., en enga línu er farið að leggja um héraðið enn og var ekki á áætluninni að hefja þá línulagningu strax, a. m. k. ekki á þessu ári, heldur voru framkvæmdirnar einskorðaðar við virkjunina. Nú er það gefið mál. segja þeir og ég tek undir það, að ef 1.000 kw. stöð hefði verið þarna reist og línulagningunni ekki komið lengra en gert er ráð fyrir í gömlu áætluninni, þá hefði orka þessarar vatnsaflsstöðvar hvergi nærri notazt í upphafi. Rekstur þessarar vatnsaflsstöðvar hefði þess vegna orðið óhagstæður og það svo mjög, að rekstur þessarar veitu hefði gefið mikinn greiðsluhalla. Þess vegna er það ráð tekið í þessari nýju áætlun að byggja í staðinn í upphafi 500 hestafla dísilstöð á Hornafirði og byrja í staðinn einu ári fyrr að leggja veiturnar um héraðið. Þessi dísilstöð í Hornafirði fullnægir til að byrja með þeirri orkuþörf, sem um er beðið í héraðinu og með því að fara í dísilvélavirkjunina í staðinn fyrir vatnsaflsvirkjunina, þá verður virkjunarkostnaðurinn miklu minni, en kostnaðurinn við vatnsaflsvirkjun hefði orðið og rekstrarafkoma veitunnar þess vegna betri. Hins vegar er byggingu vatnsaflsstöðvarinnar ekki frestað um ófyrirsjáanlegan tíma. Bygging vatnsaflsstöðvarinnar er á áætluninni, en ekki fyrr, en á árinu 1963. Þá er gert ráð fyrir, að búið sé að leggja línurnar um allt héraðið og líkur til þess, að orkusalan geti orðið miklu meiri frá þessu orkuveri, en ef væri byrjað á því að byggja orkuverið og síðan að leggja línurnar og salan þá miklu minni í upphafi, en hún mundi verða ella. Auk þess fæst svo í dísilstöðinni varastöð og toppstöð, sem bæði getur gripið inn, þegar aðalstöðin eða vatnsaflsstöðin af einhverjum ástæðum kynni að stöðvast og hún getur líka verið sem toppstöð, þegar álagið yrði meira, en vatnsaflsstöðin getur ráðið við.

Það, sem þess vegna vinnst við þetta, er það, að það verður byrjað á línulögnunum um héraðið einu ári áður, en áætlunin gerði ráð fyrir. Það verður komizt hjá þeim rekstrarhalla, sem orðið hefði, ef þetta hefði verið tekið í öfugri röð og byrjað á vatnsaflsstöðinni. Og það er í þriðja lagi fengið 50% meira afl til umráða eða 1.500 kw. í staðinn fyrir 1.000. Og allt saman er þetta komið á áður en 5 ára tímabilinu er lokið, en það er bara tekið í nokkuð annarri röð og á hagkvæmari hátt, þannig að rekstrarkostnaðurinn verður minni og meir í samræmi við orkuþörfina eða sölumöguleika orkunnar, á meðan línan hefur ekki verið lögð um héraðið.

Ég veit, að þetta er mjög greinilegt dæmi um þá breytingu, sem víða hefur verið gerð í þessu sambandi. Tímaröðinni á framkvæmdinni hefur nokkuð verið vikið við, til hagræðis fyrir bæði notendur og fyrir ríkissjóðinn, sem getur frekar staðið undir framkvæmdunum, eftir því sem stofnkostnaðurinn verður ódýrari. Heildarþjónustan í lok 5 ára tímabilsins verður sú sama og í þessu falli t. d., sem ég nefndi, verður hún betri, en gert var ráð fyrir, því að orkuframleiðslan verður þar 50% meiri, en í upphafi var gert ráð fyrir og hún kemst til notendanna einu ári fyrr, en gert hafði verið ráð fyrir á þennan hátt. Nú verður það að vísu í þessu tilfelli ekki minni kostnaður í heild en gert hafði verið ráð fyrir, vegna þess að orkuframleiðslan verður þetta miklu meiri, sem ég hef hér greint frá og heildarkostnaður við virkjunina þess vegna — við allar framkvæmdirnar — nokkru meiri. En hér hefur heldur ekki verið neitt sparað, aðeins verið breytt um röð og byrjað á dísilstöð, sem ekki var gert ráð fyrir í áætluninni.

Þetta er mjög „týpiskt“ dæmi um þær breytingar, sem gerðar hafa verið á áætluninni og ég ætla, að það sé frekar vegna áróðurs eða einhvers annars, enn þá annarlegri ástæðna, sem þetta hefur verið „krítiserað“ jafnmikið og gert hefur verið, því að ég er viss um, að fyrir notendurna er það sízt verra og í mörgum tilfellum betra og fyrir ríkissjóðinn munar það öllum þessum milljónum, sem ég hef núna nefnt.

Út af rafmagnsmálunum held ég að ég þurfi ekki að segja miklu fleira. Með þessari fjáröflun, þessum 45 millj, kr., sem gert er ráð fyrir að taka að láni til raforkuframkvæmdanna, á að vera hægt að komast svo langt með þær, að ekki þurfi að grípa til frekari erlendrar lántöku. Það er gert ráð fyrir að nota af þessu fé 33 millj. kr. á árinu 1959 og afganginn, eða 12 millj., síðar, 1960 eða jafnvel enn síðar, eftir því sem á þarf að halda og framkvæmdaáætlunin gefur tilefni til. En ef hagkvæmt þykir að flytja einhverjar framkvæmdir á milli ára, þá má vitaskuld gera það með því fé, sem fengið verður, því að það verður náttúrlega yfirfært og heim tekið í þessu skyni strax. Ég vil leggja áherzlu á, að heildarfjárþörfum raforkuáætlunarinnar á að mestu leyti að vera fullnægt með þessu, þannig að það, sem til viðbótar þarf, er ekki meira en svo, að ætla má, að hægt sé að fá það innanlands.

Að lokum vil ég aðeins segja nokkur orð um hafnargerðirnar og fyrirhugaðar lántökur til þeirra.

Það er áætlað, að 28 millj. kr. af þessum 98 millj. kr. gangi til hafnargerð, og hafa ýmsir hv. alþm, látið í ljós, að það væri nokkuð lítið. En ég vil í því sambandi geta þess, að í þessari lántöku er ekki ætlað að sjá fyrir þörfum stærstu hafnarinnar eða þeirrar, sem mest fé þarf, þ. e. a. s. í Þorlákshöfn. Til hennar er ætlað að útvega fé á annan hátt og utan við þessa upphæð, svo að lánin til hennar koma til með að bætast hérna við, því að ef hún væri hér með þau „plön“, sem þar eru uppi, þá mætti ætla, að hún þyrfti meginhlutann af þessu fjármagni: En það virðast í augnablikinu vera líkur til þess, að hennar fjárþörf sé hægt að leysa á annan hátt og þess vegna er ekki reiknað með, að hún komi hér inn. En ef hún væri með, þá mætti gera ráð fyrir, að þessi upphæð færi mjög nálægt því að vera á milli 50 og 60 millj., eins og nefnt hefur verið hér sem æskileg upphæð af þeim hv. þm., sem þessa upphæð, 28 millj. kr., hafa gagnrýnt, svo að hafnargerðirnar koma sennilega til með, ef allt fer með felldu með lánsútvegunina til Þorlákshafnar, að hafa til umráða í allt á milli 50 og 60 millj. kr. og það er a. m. k. ekki útlit fyrir, að hægt sé að ráða við stærri upphæð eða gleypa stærri bita á einu til tveimur árum.