28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

1. mál, fjárlög 1959

Frsm. 1. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur allmargt komið fram í þessum umr. hér í dag og kvöld, sem ástæða væri til þess að ræða um. Það er eins og hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni áðan, að umr. hafa farið inn á nokkuð aðrar brautir, en venja er til við þessa umr. fjárlaga almennt, því að umr. bera að vissu leyti nokkru meiri keim af eldhúsumr. og sýnilega af ýmsum aðilum sérstakt kapp lagt á það að reyna að koma á þær áróðursblæ, enda niðurstaðan orðið sú, að það hefur ekki verið af þessara aðila hálfu sérstaklega lagt kapp á að ræða málin efnislega út frá raunsæi og réttu mati á staðreyndum, heldur til þess að fá út úr umr. álitlega pólitíska mynd og að vonum matið á þeim atriðum, sem fyrir hafa legið til athugunar, verið í samræmi við það.

Ég vil fyrst víkja að einu atriði, sem er ákaflega smávægilegt í rauninni og það var atriði, sem hv. frsm. 3. minni hl. vék að í upphafi síns máls í dag. Hann bar þar fram kvörtun yfir því, að hann og hans flokksmenn hefðu ekki fengið að vera aðilar að flutningi einnar till., sem 1. minni hl. nefndarinnar stóð að og taldi, að þar hefði verið komið fram af mikilli óbilgirni. Mér finnst þetta vera nánast broslegt, vegna þess að þessi hv. þm. veit það ákaflega vel, að það hefur verið hafður sá háttur á í fjvn., að þær till., sem nefndin hefur orðið sammála um, hafa verið fluttar af nefndinni í heild á sérstökum þskj. og síðan hafa þeir aðilar, sem flutt hafa hinar einstöku till. í nefndinni, en ekki fengið allsherjarstuðning þar, flutt það í sínu nafni, þeir minni hl., sem í nefndinni hafa myndazt og það gæti í rauninni orðið nokkuð skringileg útkoma, ef það væri farið að skila sérstökum nál. á sérstökum þskj. með hverri einstakri till. eftir því, hvernig samstaða hefði myndazt um hana í nefndinni.

Það hefur t. d. komið fyrir um margar aðrar till., sem við höfum flutt í 1. minni hl., að aðrir nm. ýmsir hafa greitt atkv. með þeim í n. og talið sig mundu styðja þær, en það hefur hins vegar ekki fengizt allsherjarsamstaða og af þeim sökum hafa till. verið fluttar í nafni viðkomandi minni hl. í n. En að það feli í sér, að öðrum þm. sé bannað að styðja till., þegar inn í þingið kemur, það er sannast sagna ákaflega brosleg fullyrðing og ég get a. m. k. tekið það fram í sambandi við þessa till., að það er okkur flm. hennar að sjálfsögðu hið mesta gleðiefni, að bæði hv. þm. S-Þ. og aðrir, sem sama sinnis eru, ljá henni sitt lið.

Það gefst í rauninni ekki tilefni til þess að ræða um aðrar till., hvorki frá 1. minni hl. n.fjvn. í heild, nema sem varðar ráðstöfun á því lánsfé, sem gerð er till. um af 1. minni hl. n., hvernig ráðstafað verði og aðrir aðilar hafa flutt brtt. um.

Varðandi afgreiðslu fjárlagafrv. að öðru leyti hefur í rauninni ekkert verið rætt umfram þær framsöguræður, sem fluttar hafa verið og því ekki tilefni til þess að ræða þær sérstaklega.

Hv. frsm. 3. minni hl. flutti hér í dag alllanga ræðu með viðeigandi undirfyrirsögnum, sem hann birti í ræðu sinni á tilteknum stöðum, þar sem nýir kaflar birtust og þá með sérstökum skáldlegum fyrirsögnum, sem hans er von og vísa og ég veit að taka sig mjög vel út á síðum Tímans, þegar þær verða þar birtar. Mér hugkvæmdist ekki að ætla að keppa við hann um myndskrúðuga ræðu. Ég veit, að ég kemst ekki í hans fótspor þar. En það harma ég hins vegar, hversu þetta myndskraut var notað til þess að hylja bágbornar og rakalausar fullyrðingar. Hann er nú sýnilega alveg kominn úr bílnum, sem hann var með hér á þingi í sambandi við afgreiðslu fjárlaga í fyrra og hittiðfyrra, eða dýrtíðarvagninum svokallaða, sem hann gerði þá mjög skáldlega samlíkingu um og sagði til afsökunar því, hvað ríkisstj. hefði gert lítið til að sporna gegn dýrtíðinni og þenslunni, að menn yrðu fyrst um sinn, eftir að þeir hlypu úr vagni, að hlaupa í sömu átt og vagninn til þess að missa ekki fótanna.

Það hefur nú farið svo með þennan vagn, að hann er víst kominn fram af brúninni, eins og efnahagsmálaráðunautur fyrrv. ríkisstj. lýsti nokkrum dögum áður en ríkisstj. gafst upp fyrir jólin, þannig að það er nú kannske ekki von, að hann sé til staðar til ferðalaga nú, enda er þessi hv. þm. nú aðallega farinn að halla sér að útgerðinni og í öllum þeim ræðum, sem hann hefur hér flutt, hefur hann talað um bát, sem að vísu virðist ekki vera af betri endanum, því að þar er allt upp á hið lakasta og í dag var sagt, að þessi bátur mundi vafalaust ekki hafa fengið haffæriskírteini, ef réttum lögmálum hefði verið fylgt í því efni. Þetta er vafalaust alveg rétt hjá hv. þm., því að eftir að hann og hans flokksbræður voru búnir að hafa á hendi stjórn þjóðarskútunnar það tímabil, sem þeir höfðu í fyrrv. ríkisstj., þá var hún sannarlega ekkert glæsilegt far, þannig að það hefði víst ekki verið sérlega líklegt, að hún fengi haffæriskírteini og þess vegna fellur þessi samlíking mjög vel saman við raunveruleikann í þessu efni. Það, sem er eini munurinn varðandi viðhorf hv. þm. S-Þ. og hans flokksbræðra og þeirra, sem vilja fylgja breyttri stefnu, er það, að hann og hans fylgjendur virðast telja það raunverulega sáluhjálparatriði og það er kannske vottur um það, að þeir trúi mjög á sælu annars lífs, að það verði ekkert gert til þess að bjarga þessari fleytu, heldur verði hún bara látin sökkva, það þýði ekkert að vera að bíða, þetta komi hvort sem er — og hví þá ekki að láta þetta koma strax? Ég veit ekki, hvort þetta er fyrirboði um það, hvað þeir álíta sjálfir um framtíð síns flokks, að það hafi ekki mikla þýðingu að vera að halda þessu á floti, því að þeir leggja vafalaust ekki mikið upp úr því, að þjóðarskútan fljóti lengi, eftir að þeirra forsjónar nýtur ekki þar og sé þá kannske bezt, að hún farist sem fyrst.

Þetta virðist vera tónninn í ræðum þeirra hv. framsóknarmanna, sem hér tala. Og viðhorf þeirra til þjóðarskútunnar virðist mótast af þessum sjónarmiðum. Þeir vilja sem sagt alls ekki með nokkru móti líta á neinar ráðstafanir til þess að bjarga út úr þeim ógöngum, sem þeir hafa manna mest átt þátt í að koma þjóðinni í, heldur telja þeir það allt ómögulegt. Við 2. umr, fjárl. vildu þeir ekkert gera til þess að sjá fyrir fé í útflutningssjóð, enda þótt vitað væri, að þessa fjár væri þörf og þeir höfðu beinlínis viðurkennt það með því að taka óbeinan þátt í afgreiðslu efnahagsráðstafana eftir síðustu áramót og þá voru ekki höfð uppi nein mótmæli um það, að fullkomlega væri þörf þessa fjár, sem þar var gert ráð fyrir, til aukins stuðnings útgerðinni. Nú vilja þeir ekkert gera til að útvega þetta fé. Það kemur þeim ekki við, vegna þess að þeir höfðu lagt fram till. í ríkisstj. í haust og þessum till. var ekki sinnt.

Ég veit nú satt að segja ekki, hvernig færi um stjórn okkar þjóðmála, ef sá háttur væri upp tekinn af stjórnmálaflokkum, að ef einhvern tíma hefði ekki verið fylgt þeirra ráðum, þá kæmi þeim ekkert við það, sem gerðist eftir það og þeir neituðu algerlega að viðurkenna þá raunverulegu þróun, sem orðið hefði. Ég geri ráð fyrir, að það sé svo ástatt með alla flokka þingsins, að þeir hafi flutt ýmsar till. um lausn efnahagsmálanna á hinum ýmsu tímum, sem ekki hafi verið farið eftir, og þeim hafi þó ekki hugkvæmzt að halda því fram, þegar það liggur fyrir, hver þróunin hefur orðið á hverjum tíma, að segja þá sem svo: Mig varðar ekkert um þetta. Ég vildi hafa þetta öðruvísi og þar af leiðir, að ég þarf ekki að hafa nein afskipti af þessu máli. Þeir flokkar, sem þannig hugsa, eiga bara að draga sig út úr pólitík. Og það væri kannske farsælast, að Framsfl. gerði það.

Í beinu framhaldi af þessu viðhorfi til afgreiðslu fjárl., sem einnig kemur fram við þessa umr. nú, því að þeir hafa ekki viljað heldur nú eiga neinn þátt í því að gera ráðstafanir til þess að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, þá hafa þeir nú tekið upp nákvæmlega sama viðhorf í sambandi við þær umr., sem hér hafa orðið um rafvæðingaráætlunina. Það er nákvæmlega sami hugsunarháttur, sem þar birtist. Það er auðvitað vitanlegt, af hverju þessir menn breiða sig svo mjög út yfir þá endurskoðuðu rafvæðingaráætlun, sem hér liggur fyrir. Það auðvitað dylst engum, að það er gert í þeim eina tilgangi að reyna að slá ryki í augu fólks og nota þetta mál í stjórnmálaáróðrinum í þeirri von, að þeir geti blekkt einhvern með þeim fullyrðingum, sem þeir halda hér fram. Það er kannske afsakanlegt hjá ýmsum hv. þm., þó að þeir geri þetta í hita dagsins. En það er ekki afsakanlegt, þegar hæstv. fyrrv. fjmrh. leyfir sér að ganga fram fyrir skjöldu í þessum áróðri á þann hátt. Maður, sem á að þekkja þessa hluti betur, en flestir aðrir, má ekki svo fáum mánuðum eftir að hann lætur af ráðherradómi gleyma algerlega þeim skyldum, sem á honum hvíla að meta mál út frá raunsæi og raunverulegum staðreyndum. Hann má ekki falla í þá gröf að láta bágborna málefnaaðstöðu síns flokks verða til þess að slá sig algerri blindu, þannig að hann taki undir með algerlega ábyrgðarlausum málflutningi í sambandi við umr. um hin mikilvægustu stórmál og vandamál þjóðarinnar. Ég efast ekkert um það, að hv. 1. þm. S-M, veit mætavel, að það, sem hann hefur haldið fram hér í dag, er blekking og eingöngu fram sett til þess að blekkja. Ég þekki hann það vel, að ég veit, að hann hefur áreiðanlega undir niðri löngun til þess að tala um þessi mál af meiri virðingu fyrir staðreyndum og heilbrigðri skynsemi en hann gerði.

Hæstv. forsrh. hefur gert hér þessa endurskoðuðu rafvæðingaráætlun töluvert að umtalsefni, en mig langar þó til að bæta þar við nokkrum orðum.

Bæði hv. þm. S-Þ. og hv. 1. þm. S-M. héldu því fram, að það væri, eins og þeir orðuðu það, svik, brigð á loforðum og önnur álíka orð, sem þeir um það höfðu, ef nokkur breyting væri gerð á hinni upprunalegu 10 ára áætlun og hv. 1. þm. S-M. ítrekaði það í sinni ræðu hvað eftir annað, að hann krefðist þess, að frá þessum áformum væri horfið. Honum er dálítið gjarnt að nota orðið „krefst“, en það er nú held ég gott fyrir menn að gera sér grein fyrir því, hvaða aðstöðu þeir hafa til að krefjast og þó að menn hafi kannske vanizt því, að það væri í öllu farið eftir þeirra orðum og óskum, þá er ekki víst, að það verði ætíð gert og þess vegna hæpið að byggja sinn málflutning allt of mikið upp á slíkri kröfugerð. En látum það nú gott heita.

En í sambandi við þessi svikabrigzl öll er æskilegt að gera sér grein fyrir, hvað hér er raunverulega á ferðinni og þá m. a. og fyrst og fremst það, hvað 10 ára áætlunin er. Hv. 1. þm. S-M. sagði, að það væri brot á þingræðisreglum, ef það væru gerðar nú breyt. á þessari áætlun. Ég skil satt að segja ekki, hvað hann á við með þessu, vegna þess að 10 ára áætlunin svokallaða hefur aldrei verið formuð þannig, að það væri í þeirri löggjöf, sem upphaflega var um hana sett, tiltekið í einstökum atriðum, hvernig framkvæmd hennar skyldi háttað, enda hefur ýmsum atriðum hennar verið breytt síðan og engir haft neitt við það að athuga. Hann vildi storka okkur sjálfstæðismönnum og það verður vafalaust útskýrt í Tímanum með viðeigandi orðum, að við, sem hefðum þótzt vera höfundar þessarar áætlunar, ætluðum nú að fara að gerast svikarar við hana, ef við féllumst á þessa endurskoðuðu áætlun, sem hér lægi fyrir.

Ég held, að við sjálfstæðismenn höfum enga ástæðu til að blygðast okkar fyrir okkar stefnu í raforkumálum, því að það er víst engum efa bundið, hvaðan hugmyndirnar um rafvæðingu strjálbýlisins eru runnar og mun víst enginn leyfa sér að mótmæla því eða efast um það. Það er langur tími liðinn, síðan þeirri hugmynd var hreyft og síðan m. a. þeirri kenningu var haldið fram af aðaltalsmönnum Framsfl., að hugmyndin um rafvæðingu strjálbýlisins mundi setja landið á höfuðið og það mundi vera framtíðarlausnin að leysa raforkumál strjálbýlisins með því að virkja þúsundir bæjarlækja, eins og það var orðað á sinni tíð. Þá var nú ekki markið sett hærra og ég held því, að með hliðsjón af aðgerðum okkar sjálfstæðismanna í þessu efni getum við alveg kinnroðalaust borið okkar verk í því sambandi saman við verk þeirra manna, sem hér tala nú hæst og fjálglegast um þetta mál og þeir einir séu þar sannir á verðinum.

En í sambandi við það, að það séu einhver brigðmæli, þó að áætlun sem þessi sé endurskoðuð, þá er rétt að vekja athygli á vissum staðreyndum í þessu sambandi, sem nauðsynlegt er að hafa í huga. Þegar þessi áætlun var upphaflega gerð, var hún gerð af þeim mönnum, sem raforkumálunum stjórnuðu í þá tíð og eru þeir sömu menn og það gera nú. Og þeir formuðu hana á þeim grundvelli, sem þeir töldu þá raunhæfan og raunsæjan, miðað við þá möguleika, sem voru fyrir hendi um fjáröflun og miðað við þá kostnaðaráætlun, sem þá var gerð. Það er nú liðinn helmingur þessa tímabils. Og hvað er það þá, sem veldur því, að það er talið nú nauðsynlegt að endurskoða þessa áætlun? Það, sem fyrst og fremst veldur því, er það, að á þessu tímabili hefur kostnaður við þessa framkvæmd vaxið svo gífurlega, að 10 ára áætlunin, sem upphaflega var gert ráð fyrir að kostaði 250 millj. kr., mundi eftir þeim áætlunum, sem nú liggja fyrir, kosta samtals á 7. hundrað millj. kr., og þetta eitt út af fyrir sig sýnir ljóslega, hvaða geysilegar breyt. hafa orðið og hvernig allur grundvöllur undir þessari áætlun hlýtur að hafa raskazt stórkostlega. Það hefur t. d. gerzt í þessu sambandi, að síðan vorið 1955 hefur kostnaður við rafvæðinguna hækkað um 80%, en á sama tíma hefur rafmagnsverðið aðeins hækkað um 30%. Og það þarf enga sérstaka rekstrarhagfræðinga til þess að átta sig á því, að þegar svona er ástatt, þá er ekki nema um tvennt að ræða: annaðhvort að halda áfram á þessari braut með sívaxandi rekstrarhalla eða þá í öðru lagi að draga úr hraðanum og láta þetta ná yfir lengri tíma — eða þá að hækka raforkuverðið, nema hægt sé að finna einhverja leið enn og þá leið, sem hér hefur verið reynt að finna, að breyta þessu plani á þann hátt, að það væri hægt með ódýrara móti og hagkvæmara að framkvæma það. Ég geri ekki ráð fyrir því, að neinn maður vilji í alvöru halda því fram, að það hefði átt að halda áfram á þessari braut endurskoðunarlaust með 15 millj. kr. rekstrarhalla á ári um fjölmargra ára bil og láta þannig stóran hluta af því fé, sem til ráðstöfunar hefur verið, ganga til þess að greiða þennan rekstrarhalla. Í annan stað geri ég ekki heldur ráð fyrir, að menn haldi því fram, að það hafi átt að halda dauðahaldi í þetta upprunalega plan, enda þótt það kostaði það, að það þyrfti jafnvel að margfalda rafmagnsverðið, til þess að hægt væri að reka þessar rafveitur með einhverjum skynsamlegum hætti. Ég er hræddur um, að það hefði komið illa við einhvern. Það, sem gerzt hefur því í þessu efni nú, er ekki það, að það hafi verið gefin nein fyrirmæli um að endurskoða þessa áætlun á þeim grundvelli, sem hér hefur verið gert, heldur hafa þessir sérfræðingar, sem að þessu hafa unnið og ég held að sé engin ástæða til annars en álita að hafi unnið sitt verk vel og dyggilega á þessum árum og haft fullan áhuga á að framkvæma þessa áætlun, þeir hafa séð, að svo mátti ekki ganga og það yrði að reyna að finna einhver úrræði. Og ég hika ekkert við að fullyrða það fyrir mitt leyti, enda þótt ég hafi ekki haft langan tíma til þess að athuga þessa áætlun, að hér er í meginatriðum mjög skynsamlega að unnið. Það eru vafalaust ýmis einstök atriði í þessu, sem geta þurft endurskoðunar við og ekki víst, að allir séu á sama máli og sérfræðingarnir um það, hvernig niðurröðun sé hér hagað í einstökum atriðum. En hugsunina, sem hér liggur á bak við og þann árangur, sem er talinn nást út úr þessari breytingu, tel ég vera mjög merkilegt spor í þá átt að koma þessu máli fyrir á hagkvæman hátt, bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélagið.

Það hefur verið skýrt frá því hér hvað eftir annað í dag og ég rakti það í frumræðu minni, hvernig í meginatriðum uppbygging þessarar endurskoðuðu áætlunar er. Það, sem mér þykir skipta meginmáli, er, hvaða þjónustu fólkið í landinu fær. Og það hafa engir fært hér fram nein rök fyrir því, sem hafa gagnrýnt þetta plan, að hér væri gert ráð fyrir að rýra þá þjónustu, sem 10 ára áætlunin gerði ráð fyrir, nema síður sé. Það er að vísu rétt, að sú breyting, sem hér verður á er, að það eru 110 bæir af 3.097 bæjum, sem gert er ráð fyrir að fái raforku frá samveitum, sem ekki verða með í þessu plani. En í stað þess koma 110 býli annars staðar, sem rúmast innan þessarar áætlunar, miðað við það fé, sem til ráðstöfunar er samkvæmt áætluninni, eins og hún liggur fyrir. Og er það nú svo óskaplegt, þó að 110 býli þurfi að leysa sína raforkuþörf með dísilrafstöðvum, að það sé talið nauðsynlegt að leggja á sig að óþörfu 88 millj. kr. útgjöld plús 25 millj. kr. aukinn rekstrarhalla til þess að ná því marki að tengja þessa 110 bæi við samveitur? Mér skilst það, eftir því sem hér er haldið fram, að það virðist vera eitthvert óskaplegt böl, ef menn þurfi að fá raforku um lengri eða skemmri tíma frá dísilstöð. Ég fæ ekki skilið, hvernig það skiptir máli fyrir þann einstakling, sem raforkunnar nýtur, hvort hún er frá dísilstöð eða samveitu, ef hann borgar sama verð fyrir hana. Það held ég að hljóti að vera meginatriði málsins, hitt komi einstaklingnum ekkert við. Og það liggur ljóst fyrir, að frá þessum dísilstöðvum, sem settar verða upp á vegum rafmagnsveitna ríkisins, verður rafmagnsverð það sama og frá dreifiveitunum frá vatnsorkuverunum, þannig að hér verður ekki nokkur breyting á. Og ef það er svo voðalegt fyrir 110 býli eða heimilisfólk þar að fá raforku frá dísilstöðvum, a. m. k. um skeið, hvað má þá segja um þau 2.500 býli, sem eru utan við þetta plan og er gert ráð fyrir að þurfi að meginhluta til að leysa sína orkuþörf með annaðhvort sérvirkjunum fyrir einstaka bæi eða með dísilstöðvum? Mér finnst þessar röksemdir vera svo furðulegar, að það er eiginlega kynlegt, að nokkur maður skuli treysta sér til að bera þær á borð. Það er ekki gert ráð fyrir að seinka rafvæðingu strjálbýlisins þannig, að hin einstöku býli fái raforku seinna en ella hefði verið og það er meira að segja í ýmsum tilfellum gert ráð fyrir því, að það geti orðið fyrr og getur þá orðið bætt úr þeim vanefndum, sem voru hjá fyrrverandi raforkumálaráðherra, þar sem hann frestaði mjög miklum fjölda af þeim dreifiveitum, sem leggja átti á s. l. ári, og fer a. m. k. illa á því, að samherjar þess ágæta manns séu að hneykslast óskaplega yfir því, ef þeir gætu fundið einhvers staðar í einhverjum atriðum vikið frá 10 ára áætluninni. Það væri gott, að þeir íhuguðu þessa staðreynd um leið.

Það er vissulega rétt, að rafvæðing strjálbýlisins og sú 10 ára áætlun, sem um það var gerð, er mikilvægasta hagsmunamál fólksins í sveitum landsins og í strjálbýlinu. En það er jafnmikilvægt að leysa þetta vandamál á þann veg, að hvorki þessu fólki sjálfu, hverjum einstökum, né þjóðfélaginu í heild sé bundinn óþarflega þungur baggi. Því verðum við líka að gera okkur grein fyrir.

Eins og ég skýrði frá áðan, þá er þessi áætlun, sem hér liggur fyrir, gerð af raforkumálastjórninni og það, sem ég hér segi, túlkar aðeins mína persónulegu skoðun á þessu máli, því að hér er ekki um að ræða neina endanlega samþykkt, heldur hefur þetta verið sent til athugunar viðkomandi ráðuneyti frá stjórn raforkumálanna. En ég ítreka það, að mér sýnist, að raforkumálastjórnin hafi hér tekið á þessu máli af skynsemi og það sé í rauninni eftirtektarvert, hvernig hún hefur náð þeim árangri að lækka þessi útgjöld svo mikið sem hér er gert ráð fyrir og um leið gerbreyta allri rekstrarafkomu Rafmagnsveitna ríkisins án þess að draga á nokkurn hátt úr þeirri þjónustu, sem gert var í 10 ára áætluninni ráð fyrir að veita, enda þótt sú þjónusta kunni að vera veitt að einhverju leyti í öðru formi, en þar var gert ráð fyrir.

Það liggur í augum uppi og var enda mjög sláandi dæmi, sem kom fram í sambandi við umr. um virkjunina í Austur-Skaftafellssýslu, hversu það hlýtur að vera mikils virði, þegar vatnsfall er beizlað, að það skuli þá vera þegar möguleiki til mikillar raforkusölu. Það er einmitt eitt stærsta vandamálið í sambandi við hinar ýmsu virkjanir, að raforkusala frá þeim hefur lengi framan af verið mjög lítil og þar af leiðandi rekstrarhalli þeirra mjög mikill. Og ég held, að það sé engum efa bundið, að það mundi vekja meiri ánægju hjá fólki, að það fái rafmagn fyrr en ella, enda þótt það í bili þurfi að vera frá dísilstöð, heldur en þurfa að bíða eftir vatnsorkuveri, því að eins og ég sagði áðan, þá skiptir það ekki öllu máli fyrir almenning, heldur að fá rafmagnið og að fá það við sambærilegu verði og aðrir verða að greiða. Það er auðvitað framtíðarmál í þessu sambandi að tengja saman allar hinar ýmsu orkuveitur landsins og um það hefur raforkumálastjórnin sínar áætlanir. Það tekur vitanlega langan tíma og verður að gerast eftir því, sem skynsamlegt og hagkvæmt er talið. En ég tel það síður en svo óskynsamlegt í meginatriðum, miðað við þær upplýsingar, sem fyrir liggja, að vinna að því að ljúka 10 ára áætluninni á þann hátt, sem raforkumálastjórnin hefur gert till. um.

Það eru ýmis önnur atriði, sem freistandi væri að minnast á, en ég vil ekki eyða miklu lengri tíma í mitt mál. En ég get ekki stillt mig um að minnast á þá staðhæfingu hv. þm. S-Þ. (KK), að með því að gefa eftir þurrafúalánin sé verið að ausa fé í milljónamæringa. Vafalaust eru þessir menn mismunandi efnaðir, sem hafa orðið fyrir þessum áföllum. En eins og ég gat um, þegar það mál var hér til umræðu við 2. umr. fjárl., þá væri það sýnilegt, að ef ekki væri á það fallizt að gefa þessi lán eftir, heldur ætti að innheimta þau, þá væru þessir menn verr settir og byggju við lakari kjör að þessu leyti heldur en þeir, sem yrðu fyrir þessum áföllum, eftir að tryggingakerfið væri innleitt og ekki sízt eftir að það hefur nú verið samþ., að þurrafúaiðgjöldin verði greidd eins og önnur tryggingaiðgjöld. Og vil ég í því sambandi líka vekja athygli á því, að ef hér er um það að ræða, að það sé verið að gefa milljónamæringum og að mismuna eigi mönnum í þessu efni, þá er að sjálfsögðu alveg á sama hátt hægt að segja það um ákvarðanirnar um útflutningsuppbætur, að það sé ákaflega óeðlilegt að taka þar ekki eitthvert tillit til efnahags manna. Eftir þessari sömu röksemd er að sjálfsögðu í mörgum tilfellum þeim gefið mest, ef gjöf á að kalla, sem efnaðastir eru, þannig að hneykslunar yrði um það, að hér sé verið að fara inn á einhverja óhæfilega braut, er auðvitað algerlega út í hött.

Í sambandi við umr. um erlenda lánið og ráðstöfun þess, þá sagði hv. 1. þm. S-M. (EystJ), að það væri fráleitt að aðskilja grunnupphæð lánsins, þ. e. a. s. þá upphæð, sem miðuð er við hið skráða gengi og yfirfærslugjaldið, vegna þess að það hlyti að fara saman. Ég held, að skoðun hv. þm. sé eitthvað breytt í þessu efni frá því, sem áður var, vegna þess að mér er ekki kunnugt um annað, en að þegar yfirfærslugjaldinu var ráðstafað á s. l. hausti, sem allmiklar umr. urðu hér um fyrir nokkru, þá hafi sá háttur alls ekki verið á hafður, að þær stofnanir, sem höfðu fengið grunnupphæð lánsins, fengju yfirfærslugjald í réttu hlutfalli við grunnupphæðirnar, heldur hafi yfirfærslugjaldinu verið ráðstafað eftir öðrum reglum og af því leiðir að sjálfsögðu, að það er engin sérstök ástæða til þess, að þetta gjald þurfi að fylgja grunnupphæðinni frekar nú.

Ég sé ekki sérstaka ástæðu til þess að gera hér að umtalsefni fiskveiðasjóðinn og fjárþörf útflutningssjóðs umfram það, sem gert hefur verið. Í því sambandi vil ég þó aðeins minnast á till., sem hv. 2. minni hl. fjvn. flytur, þar sem hann gerir ráð fyrir því, að ákveðið verði í fjárlögum, hvernig greiðslu til útflutningssjóðs skuli hagað og hvernig hún skiptist á einstaka mánuði. Um þetta varð ekki samstaða í n. Ástæðan til þess er ekki sú, að ekki sé talið sjálfsagt, að það verði staðið í skilum með þessa greiðslu, heldur er það alls ekki tíðkað um fjárveitingar í fjárlögum, að sett sé ákvæði um það, í hvaða hlutföllum þær eigi að greiðast þeim, sem þær eiga að fá. Ég veit ekki til, að slík ákvæði hafi nokkru sinni verið í fjárlögum um neinar fjárveitingar úr ríkissjóði. Hitt hefur — held ég — verið almenn regla um fjárveitingar, sem einhverju hafa numið, að það hefur verið fylgt ákveðnum reglum af fjmrn. um greiðslu þeirra og þeim deilt niður á mánuðina eftir einhverjum ákveðnum hlutföllum og verður að sjálfsögðu að gera ráð fyrir, að það verði einnig gert nú í framkvæmdinni, enda þótt óeðlilegt sé að fara að gera sérstaka samþykkt um þessa tilhögun hér.

Ég held ekki, hæstv. forseti, að ég þurfi að eyða hér lengri tíma. Ég hef útskýrt þau atriði, sem mér þykir máli skipta og ég vildi aðeins að lokum endurtaka það, að það er í raun og veru raunaleg staðreynd fyrir þá, sem hafa haft einhverja trú á því, að hv. framsóknarmenn vildu sýna ábyrgðartilfinningu við meðferð vandasamra mála, ekki sízt þar sem þeir hafa nú að undanförnu mjög talað um ábyrgðarleysi annarra, að þá skuli þeir verða berir að svo algeru ábyrgðarleysi eins og komið hefur fram við afgreiðslu fjárlaga nú og meðferð annarra þeirra mikilvægra mála, sem blandazt hafa inn í þessar umr.