28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

1. mál, fjárlög 1959

Eiríkur Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég flyt smábrtt. við fjárlögin á þskj. 456, sem felur í sér fjárveitingu til Þingeyrarflugvallar.

Í till. framsóknarmanna í fjvn. við 2. umr. fjárlaga um fjárveitingar til framkvæmda úti um héruð landsins var m. a. till. um 100 þús. kr. til flugvallar á Þingeyri. Þessi till. var felld af stjórnarliðinu.

Ég tel, að tillaga þessi eigi fullan rétt á sér, þar sem það er mjög á döfinni, að sjóflugvélar eru að leggjast niður og þegar engin flugvél, sem getur lent á sjó, verður til í landinu, þá leggjast ferðir til Vestfjarða niður, ef ekki er hægt að gera flugvelli sæmilega á fjörðunum. Þess vegna tel ég, að þessi till. hafi við fyllstu rök að styðjast.Ég trúi því ekki, að þeir Vestfjarðaþingmenn, sem hér eru, treysti sér til þess að vera á móti þessari sjálfsögðu fjárveitingu, ekki sízt vegna þess, að ákveðið hefur verið að leggja nú 1.200 þús. kr. til flugvallargerðar á Ísafirði. Það væri einkennilegt, ef ætti að setja alla hina firðina hjá, þegar svona mikið átak er gert fyrir einn fjörð og ég trúi því varla, að þeir þm., sem hugsa sér að bjóða sig fram í stóra kjördæminu, þegar búið verður að gera alla Vestfirði að einu kjördæmi treysti sér til þess, enda þótt þeir séu háðir einhverjum flokksböndum, að vera á móti þessu, enda veit ég, að það þýðir ekkert fyrir þá að sýna sig í Dýrafirði, ef þeir greiða atkv. á móti þessari sjálfsögðu till.