28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

1. mál, fjárlög 1959

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal endurtaka það, sem ég sagði hér í umr. í kvöld, að ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í umr. um fjárlagaafgreiðsluna út af fyrir sig. En þessar fjárlagaumr. í þetta sinn hafa orðið með nokkuð öðrum hætti, en venja er og hafa komið inn á mál, sem mér eru skyld, svo að ég tel rétt og sjálfsagt að gefa um þau þær upplýsingar, sem ég kann skil á og þess vegna tók ég til máls þá og þess vegna hef ég leyft mér að taka til máls nú aftur til þess að svara þeim athugasemdum, sem fram hafa komið um þau tvö mál, sem mest hafa verið rædd í þessum umr., þ. e. raforkuáætlunina og Fiskveiðasjóðinn.

Hv. þm. A-Sk. (PÞ) spurði mig í dag tveggja spurninga, sem ég hef áður svarað og skal ekki endurtaka. Ég skýrði frá því, að það væri fyrirhuguð nokkur breyting á raforkuáætluninni fyrir Austur-Skaftafellssýslu, þannig, að það væri talað um að snúa framkvæmdinni við á þann hátt að byrja á þeirri dísilstöð, sem sennilega þyrfti að reisa í lok áætlunartímabilsins, en fresta vatnsvirkjuninni þangað til í lok tímabilsins, en það hefði verið ætlað áður að byrja á henni. Og rökin fyrir þessari breytingu voru þau að dómi raforkumálaskrifstofunnar, að raforkuþörfin til að byrja með mundi ekki verða það mikil, að hún réttlætti byggingu þessarar vatnsaflsstöðvar í upphafi, það mundi verða heppilegra að láta sér nægja helmingi minni dísilstöð, sem gæti séð fyrir þörfum fólksins þangað til 1963, en byggja þá vatnsaflsstöðina. Með þessu móti er á engan hátt dregið úr því að fullnægja þeirri eftirspurn eftir raforku, sem gera má ráð fyrir að verði á þessu tímabili. Það á öllum að vera séð fyrir jafnmikilli raforku og gert var ráð fyrir með hinu planinu, en einungis frestað hinni dýrari framkvæmd, til þess að rekstrarkostnaðurinn á þessu tímabili verði minni. Og enn vinnst við þetta það, að línulagningin út um sveitirnar getur byrjað einu ári fyrr en ella, þannig að ég tel betur séð fyrir þörfum íbúa sýslunnar og staðarins með þessu móti, heldur en með hinu fyrra.

Hv. þm. sagði í upphafi sinnar ræðu, að mín rök hefðu verið léttvæg. Það er náttúrlega hans mat og það er kannske mat hans að lítið athuguðu máli, því að ég vænti þess, að þegar hann hefur kynnt sér þessar till., þá komist hann að þeirri niðurstöðu, eins og þeir, sem um þessi mál hafa fjallað að undanförnu, að þetta sé heppilegri leið, hagkvæmari leið og ódýrari leið. Og hví ekki að fara þá þessa leið?

Hv. þm. vildi segja, að engin rödd hefði komið úr héraði, sem hefði óskað eftir þessu. Það má vel vera. Og mér fannst eins og hv. þm. vildi láta liggja að því, að frumkvæðið að þessari breytingu væri eitthvað í ætt við núverandi ríkisstjórn. En ég get fullvissað hann um, að svo er ekki. Ég hef ekki átt frumkvæðið að neinni af þessum breytingum. Þær eru allar komnar frá raforkumálaskrifstofunni sjálfri og fyrir hennar frumkvæði, vegna þess að hún telur, að þessi lausn, sem hún hefur nú stungið upp á, sé hagkvæmari, ódýrari og á allan hátt heppilegri, en sú áætlun, sem var gerð fyrir fimm árum.

Ég gat þess í minni fyrri ræðu hér í kvöld, að eitt af því fyrsta, sem raforkumálastjóri hefði tjáð mér, þegar hann kom að ræða við mig um þessi mál, hefði verið það, að reynslan, sem þeir hefðu fengið á þeim fimm árum, sem liðin væru af þessum áætlunartíma, hefði kennt þeim, að ýmislegt í hinni upphaflegu áætlun væri þannig vaxið eða liti þannig út nú, að það mundi mega gera á heppilegri hátt annan, en gert var ráð fyrir í upphafi.

Ég sagði honum auðvitað, að hann skyldi halda áfram sínum athugunum á því, því að ekkert vakti fyrir mér annað, en það að reyna að fá þessi mál afgreidd og framkvæmd á þann ódýrasta hátt, sem mögulegt væri fyrir ríkissjóðinn, þó því aðeins, að hægt væri að veita fólkinu sömu eða betri þjónustu, en ákveðið hafði verið í hinni upphaflegu áætlun. Þetta er gert hvað Austur-Skaftafellssýslu viðkemur á þennan hátt. Ég tel a. m. k., að það verði talin betri þjónusta, að fólkið fær á þennan hátt rafmagnið einu ári fyrr og heildarorkunotkunin eða heildarorkuframleiðslan verður um 50% meiri á þennan hátt, en gert var ráð fyrir í upphafi. Það verða framleidd á svæðinu 1.500 kw. í staðinn fyrir að upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir 1.000 kw. Mér þykir leitt, ef hv. þm. og sérstaklega ef þeir, sem við þetta eiga að búa, telja, að verið sé að vanefna eitthvað á þeim með þessari lausn. Það er sannarlega ekki. Með þessu er a. m. k. frá mínum bæjardyrum séð ætlað að gefa betri lausn fyrir fólkið og ódýrari rekstur, en hægt hefði verið að gera með hinni fyrri áætlun. Ég álít það vera mikla þröngsýni, ef það á að binda sig endilega og rígskorða sig við áætlun, sem gerð var fyrir fimm árum, ef á tímabilinu, sem síðan er liðið, hefur komið í ljós, að þetta má gera á hagkvæmari hátt.

Hv. þm. sagði, að það væru lítil búhyggindi í því fólgin að byggja dísilstöðvar, þegar hægt væri að framleiða raforkuna með vatnsafli. En ég get frætt þennan hv. þm. á því, að það geta verið mikil búhyggindi í því fólgin að fara að á þennan hátt, því að það getur vel verið, að vatnsaflsvirkjunin kosti ekki einasta meira, heldur einnig þjóðfélagið meira, ef ekki eru not fyrir þá orku að fullu, sem þetta orkuver getur framleitt. Og það var hér á fyrri árum, á meðan raforkunotkunin var ekki mikil hér í Reykjavík og þéttbýlinu, þá var það mikið áhyggjuefni fyrir þá, sem að þessum virkjunum stóðu, stóru virkjunum, að rafmagnið mundi ekki nýtast eins fljótt og þyrfti. Það hefur að vísu annað komið á daginn, en það er af alveg sérstökum ástæðum, sem gilda um hið vaxandi þéttbýli hér, en þær ástæður eru ekki fyrir hendi á sama hátt austur í Austur-Skaftafellssýslu, þannig að það verður vissulega að taka með þann möguleika að leysa málið með dísilstöð, þó að kannske, — ja, ég vil segja, ef maður lætur stjórnast af tilfinningum, vildi heldur vatnsaflsvirkjunina. En það er sú tilfinningasemi, sem ekki má ráða í þessu máli, heldur sú kalda skynsemi, hvað sé hagkvæmast. Og ég vil fullyrða, að sú breyting, sem á raforkuáætlun Austur-Skaftafellssýslu hefur verið gerð, sé gerð með það fyrir augum að spara fé fyrir ríkissjóð og þar með fyrir neytendurna líka, en veita þeim sömu og betri þjónustu, en hægt hefði verið að gera á annan hátt.

Ég vil alveg sérstaklega undirstrika það, bæði við þennan hv. þm. og aðra, sem hér hafa talað, eins og hv. þm. Barð. (SE), sem lét liggja að svipuðu hér áðan, að það er ekki fyrir neitt frumkvæði frá mér, að þessum áætlunum hefur verið breytt. Það er algerlega komið frá raforkumálaskrifstofunni. Og ég efast ekkert um, að þar eru engin pólitísk sjónarmið, heldur eingöngu hagsmunasjónarmið ríkisins og rafveitnanna alveg sérstaklega, sem hafa verið látin ráða.

Hv. þm. Barð. spurði um Króksfjarðarneslínu og ég get huggað hann með því, að það er ætluð til Króksfjarðarneslínu samkvæmt hinni nýju áætlun nákvæmlega sama upphæð og gert er ráð fyrir í hinni upphaflegu áætlun, eða 5.9 millj. kr. Ég vil þess vegna vænta þess, að sú lína komi til framkvæmda alveg eins og gert hefur verið ráð fyrir. Hefur tímaröðinni verið vikið eitthvað við, sagði hv. þm., og hefur það verið gert til hagsbóta fyrir fólkið? Það skal ég ekki segja um, en það ákveður rafmagnsstjóri, í hvaða röð tengt verður.

Ég sé, að það eru ætlaðar í þessa veitu á árinu 1960 nærri 3 millj. kr., svo að ég geri ráð fyrir, að hún komist vel á stað að minnsta kosti. En að öðru leyti þekki ég ekki eins nákvæmlega Króksfjarðarneslínu-áætlunina eins og ég þekki Austur-Skaftafellssýslu-áætlunina, vegna þess að ég hafði tækifæri til þess að tala við raforkumálastjóra nú í matmálstímanum eða hléinu, sem var gert, frá því að hv. þm. spurði og ég hef frá honum allar þessar upplýsingar nú í dag, sem ég hef hér gefið.

Hv. 1. þm. S-M. (EystJ) vildi leggja þann skilning í mín orð, að ég hefði talið, að þessi 88 millj. kr. mismunur, sem fram kæmi á milli hinnar nýju áætlunar og hinnar gömlu, væri af því sprottinn, að framkvæmdir samkvæmt fyrri áætluninni fyrir 88 millj. kr. yrðu óunnar í lok tímabilsins. En ég verð nú að segja það, að það þarf alveg sérstakt lag til þess að geta skilið orð mín á þennan hátt, því að ég margsagði, að framkvæmdirnar samkvæmt hinni nýju áætlun verða þær sömu að öllu leyti eins og gert var ráð fyrir í fyrri áætluninni, að undanskildu því, að 110 bæir, sem þar hafði verið ætlað rafmagn, fá það ekki frá veitu, en aftur á móti fá aðrir 110 bæir þetta rafmagn, þannig að heildarútkoman verður sú sama. En hins vegar er ýmislegt gert samkvæmt hinni nýju áætlun, sem ekki var gert ráð fyrir í hinni gömlu, eins og t. d. dísilstöðin í Höfn. Í gömlu áætluninni var ekki gert ráð fyrir nema 1,000 kw., en nú er gert ráð fyrir 1.500 kw. og svo er víðar, því að heildarrafmagnsframleiðslan samkv. hinni nýju áætlun verður 10 þús. kw., í staðinn fyrir að það var ekki gert ráð fyrir nema 6 þús. kw. samkv. hinni gömlu, þannig að heildarrafmagnsframleiðslan verður með hinni nýju áætlun aukin á þessu tímabili um hvorki meira né minna en 66%.

Ég skal svo láta þetta nægja, en skal þá nokkrum orðum víkja að ræðu hv. 2. þm. S-M. (LJós), sem ræddi hér um fiskveiðasjóðinn. Hann hélt því fram, eins og hann hefur raunar gert við ýmis tækifæri áður, að ég hefði laklega kynnt mér ýmsa þætti sjávarútvegsmálanna, en hins vegar sæti hann þar inni með alla vizku. Þetta er í þriðja eða fjórða skiptið, sem hann lætur mig vita af þessu og er ég út af fyrir sig þakklátur honum fyrir það að geta þá farið í smiðju til hans, ef mig brestur þekkingu á þessum málum, því að ég heyri það, að hann hefur a. m. k. ekki vantrú á sinni kunnáttu þar, eins og hann virðist hafa litla trú á mínu viti í þessum málum. En ég skal ekki neitt deila við hann um þetta nú frekar en endranær. En ég vil aðeins segja það, að hann má hafa þá skoðun um þetta, sem hann vill, ég kippi mér ekki upp við það, en ýmislegt af því, sem hann var að telja fram að ég vissi ekki eða ætti að vita betur, það vissi ég nú raunar um, áður en hann flutti hér sitt mál.

Hv. þm. sagði, að ég hefði ekki gert mér grein fyrir þeirri breytingu, sem varð á fiskveiðasjóðslögunum 1957. Þó var það nú þannig, á meðan ég vitnaði til þeirra laga, þ. e. laganna frá 1955, þar sem þau eru prentuð í stjórnartíðindum og gerði ég það vegna þess, að þau eru þar prentuð í heilu lagi, en þá hafði ég hjá mér á sömu stundinni breyt., sem gerð var á lögunum 1957, svo að ég vissi ákaflega vel, hvað í þeim stóð. En kjarni þessa máls er sá, að fiskveiðasjóður hefur alltaf og ævinlega haft það hlutverk að reyna að sinna þörfum smáútvegsins og minni fiskvinnslustöðva. Hann hefur aldrei farið í það að veita lán til togara, svo að ég viti til og hann hefur ekki heldur veitt lán til stórra frystihúsabygginga né stórra síldarverksmiðja, svo að nokkru nemi. Í þeirri breytingu, sem gerð var 1957, er ekki hærra risið en það, að þar er gert ráð fyrir, að þar sem áður stóðu 200 rúmlestir í lögunum, skulu nú standa 300 rúmlestir, þannig að skip, sem áður höfðu forgangsrétt til lána úr sjóðnum, voru áður miðuð við 200, en eru nú miðuð við 300 rúmlesta stærð. Munurinn er nú ekki meiri og undir það koma sannarlega ekki togararnir. Hins vegar má segja, að kannske fræðilega hafi hv. þm. rétt fyrir sér að því leyti til, að það er ekki bannað að veita stærri skipum lán, en það stendur hins vegar, að skip undir þessari stærð skuli ganga fyrir og það er það, sem alltaf hefur verið niðurstaðan. Það hefur ekki verið veitt neitt lán til stærri skipa. Um fiskvinnslustöðvarnar eða nánar tiltekið þær tvær síldarverksmiðjur, sem hann nefndi í kvöld, þá er það að segja, að eftir lagabreytinguna 1957 og undir hans stjórn voru ekki veittar nema 500 þús. kr. til hvorrar verksmiðju, þrátt fyrir það þó að búið væri að taka hámarkið út úr lögunum. En ég geri ráð fyrir því, að þessar tölur, sem áður voru í lögunum nefndar sem hámark, hafi enn þá setið í framkvæmdastjórninni í praksís, þannig að það hafi ekki verið talið mögulegt að fara miklu hærra. Ég veit ekki, hvort þörfum stórútgerðarinnar eða togaranna yrði fullnægt að neinu ráði af þessum sjóði, án þess að miklu stærri fjárfúlgur kæmu til, en hv. þm. hefur hér gert till. um. Hann hefur flutt brtt. um það á þskj. 460, að ég ætla, að 25 millj. kr. af þessu fé verði veittar til togarakaupa.

Ég vil nú ekki ætla hv. þm. sams konar vankunnáttu og hann ætlar mér, en ég vil ætla það, að hann viti, hvað togari kostar, sem verið er að hugsa um að byggja nú. Hann kostar nákvæmlega þessa upphæð eða mjög svipaða. Einn togari kostar í dag um 24 millj. kr., og ein 25 millj. kr. erlend lánveiting í þessu skyni mundi tæpast endast til þess að kaupa fyrir tvo togara með því að veita 50% lán til byggingarinnar og efast ég um, að nokkur venjulegur togaraútgerðarmaður á Íslandi gæti í dag keypt togara með því að verða sjálfur að leggja til helminginn af kostnaðinum, þannig að það mundi ekki verða fyrir þessa upphæð hægt að fá nema eitt skip af þessu tagi. Það segir sig því sjálft, að til þess að hjálpa togaraútgerðinni þarf allt aðrar aðferðir og miklu, miklu hærri upphæðir.

Hv. þm. kann sjálfsagt söguna um sína 15 togara og hvernig það mál allt saman hefur farið í hans höndum. Hann fékk samþykkt hér lög um, að það skyldu keyptir 15 togarar, og ýmsar yfirlýsingar gaf hann í sinni stjórnartíð hér á þinginu, að það væri verið að útvega fé til þess að kaupa þessa togara. Það bara kom aldrei. (Gripið fram á: Á hverju stóð til að taka það?) Á hverju stóð? Ætli það hafi ekki staðið á því, að hv. þm. hafi ekki tekizt að útvega þetta fé? Ég held, að það þurfi þess vegna miklu stærri upphæðir og allt önnur úrræði, en hér er bent á til þess að leysa vandamál togaraútgerðarinnar.

Nei, málið er miklu einfaldara, en þessi hv. þm. og aðrir, sem um það hafa fjallað, hafa viljað vera láta. Fiskveiðasjóður hefur með sínu eigin fé möguleika til þess að geta veitt á árinu lán, sem nema 93 millj. kr. og það er miklu meira, en gert hefur verið á undanförnum árum, þar sem lánaaukningin getur á þennan hátt orðið á árinu 1959 86 millj. kr., eins og ég greindi frá í dag, í staðinn fyrir að lánaaukningin á árinu 1958 var 26 millj. og lánaaukningin á árinu 1957 var 32 millj. Það er hægt nálega að þrefalda þá lánsupphæð, sem veitt hefur verið að meðaltali á árunum 1957 og 1958, fyrir það fé, sem Fiskveiðasjóður sjálfur hefur. Það er að vísu rétt, að þetta fæst á þann hátt, að nokkur hluti af andvirði þeirra fiskibáta, sem keyptir eru erlendis frá, er fenginn að láni þar og jafnað niður á nokkur ár, svo að þetta kemur ekki til gjalda hjá sjóðnum allt í einu. En hver innleiddi þessa aðferð? Kannske hv. 2. þm. S-M. minnist þess, hver stóð fyrir því, að þessi leið var farin, og kannist eitthvað við það, að hún hefur verið farin á undanförnum árum.

Það hefur ekkert verið hugsað að gera nú, sem ekki hefur verið talið mjög vel forsvaranlegt á undanförnum árum og ég vil taka það fram, að það er alveg sérstaklega nú þessi síðustu ár hægt að fá góða afborgunarskilmála hjá skipabyggingarstöðvum erlendis, vegna þess að þær hafa haft tiltölulega lítið viðfangsefni og hafa þess vegna margar hverjar gefið greiðsluskilmála, sem eru mjög sanngjarnir, bæði hvað snertir vexti og afborgunartíma og auðvitað nýtur fiskveiðasjóður þess. En hv. þm. virðist telja einhvern reginmun á því, að skipseigandinn sjálfur taki hið erlenda lán og beri þá áhættu, sem því fylgir og svo hinu, að það verði tekið af sjóðnum erlent lán og lánað manninum. Ég vil þá spyrja þennan hv. þm.: Ætlast hann til þess, að þessi erlendu lán séu tekin af Fiskveiðasjóði áframhaldandi og lánuð skipakaupandanum í íslenzkum peningum? Ætlast hann til, að sjóðurinn taki á sig áhættuna, en kaupandinn þurfi ekki að bera hana? Þetta hefur verið praktiserað í öðrum sjóði, sem við þekkjum allir, sem er ræktunarsjóðurinn og með árangri, sem ég hélt að væri ekki til fyrirmyndar. Þetta er ekki hægt að gera án þess að láta áhættuna við lántökuna erlendis halda áfram til þess manns, sem endanlega fær lánið og ef það er gert, þá sé ég ekki mikinn mun á því, að maðurinn taki lánið sem byggingarlán hjá stöðinni, sem hann lætur byggja bátinn hjá og svo hinu að taka lánið hjá fiskveiðasjóðnum. En á tímum eins og þessum að hleypa fram hjá sér áhættunni við lántökuna, eða það er kannske réttara að orða það þannig: að taka alveg á sig áhættuna af hinni erlendu lántöku og hleypa fram hjá sér að láta hana ná til hins eiginlega lántakanda, það álít ég svo glæfralega pólitík fyrir fiskveiðasjóðinn, að það geti komið honum fullkomlega á kaldan klaka.

Ég held, að það hafi ekki verið miklu meira, sem ég þarf að svara hv. þm. Jú, það var út af lánareglum Fiskveiðasjóðs. Ég hafði haldið því fram, að fiskveiðasjóður veitti sín lán þannig, að þau væru þá fyrst veitt, þegar báturinn væri kominn heim og þá í íslenzku fé, en hann skipti sér ekki af þeim skuldbindingum, sem viðkomandi maður ætti erlendis. Svona hefur þetta verið og ég man svo langt, að á meðan ég var bankastjóri í Landsbankanum, þá áttum við út af þessu harðar hríðir við fiskveiðasjóðinn um það, að hann samþykkti að hækka sín lán, ef breyting yrði á gengi þess lánsfjár, sem bátseigandinn hefði tekið að láni hjá hinni erlendu skipasmíðastöð. Þetta fékkst aldrei, heldur varð bátseigandinn að setja sérstakar tryggingar fyrir þeirri bankaábyrgð, sem fengin var hverju sinni fyrir hinu erlenda láni og það var þetta, sem ég ætlaðist til að yrði leiðrétt í þeirri endurskoðun á reglunum, sem ég hef ákveðið að láta fara fram.

Ég skal svo láta mínu máli lokið, en ég held, að gagnrýni hv. þingmanna, bæði á hinni breyttu raforkuáætlun og eins því, að fiskveiðasjóði er ekki ætluð upphæð eða hluti af hinu væntanlega láni, sé meira gerð af vilja en mætti, því að fyrir hvoru tveggja þessu tel ég vel séð með þeim till., sem nú liggja fyrir.