28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

1. mál, fjárlög 1959

Björgvin Jónsson:

Herra forseti. Ég hef á þskj. 456 leyft mér að bera fram fjórar brtt. Vil ég nú leyfa mér í örstuttu máli að mæla fyrir þessum tillögum.

Við 13. gr. C. IX, undirlið 46, hafnarbætur á Seyðisfirði, ber ég fram þá breyt., að í stað 50 þús. kr. komi 150 þús. kr. Þessi till. er byggð á því, að nú þegar hefur verið ákveðið að bæta afgreiðsluskilyrði fyrir íslenzk síldveiðiskip á Seyðisfirði til mikilla muna. Þessi endurbót verður mjög kostnaðarsöm og alger undirstaða þess, að hún geti tekizt er, að verulegar fjárhæðir verði ætlaðar til þessara framkvæmda á fjárl.

Önnur till. mín er við 14. gr. A. X. undirlið 22, viðvíkjandi barnaskólanum á Seyðisfirði. Hef ég leyft mér að bera þar fram brtt. um, að í staðinn fyrir það, að á fjárl. eru ákveðnar 60 þús. kr. til endurbóta á barnaskólahúsinu, komi 100 þús. Talan 60 þús. mun nánast þannig til komin, að það sé sú upphæð, er ríkissjóður skuldar nú vegna þeirra framkvæmda, sem þegar er lokið við barnaskólann.

Barnaskólinn á Seyðisfirði er nú eitt elzta menningarfyrirtæki sinnar tegundar hér á landi. Nú um langt árabil hefur staðið yfir endurbygging þessa menningarfyrirtækis. Ríkisvaldið hefur til þessa sýnt þá rausn að líta með nokkurri velvild til þessara framkvæmda. Nú virðast hér á orðin þáttaskil. Vona ég, að þessi þáttaskil hafi orðið án fyrirframsamþykkis hv. Alþingis.

Ég hef einnig leyft mér að bera fram brtt. við 14. gr. A, að í stað 58.333 kr. til íþróttahúss á Seyðisfirði komi 100 þús. kr. Það leikur vart á tveim tungum, að talan 58.333 kr. í sambandi við verklega framkvæmd í dag er aðeins miðuð við það, að ríkisvaldið leggi fram það, sem það á ógreitt vegna byggingarinnar. Mín till. gengur hins vegar lítið eitt í þá átt, að ríkisvaldið sýni þann skilning að rétta þótt í litlu sé — örvandi hönd, til þess að áfram verði haldið.

Fjórða brtt. mín er í sambandi við 14. gr. X. 22, í sambandi við byggingu skólastjórabústaðar á Seyðisfirði. Ég hef lagt til, að hér verði tekinn upp nýr liður, 150 þús. kr. Á Seyðisfirði hefur til þessa enginn skólastjórabústaður verið. Skólastjóri sá, er nú starfar við barnaskólann, á íbúð sína sjálfur, en það er nú svo komið, að við flesta barnaskóla úti um landið eiga ríkið og sveitarfélögin íbúðir skólastjóra. Það liggur þess vegna ljóst fyrir, að þegar til þess kemur, að skólastjóraskipti verða, þá eiga þau byggðarlög, sem ekki hafa skólastjórabústaði, ekki kost á jafnfærum mönnum — að öðru jöfnu — ef sambærilegar stöður eru lausar við barnaskóla, þar sem skólastjórabústaðir eru þegar byggðir. Ég tel, að Seyðfirðingar eigi ekki minni kröfu á því en aðrir, að ríkisvaldið líti til þeirra svipað og til annarra í þessum efnum.

Þær till., sem ég hef hér lýst, eru allar það sanngjarnar, að ég vona, að hv. alþm. geti með ánægju samþ. þær, þótt ekki væri til annars en þess, að „lumman“, sem hæstv. forseti Sþ. sendi Seyðfirðingum í útvarpsumr. um daginn, sé svolítið sykruð.