16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

138. mál, gjaldeyrissamningur Evrópu

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Aðalefni þessa frv. er það, að ríkisstj. sé heimilað að leggja fram 1 milljón Bandaríkjadollara sem stofnframlag í Evrópusjóðinn vegna aðildar Íslands að væntanlegum Gjaldeyrissamningi Evrópu. Enn fremur fjallar það um lántökuheimild, sem samsvarar 2 milljónum dollara, og heimild til þess að semja um endurgreiðslu á skuldum Íslands í sambandi við Greiðslubandalag Evrópu.

Eins og fram kemur í grg, frv., hætti Greiðslubandalag Evrópu störfum um síðustu áramót, en í stað þess er gert ráð fyrir, að komið verði á fót annarri stofnun, sem nefnist Gjaldeyrissamningur Evrópu. Hér mun vera um að ræða þau skilyrði, sem Ísland þarf að fullnægja til þess að geta gerzt aðili að þessum nýju samtökum. En þar sem talið var eðlilegt og hagkvæmt að gerast aðili að greiðslubandalaginu á sínum tíma, þá verður einnig að líta svo á, að eðlilegt sé í framhaldi af því, að Ísland gerist aðili að hinni nýju stofnun, enda þótt þau hlunnindi, sem hún veitir, séu að vísu ekki eins mikil og greiðslubandalagið veitti á sínum tíma.

N. hefur athugað þetta frv., og voru viðstaddir nm, sammála um að leggja til, að það yrði samþ.