10.11.1958
Neðri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

40. mál, þingsköp Alþingis

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það var í tilefni af ummælum, sem hér féllu frá hv. þm. G-K. Hann minntist á það hér, að einu af stærstu utanríkismálum þjóðarinnar nú, landhelgismálinu, væri nú stjórnað af kommúnistum, eins og hann sagði og að það væru þeir, sem réðu því, hvað gert væri í því máli, eins og hann sagði, að þeir stýrðu þar förinni. Hann lýsti því enn fremur yfir, að það væri hans skoðun, að það væri til ills, að þeir skyldu hafa stýrt því máli eins og gert hefði verið.

Ég tel, að þessi ummæli séu þess eðlis, að það sé full ástæða að spyrja hér þennan hv. þm. um það, hvað það er viðvíkjandi ákvörðunum, sem teknar hafa verið varðandi landhelgismálið, sem hann telur að sé sérstaklega til ills og hann er hér að lýsa yfir andstöðu sinni við og þá líklega andstöðu síns flokks. Er hann hér að gefa yfirlýsingu um það, að hann sé andvígur því, sem hefur verið tekin ákvörðun um af hálfu ríkisstj., að lýsa yfir stækkun landhelginnar út í 12 mílur? Það er sú för, sem farin hefur verið, það er sú ákvörðun, sem tekin hefur verið. Er þessi yfirlýsing þessa hv. þm. um það, að hann og hans flokkur lýsi sig hér með andvígan þessu? Það er full ástæða til þess, að um þetta sé spurt, þegar þannig er hagað orðum eins og hér var gert.

Ég vil minna á það í þessu efni, að ríkisstj. öll tók ákvörðun sameiginlega um það, hvaða ferð hefur verið farin í þessu landhelgismáli okkar og ég hélt fyrir mitt leyti, að stjórnarandstaðan væri samþykk því að lýsa því yfir, sem lýst hefur verið yfir af hálfu Íslands í þessu málí. En það er rétt, að það komi þá alveg umbúðalaust fram, ef annað er.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að blanda mér mikið í þær umræður, sem hér hafa farið fram. Þær eru að sumu leyti um þetta mál og allt málið er þess eðlis, að það hlýtur að vera þeim til vansæmdar, sem stóðu að breytingunni á þingsköpum hér á Alþingi árið 1951. Það má öllum vera ljóst, að til þess var ætlazt eftir lögum og reglum frá Alþingi, að viðkomandi ríkisstj. hefði samráð við þá utanrmn., sem Alþingi sjálft hefur kosið til þess að fylgjast með slíkum málum. En 1951 þótti ástæða til þess undir sérstakri forustu þm. G-K. að reyna á ólýðræðislegan hátt að svipta einn þingflokkinn, sem þó var með réttum reglum kosinn í utanrmn., rétti til þess að fylgjast þar með þeim málum, sem utanrmn. átti að fylgjast með. En það er eins og stundum áður, svo kemur þetta í höfuðið á manni aftur síðar og þá kemur í ljós, að þessi regla, sem átti að verða ákveðnum aðila til ógagns, kemur svo í höfuðið á manni sjálfum aftur eftir nokkurn tíma. Ég vil taka fram, að það er mín skoðun, að hið gamla ákvæði hafi verið eðlilegt, það beri að halda sér við það, að utanrmn. öll hafi þessum störfum að gegna, það beri tvímælalaust að hafa samráð við hana alla og það sé ekkert einkamatsatriði viðkomandi ráðherra, hvort hann ber sig saman við einn eða nokkra menn úr nefndinni, heldur beri að hafa formlegt samráð við nefndina alla og allt annað sé brot á réttum leikreglum og brot á því, sem ætlazt er til í þingsköpum Alþingis.

Út frá þessu sjónarmiði erum við Alþýðubandalagsmenn því fylgjandi, að þetta óréttláta og óeðlilega ákvæði verði numið úr lögum og fært til síns fyrra upphafs og þannig hafi stjórnmálaflokkar hér á Alþingi réttan og jafnan rétt til þess að fylgjast með þeim málum, sem þar kunna að verða rædd eða afgreidd á hverju stigi málsins. En hitt var svo aðalatriði þess, að ég bað hér um orðið, að spyrja hv. þm. G-K. að því, hvað hann meinti með þeim orðum, sem hér féllu hjá honum um það, að hann teldi, að þær ákvarðanir, sem teknar hefðu verið í landhelgismálum, hefðu verið teknar til ills og hvort hans flokkur stæði þar á bak við.