11.04.1959
Neðri deild: 105. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Eins og hv. þm. Snæf. nú hefur lýst, hafði hann og einhverjir aðrir þdm. borið fram brtt. við eitt af þeim frumvörpum, sem við leggjum hér til í fjhn. að verði sameinuð í eitt frv. Var nokkuð um þetta rætt í n. Kom þar fram, að meiri hl. n. er andvígur þeirri breyt., sem felst í till. þeirra, og getur ekki fallizt á að mæla með henni.

Nú hefur hv. þm. Snæf. boðað, að þeir muni flytja till. sína við 3. umr. þessa máls. Það geta þeir að sjálfsögðu gert, en ég hefði nú talið æskilegra, að þeir flyttu sína till. sem sérstakt mál, frekar en að flytja um það brtt. við það, sem hér er á ferð.

Hér er um að ræða nær eingöngu framlengingar á ákvæðum, sem gilt hafa undanfarin ár og hafa verið afgr. ágreiningslaust frá þingi, og ekki vitað til, að það sé neinn ágreiningur um það, sem hér er á ferðinni. Ég tel óheppilegra að vera að tefja fyrir því máli með því að flytja við það till. um mál, sem vitað er að ágreiningur er um í þingi.

Ég geri ráð fyrir, að fjhn. þyrfti ekki að verja miklum tíma til að skila áliti um þeirra mál, ef þeir kæmu með það í sérstöku frv. og hefði talið það heppilegra, ef þeim er mikið áhugamál að fá úrskurð þingsins um það. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að skattanefndir geta ekki lokið störfum, fyrr en útséð er um þau mál, sem hér eru á ferð í þessu frv., sem nú er á dagskrá. Skattanefndir þurfa að fá vitneskju um það, hver niðurstaðan verður með lækkun skatts af lágtekjum, hvort það verður framlengt og eins um sjómannafrádráttinn, breyt., sem gerð verður á eða stendur til að gera á því atriði laganna. Það er þess vegna nokkurs um vert, að þetta verði afgr. sem fyrst frá þinginu, þar sem nú er orðið áliðið og skattanefndir þurfa að geta lokið sínum störfum sem fyrst. Ég tel því óheppilegt, að reynt sé að tefja fyrir málinu með því að flytja við það till. um mál, sem vitað er að ágreiningur er um í deildinni.