16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég skal mjög lítið blanda mér í það ágreiningsefni, sem hér er uppi. Þegar fjhn. þessarar deildar fjallaði um tvö eða þrjú frv. fyrir nokkru, voru allir nefndarmenn sammála um, að þau frv., sem þar var um að ræða, skyldu felld saman, eins og sést á þskj. 370, þ. e. a. s. að taka upp það atriði, sem var afleiðing af samningum við sjómenn og útvegsmenn í vetur um hækkun á frádrætti og um framlengingu lagaákvæða um lágtekjur. Um þessa till., sem hér er mest rætt um, á þskj. 372, flutta af hv. þm. Snæf. ásamt fleirum, var ekki tekin efnisleg afstaða í fjhn. Og mér sýnist á þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, að það sé mikill ágreiningur um það atriði, sem þar um ræðir, en ekki um þau atriði, sem nefndarmenn voru sammála um og kunni jafnvel að fara svo með þau, að frv., eins og það liggur nú fyrir, sé í raun og veru stefnt í hættu með því að fella þessa brtt. inn í.

Ég er á þessu stigi málsins ekki tilbúinn til þess að taka efnislega afstöðu til þessa máls. Mér finnst málið allumfangsmikið og eins og komið hefur fram, er verulegur ágreiningur um efni þess. Mér virðist þess vegna eðlilegra, að þeir fjórmenningar flyttu þetta sem sérstakt frv. og að þá væri það tekið til meðferðar á ný sem slíkt, en ég vil ekki stofna hinum málunum, sem allir eru sammála um, í hættu vegna þessarar tillögu. — Ég vildi aðeins láta þetta koma fram.