16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) sagði í ræðu sinni hér áðan, að það hefði átt að geta þess í fyrra, þegar skattalögin voru til meðferðar, ef þá var meiningin að setja ný lagaákvæði um skatta sameignarfélaga og samlaga, sem hér hafa aðallega verið gerð að umtalsefni. En það er mín skoðun, að það hafi engin breyting verið gerð þarna, þessí sameignarfélög svonefndu og samlög hafi verið skattskyld að lögum áður, eins og þau eru núna. Ég held, að það sé ekki hægt að finna í hinum eldri skattalögum neinn staf til stuðnings því, að það sé hægt að halda því fram, að þessi samtök hafi átt að vera skattfrjáls, alls ekki til — og ég hef heyrt sagt, að það hafi stundum verið lagðir skattar á félög af þessu tagi, komið fyrir, að þeir hafi verið felldir niður, vegna þess þá að önnur og æðri skattyfirvöld hafa talið, sennilega, að þar hafi ekki verið um skattskyldar eignir eða tekjur að ræða, sem lagt var á.

Það var því engin ástæða til að ræða um þetta sérstaklega í fyrra, þó að skattskylda slíkra félaga væri látin haldast, því að ég leyfi mér að halda því fram, að þau hafi ekkert skattfrelsi eða skattundanþágu haft í eldri lögum. En auðvitað var gerð breyting á skattgreiðslu þeirra á sama hátt og annarra félaga og þar ákveðið, að það skyldu öll félög greiða sömu prósentu af skattskyldum tekjum og eignum, eins og ég gat um áður og það snerti auðvitað þessi félög eins og önnur. Er þá þar með svarað um leið því, sem hv. 9. landsk. þm. var að tala um áðan, sá er síðast talaði, að það hefði aldrei komið fram í fjhn. í fyrra, að verið væri að breyta aðstöðu samlaganna. Það var ekki eðlilegt, að það kæmi fram, þau áttu að greiða skatta, eins og ég tel að þau hafi átt að greiða áður. Og vitanlega er það engin sönnun í þessu máli um breytingar, þó að nú hafi eitthvert slíkt félag verið krafið um hærri skatt en áður, því að við vitum, að skattarnir breytast eftir aðstöðu fyrirtækjanna, eftir því, hvað þau hafa miklar tekjur og miklar eignir, sem til skattlagningar kemur. Ég held því, að þarna hafi engu verið breytt að þessu leyti, hvað skattskylduna snertir, hún hafi verið til áður.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ég tel, að það sé nokkurt atriði, hvað sanngjarnt er í þessum efnum og ég vil halda því fram, að það sé engin sanngirni í því, að félög af þessu tagi njóti neinna forréttinda fram yfir önnur félög.

Hv. þm. Snæf. talar um, að það sé einkennileg lagfæring eða hitt þó heldur á skattaákvæðum eða ákvæðum laga um skattgreiðslur félaga, ef félög þurfa nú að greiða stórar fjárhæðir, sem kannske hafi ekki greitt neitt áður eða lítið. En eins og ég sagði áðan, þá fer skattupphæðin á hverjum tíma vitanlega eftir því, um hve miklar skattskyldar tekjur og eignir er að ræða. Og hv. þm. Snæf. vill enn halda því fram, að ef þeirra till. verði ekki samþ., þá búi þau félög, sem aðallega fást við útflutning á íslenzkum afurðum, við misjöfn skilyrði. En þetta er bara mesti misskilningur hjá honum. Hann þarf áreiðanlega ekkert að óttast, að þó að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eigi að borga einhvern skatt, þá fari viðskiptavinir hennar þess vegna að yfirgefa hana og leita viðskipta við Samband ísl. samvinnufélaga, af því að Samband ísl. samvinnufélaga verður að borga skatt af sínum skattskyldu tekjum og eignum, nákvæmlega jafnháa prósentu og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. En það er hann, hv. þm. Snæf., og félagar hans, sem vilja skapa hér misrétti. Þeir vilja koma inn breytingu á skattalögunum, sem hefur það í för með sér, að þessi félög búi við misjöfn skilyrði, samlögin svokölluðu geti gert sig skattfrjáls eða verði skattfrjáls, en samvinnufélögin og hlutafélögin, sem kunna að fást við slíkan rekstur, verða að borga skatta.

Og hv. þm. Snæf. segist gera sér vonir um það, að brtt. þeirra félaga verði samþykkt. Ég verð að segja það, að mér þykir ákaflega ótrúlegt, að Sjálfstfl. hér í d. styðji brtt. Ég minnist þess, að á undanförnum árum fann sá flokkur mjög að því, að þá voru nokkuð mismunandi reglur, sem giltu um skattgreiðslur til ríkisins fyrir samvinnufélög og hlutafélög. Þeir átöldu það og töldu, að allir ættu að borga skatt eftir sömu reglum til ríkisins. Nú var með breytingunum á skattalögunum í fyrra ákveðið, að bæði hlutafélög og samvinnufélög skyldu borga jafnháa prósentu af skattskyldum tekjum til ríkisins og einnig sömu prósentu af skattskyldri eign, — og þetta er það, sem mér hefur skilizt að Sjálfstfl. vildi. Þess vegna trúi ég því ákaflega illa, að hann fari nú að samþykkja tillögu, sem mælir svo fyrir, að viss tegund félaga, sem þó byggist ekki á neinum lagagrundvelli, engin landslög gilda fyrir, skuli vera skattlaus, en hlutafélög og samvinnufélög borga skatt eftir sem áður.

Það má vitanlega nefna líka dæmi um það, hvernig þetta kæmi einkennilega út, ef till. þeirra félaganna yrði samþykkt. Ég skal nefna t. d. eitt af þessum stóru samlögum, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Ég held, að það sé rétt hjá mér, að það séu margir þátttakendur í þeim félagsskap, þ. á m. mörg hlutafélög og eitthvað líka sennilega af svokölluðum samlögum útvegsmanna í vissum verstöðvum eða jafnvel kaupfélög líka. (Gripið fram í.) Já, þau heita kaupfélög á lagamáli. Nú skulum við hugsa okkur, að þeirra till. yrði samþykkt. Samkvæmt henni yrði eignum og tekjum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna skipt niður á þátttakendurna ár hvert og síðan mættu samlögin — samlög útvegsmanna víðs vegar um landið, sem eru þátttakendur í sölumiðstöðinni — skipta því, sem kæmi í þeirra hlut frá henni, niður á sína félagsmenn. (Gripið fram í.) Já, rétt, en aftur hlutafélög eða menn, sem hefðu sinn rekstur í hlutafélagsformi í sömu verstöð og fengju líka einhvern hluta af tekjum og eignum frá sölumiðstöðinni, mættu ekki skipta því niður á sína félagsmenn.

Hv. 5. þm. Reykv. nefndi stóreignaskattinn. Það er rétt, til þess að geta lagt skatt á ríka menn þurfti að draga saman þeirra eignir, og það var gert 1950 með því að skipta eignum félaga niður á þessa einstaklinga og það var gert nú í fyrra einnig. Þetta er hægt að gera í einstökum tilfellum, eins og hér hefur verið gert með margra ára millibili. En ef ætti að framkvæma þetta við hina árlegu skattlagningu ár hvert, þá er það ekki hægt, því að þetta er það mikið verk, þetta er það erfitt í framkvæmd. Það er ekki hægt að gera þetta.

En af þessu dæmi, sem ég nefndi um félög í einni verstöð, annað í hlutafélagsformi, hitt svokallað samlag, þá yrði þarna ákaflega misjafnlega að þeim búið. Annar félagsskapurinn mætti skipta öllu niður á sína eigendur, en hinn ekki. Þetta sýnir, út í hvað þetta leiðir. Ég vil einnig vekja athygli á því, að hér hefur aðallega af þeim, sem mæla með þessari tillögu, verið rætt um þessi samlög, eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og önnur slík, en þeir hafa forðazt alveg að minnast á það, sem ég nefndi hér í minni fyrri ræðu, að samkv. þeirra till. gætu félög, hvaða verkefni sem þau tækju sér fyrir hendur, ef þau bara nefndu sig sameignarfélög eða samlög, tekið upp þennan hátt að skipta tekjum sínum og eignum árlega niður á eigendurna og væri þetta þægilegt fyrir ýmis félög, sem reka þannig starfsemi, að hún er gróðavænleg, og hafa töluverðar skattskyldar tekjur og eignir þess vegna mörg árin. Það mundi leiða til þess, ef þessi tillaga þeirra yrði samþykkt og þá sé ég ekki, hvað þýðir úr því að vera að hafa í gildi lög um tekjuskatt á t. d. hlutafélög eða samvinnufélög, því þau gætu — a. m. k. hlutafélögin auðveldlega og hin sennilega líka — tekið upp þennan háttinn að breyta nafni sínu og fara að skipta tekjunum niður, ef ekki þyrfti annað, en bara nefna félagsskapinn sameignarfélag eða samlag til þess að njóta þeirra fríðinda.

Ég held, að það sé nú ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að segja um þetta, en ítreka það, sem ég nefndi áður, að ég tel, að það mundi leiða til ranglætis í þessum efnum, ef till. þeirra fjórmenninganna verður samþykkt.