16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég held, að hv. þm. V-Húnv. hafi ekki almennilega gert sér grein fyrir, hvað deilt er um hér. Eins og ég tók fram í fyrstu ræðu minni, er ekkert annað, sem við fjórmenningarnir förum fram á, en það, að hraðfrystihús, hvar á landinu sem þau eru, starfi undir sömu skilyrðum hvað snertir skattalöggjöfina.

Samvinnufélögin hafa verið knúin inn á þá braut á undanförnum árum að kaupa sjávarafurðir fyrir fast verð, í stað þess að í samþykktum samvinnufélaganna er gert ráð fyrir, að allar ísl. afurðir, sem kaupfélögin taka til sölu, séu greiddar með áætlunarverði og endanlegt verð ekki ákveðið, fyrr en lokið er við sölu afurðanna. Frá þessari grundvallarreglu hafa samvinnufélögin horfið og hafa greitt það verð, sem Landssamband ísl. útvegsmanna og hraðfrystihúsin eða sölumiðstöð þeirra og S. Í. S. hafa komið sér saman um við hver áramót. Kaupfélögin úti um byggðir landsins hafa orðið að fylgja þessum samningum við landssambandið og hafa gert það eins og aðrir, sem hafa tekið að sér þessa þjónustu.

En það, sem ég sérstaklega vil benda á og ég tel ekki rétt hjá hv. þm. V-Húnv., er það, að hann vill telja, að ef þessi brtt. okkar fjórmenninganna yrði samþykkt, þá kæmu þau hraðfrystihús, sem eru meðlimir innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, til að búa við betri kjör, en þau frystihús, sem eru í viðskiptum við Samband ísl. samvinnufélaga. Þetta er algerlega rangt. Okkur fjórmenningunum hefur aldrei dottið í hug að fara lengra, en heimta samræmi á milli þessara tveggja sölusamtaka. Og ég vil benda máli mínu til stuðnings á það, sem ég gat um áðan, að í skattalöggjöfinni segir — með leyfi hæstv. forseta:

„Kaupfélög, pöntunarfélög og önnur samvinnufélög mega draga frá tekjum sínum það, sem þau greiða félagsmönnum í árslok eða færa þeim til séreignar í stofnsjóði í hlutfalli við vörukaup þeirra á árinu og enn fremur vexti af stofnsjóði og telst það ekki til skattskyldra tekna hjá félaginu.“ Og enn segir: „Á sama hátt mega slík félög, sem aðeins vinna úr eða selja afurðir félagsmanna, draga frá það, sem þau þannig úthluta félagsmönnum sínum í hlutfalli við framlög þeirra í afurðum. Upphæðir þær, sem þannig er úthlutað, teljast fram til skatts sem tekjur hinna einstöku félagsmanna.“

Það er ekkert annað, sem við flm. þessarar till. erum að fara fram á, en að slík sölusamlög fái að búa við sömu skilyrði hvað skattana snertir og hliðstæð samvinnufélög hafa búið við skv. lögum samvinnufélaganna frá 1921 og staðfest aftur 1937, þar sem þessi starfsemi sölusamlaganna er í raun og veru byggð upp með sama hætti og samvinnufélögin. Ég vil bara leiðrétta þetta, að hér gætir nokkurs misskilnings hjá hv. þm. V-Húnv., því að það er síður en svo, að við fjórmenningarnir óskum eftir annarri eða betri skipan á þessi mál, en samvinnufélögin búa nú við. En við teljum, að það starf, sem þessi samtök hafa með höndum, sé jafnhollt og jafnnauðsynlegt fyrir þjóðarheildina og starf Sambands ísl. samvinnufélaga, sem ég einnig virði. Ég tel mjög eðlilegt, að hið háa Alþingi sé á einu máli um, að þessi samtök eigi að búa við sömu starfsskilyrði.