16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er mikill misskilningur, sem fram kom hjá hv. þm. V-Húnv. hér áðan, að í fyrra hafi verið sett skattalöggjöf um það, að samvinnufélögin og annar félagsskapur í landinu, hlutafélög, skyldu greiða sams konar skatta. Hann vitnar til þess, að þessi félög eigi að greiða — mismunandi félög — jafnháa prósentu af skattskyldum tekjum, eins og hann sagði. En á sama tíma veit hann, að þá var búið að búa um og var búið um í þessari löggjöf í fyrra þannig, að samvinnufélögin höfðu auðvitað allt aðra aðstöðu með þeim ákvæðum, sem þá voru lögfest, til þess að setja í sína sjóði fé, án þess að skattskylt yrði og á þann hátt, að reglurnar um það, hvað skyldu teljast skattskyldar tekjur, voru auðvitað gagnólíkar hjá hinum mismunandi félagsformum í landinu. Um þetta var rætt mjög mikið í fyrra og auðvitað var öllum ljóst, að það var mikil, svo að ég ekki segi hræsni, þá a. m. k. mikil óheilindi, þegar þingmenn Framsfl. og málgögn þeirra létu í það skína, að þeir væru að beita sér fyrir því, að jafnrétti væri tekið upp í skattalöggjöf landsins á milli hinna mismunandi félagsforma með breytingum á skattalöggjöfinni í fyrra, enda hefur verið hent gaman að þessu, eins og kunnugt er og var eitt af gamanmálum 1. apríl í blöðunum hér seinast, þegar sú frétt sást í einu blaðinu, að nú hefðu framsóknarmenn beitt sér fyrir því, að raunverulega skyldi tekið upp jafnrétti í skattamálum milli samvinnufélaga og annars félagsskapar í landinu. Allur almenningur áttaði sig á, að þessi frétt hlaut að vera eitthvað viðtengd 1. apríl, þó að sumar 1. apríl-fréttirnar færu fram hjá mönnum.

En það er eitt atriði, sem mig greinir á um við hv. þm. Snæf. í þessu máli og það er það, að hann taldi í síðustu ræðu, að hv. þm. V-Húnv. misskildi það, sem væri verið að deila um í þessu máli. Ég er allt annarrar skoðunar. Ég held, að hv. þm. V-Húnv. misskilji ekki neitt í þessu máli. En ég hef hann svolítið grunaðan um græsku, að bæði skilji hann nú það, sem um er deilt og hafi skilið í fyrra betur, en ég og því miður meðnm. minn í fjhn., hvað átti að felast í lóðinni löggjöf ríkisstj. og að því leyti tekið að sér hálfgert „smúlara“-hlutverk hér í löggjafarsamkomunni að smygla inn í löggjöfina ákvæði, sem ekki þótti ástæða til að gera þingmönnum grein fyrir, ekki í fjhn., ekki í þingsölunum, en hins vegar síðar hefur verið notað af skattyfirvöldum sem ástæða til að taka upp nýja skattlagningu á tiltekin félagsform í landinu, samlögin, sem hér hefur verið um rætt. Ég segi: ég hef hann grunaðan um græsku.

En þó er sannleikurinn sá, að hann hefur líka sér til afsökunar nokkuð í þessu máli, og það er þegar hann heldur því fram í ræðu sinni síðustu að, að hans dómi hafi engin breyting verið gerð á löggjöfinni í fyrra, það hafi ekki verið tekin upp nein ný ákvæði um skattskyldu umfram það, sem áður var. Ef þetta er rétt hjá honum, þá fellur þessi grunur minn af honum, sem ég sagði áðan. En þá liggur einnig fyrir kannske það, sem veigamest er í málinu og það, sem eftir stendur, að þrír meðlimir fjhn., sem fjölluðu um þetta mál í fyrra, hafa þá lýst þeirri skoðun sinni hér, að með breytingunum á skattalöggjöfinni í fyrra hafi engin ný ákvæði verið lögfest um skattskyldu þeirra félagsforma, sem hér er deilt um. En skattyfirvöld, skattanefnd eða skattstjóri hér hefur einmitt lagt á samtök þau, sem hér hefur sérstaklega verið rætt um, tekju- og eignarskatt með vísun til þessarar löggjafar, þessarar sérstöku löggjafar og ég hef séð úrskurði skattyfirvalda hér einmitt um hið umdeilda atriði, þar sem vísað er til þess, að skattálagning nú, sem aldrei hefði átt sér stað áður, sé gerð vegna þeirrar breytingar, sem átt hafi sér stað á skattalöggjöfinni. Þetta er auðvitað það veigamesta, sem hér hefur fram komið, því að nú hefur að vísu yfirskattanefnd hrundið úrskurði skattanefndar hér. Ríkisskattanefnd á e. t. v. eftir að fjalla um málið og þá er það auðvitað mikill stuðningur til glöggvunar í málinu fyrir hv. ríkisskattanefnd, að hér hafa fram komið í þingsölunum mjög afdráttarlausar yfirlýsingar og einmitt frá fjhn.-mönnum og hv. formanni fjhn., að það fái ekki staðizt að vitna til lagabreyt. í fyrra um það, að þar hafi verið tekin upp ný ákvæði um skattskyldu. Þetta getur auðvitað haft úrslitaþýðingu í þessu máli. Ef svo færi, sem ég tel ólíklegt, að þessi tillaga yrði ekki samþykkt, þá hefur a. m. k. þessi málflutningur hér alveg skorið úr um það varðandi sölusamlögin, að það er ekki hægt að byggja, eins og gert hefur verið, ákvörðun um nýja skattlagningu á þeirra herðar, sem áður hafa verið skattfrjálsir og ekki verið lagðir á neinir skattar, á breytingu skattalöggjafarinnar frá því í fyrra, því að eins og hv. form. fjhn. sagði áðan, í henni var engin breyt. gerð um skattskyldu þessara félaga og það er skoðun okkar annarra þm., sem hér höfum látið til okkar heyra beinlínis um þetta atriði.

Þetta tel ég mjög veigamikið, en skal svo ekki að öðru leyti eyða tímanum með því að tala um það, hvað sanngjarnt eða ekki sanngjarnt sé í skattalöggjöfinni almennt og í heild.