09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að mér þykir það nokkuð hart að gengið, ef það á að ganga til atkvæða um þetta mál nú, þegar — eins og hann sagði — er vitað, að hér hefur gengið allskæð inflúenza, sem hefur m. a. orsakað það, að hæstv. ráðh. hefur tvisvar sinnum lagzt í þessari veiki. Og mér er kunnugt um það sem flytjandi hér einu sinni frá honum óskir um, að þetta mál yrði tekið út af dagskrá, að hann hefur verið að láta gera athuganir á því, hvernig framkvæma ætti t. d. þær brtt., sem við málið liggja, ef þær yrðu samþykktar á lögunum. Ég álít, að það sé ákaflega mikilsvert fyrir d. að vita, hverjar niðurstöður verða af þessari hans athugun og það ríði ekki svo á um afgreiðslu málsins, að það geti ekki beðið t. d. til mánudags, eins og forseti lofaði, að málið yrði þá tekið fyrir á ný. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að jafnvel þó að umr. verði lokið nú, þá verði atkvgr. um málið frestað, þannig að manni gefist kostur á að vita um þá athugun, sem ég veit að hæstv. ráðh. hefur verið að gera á málinu, m. a. með hliðsjón af þeim brtt., sem fyrir liggja. — Ég ítreka þessi tilmæli mín til forseta og d. um það, að atkvgr. verði ekki lokið um málið nú, því að ég veit, að flm. þeirra brtt., sem hér eiga hlut að máli, hlýtur að vera mikið í mun að fá allar upplýsingar um, hvernig framkvæma ætti þá hluti, sem þeir leggja þar til. Ég mælist þess vegna eindregið til þess án þess að ræða málið efnislega, enda verði atkvgr. um málið frestað a. m. k. til mánudags.