11.05.1959
Efri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundason):

Herra forseti. Frv. þetta er upphaflega fram borið af ríkisstj. til að fullnægja ákvæðum í samningum, sem hún gerði á sinum tíma við útvegsmenn og sjómenn. Óhjákvæmilegt er því, að málið hljóti afgreiðslu nú á þessu þingi, þar eð ekki má til þess koma undir neinum kringumstæðum, að ekki verði við samninga þessa staðið, enda hefur ríkisstj. hugsað sér að sjá um, að ekki verði vanefndir á þessu loforði hennar við sjávarútveginn.

Við meðferð málsins í Nd. hefur hins vegar verið samþykkt breyting á frv., að því er varðar sameignarfélög og samlög og skattgreiðslur þeirra til ríkissjóðs. Þetta mál kemur frv. því, sem hér liggur fyrir, í rauninni ekki við og hefði þess vegna verið eðlilegra, að það hefði verið afgreitt sem sjálfstætt mál, en ekki farið að blanda því inn í þá hluti, sem var verið að reyna að leysa í sambandi við frv. upphaflega. Ég skal ekki fara efnislega út í þessa breytingu, sem samþykkt var í hv. Nd., en ég vil aðeins geta þess að, að því er ég bezt veit, þá hefur verið kveðinn upp úrskurður í yfirskattanefnd Reykjavíkur um skattskyldu sameignarfélaga og samlaga. Sá úrskurður gengur mjög í sömu átt og ákveðið er í 1. gr. frv. Það má því segja, að þó að hér sé að vísu aðeins um yfirskattanefndarúrskurð að ræða, en ekki ríkisskattanefndarúrskurð, þá skipti það ekki öllu máli, hvort 1. gr. verður látin vera áfram í frv. óbreytt eða ekki.

Hins vegar hefur komið hér fram í þessari hv. deild brtt. við 3. gr. frv. Gengur sú brtt. út á það, að atvinnutekjur þær, er skattþegn hefur aflað sér með eftir-, nætur- og helgidagavinnu við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar og ekki eru orlofsskyldar, skuli undanþegnar skattgjaldi. Er lögð sú skylda á herðar atvinnurekendum í brtt., að þeir skuli láta skattyfirvöldunum í té vinnuskýrslur, er sýni glögglega, hver hluti af greiðslum til starfsmanna þeirra falli undir þetta ákvæði. Enn fremur er lagt fyrir launþega að gera grein fyrir því á skattframtali sínu, hver hluti tekna þeirra eigi að falla undir þetta ákvæði.

Það hefur ekki komið neitt fram um það og liggur ekki fyrir á því nein örugg athugun, hversu mikið teknatjón það mundi vera fyrir ríkissjóð, ef þessi brtt. yrði samþykkt, enda geri ég ráð fyrir, að mjög sé erfitt að áætla það, svo að með nokkurri vissu geti talizt. En að sjálfsögðu hefði verið nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, áður en till. er afgreidd, eftir því sem frekast eru tök á, um hvað stórar fjárhæðir er hér að ræða fyrir ríkissjóð og gera þá jafnframt tillögur um það og ráðstafanir til þess, með hverjum hætti slíku skuli mæta. Frá þessu hefur ekki verið gengið og þetta hefur ekki verið athugað sem skyldi, áður en till. var fram borin og getur hún að því leyti talizt lítt athuguð og að ýmsu leyti óheppileg. Þá er það mjög ógreinilegt í tillgr. sjálfri, hvaða störf hér skuli undir falla og hver ekki. Á ég t. d. von á því, að þetta kunni að valda nokkrum erfiðleikum, m. a. í sambandi við landbúnaðinn, sem mér virðist, eins og greinin er orðuð, að einnig ætti að koma til athugunar í sambandi við frv. Finnst mér allt benda til þess, að þetta mál hefði þurft miklu betri og meiri athugun, en á því hefur orðið, áður en það er afgreitt hér á hv. Alþingi. Mér kemur ekki til hugar að andmæla því, að hér sé réttlætis- og nauðsynjamál á ferðinni. En hvað um það, það er með þetta mál eins og önnur, það þarf athugunar við, áður en það er afgreitt, til þess að ganga úr skugga um, að það valdi ekki ófyrirsjáanlegum og óviðráðanlegum erfiðleikum í sambandi við framkvæmdina.

En það er annað atriði, sem ég vildi alveg sérstaklega benda á í sambandi við þessa brtt. Það er gert ráð fyrir því í henni, að atvinnurekendur eigi að láta skattyfirvöldum í té vinnuskýrslur, er sýni glögglega, hvaða vinnulaun eiga að falla undir þessa brtt., og framteljendum er einnig gert að skyldu að láta þess getið á framtali sínu, hvað af þeirra tekjum eigi að þeirra dómi að falla hér undir. Nú er það svo, að fyrir mörgum mánuðum er lokið við að skila framtölum og atvinnurekendur hafa skilað sínum vinnuskýrslum til skattyfirvalda. Að sjálfsögðu kemur ekkert fram á þeim framtölum, sem þegar er búið að ganga frá og skila, hvað af launum manna falli hér undir og hvað ekki. Það kemur ekki heldur fram á skýrslum atvinnurekenda, hvaða laun falli undir þessa grein. Í frv. sjálfu er því hins vegar slegið föstu, að þær breytingar, sem það gerir á skattalöggjöfinni, skuli koma til framkvæmda við skattálagningu á þessu ári. Ákvæðið í brtt., sem hér er á ferðinni, mundi eiga að falla undir þetta ákvæði í 5. gr. frv. sjálfs og því óhjákvæmilega setja skattyfirvöldin í óviðráðanlegan vanda. Þau vantar allar þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til þess að taka þetta ákvæði til greina og ef ákvæðið ætti að koma til framkvæmda nú í sumar, þá yrði að fara að leita eftir þessum upplýsingum og bíða með skattaálagningu, þangað til þær væru til. Slíkt mundi taka langan tíma og mikla vinnu, svo mikla vinnu og tíma, að það mundi tefja skattálagningu fram eftir öllu ári og gera hana að mjög verulegu leyti óframkvæmanlega. Mér skilst, að það sé með öllu óhjákvæmilegt, hvað sem um þessa till. annars kann að verða, að hér sé gerð sú breyting á, að hún skuli undir engum kringumstæðum koma til framkvæmda fyr,r en á næsta ári. Þetta skilst mér að sé með öllu óhjákvæmilegt, ef á að vera hægt að koma fram skattaálagningu, svo að nokkurt lag sé á og á nokkurn veginn eðlilegum tíma. En fyrst það er bersýnilega óhjákvæmilegt að fresta sjálfri framkvæmd till. fram á næsta ár, þá fyndist mér jafnframt eðlilegt, að því yrði frestað til haustþingsins að afgreiða till. og tíminn í sumar og fram á haustþingið notaður til þess að athuga hana betur og undirbúa hana þannig, að ekki væri stofnað til þeirrar hættu, að í framkvæmdinni kynni hún að reynast lítt viðráðanleg og þannig ekki koma að því gagni, sem til er ætlazt af þeim, sem á annað borð vilja fá þetta mál fram. Ég vil beina því til flm. till., hvort þeir vilji ekki taka þetta til athugunar. Jafnframt vil ég óska eftir því, ef till.-menn sjá sér ekki færa að gera þetta, hvort sú n., sem um málið hefur fjallað hér í þessari hv. d., vildi ekki athuga um að taka upp í till. ákvæði um, að hún skuli ekki koma til framkvæmda á þessu ári.