11.05.1959
Efri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef nú hlustað á ræðu hæstv. ráðh. og tilmæli hans til hv. fjhn., en tel mig ekki þess umkominn að láta í ljós skoðun fyrir hönd nefndarinnar, aðra en þá, að ég get látið mína eigin skoðun í ljós, að ég vildi sem einstakur meðlimur n. gjarnan taka til athugunar þær ábendingar, sem hæstv. ráðh. fram flutti. En þegar þessi till., sem hann gerði sérstaklega að umræðuefni, var hér flutt fram í fyrstu, þá verð ég að játa það, að hún vakti samúð mína eins og margra annarra og við töldum, að kjarni hennar væri réttlætismál. Hins vegar er það vel athugandi, sem hæstv. ráðh, beindi til fjhn, d. og vildi ég leggja mitt lið til þess. Án þess að ég geti talað fyrir n. hönd, þá vildi ég gjarnan leggja mitt lið til þess, að tilmæli hæstv. ráðh. yrðu tekin til greina, því að það hefur sjálfsagt fyrir engum vakað að tefja fyrir framgangi þessa máls með þessari brtt.

En það var annað atriði, sem er 1. gr. í frv., sem eins og kunnugt er liggur hér fyrir og hv.þm. S-Þ. (KK) hefur flutt brtt. við. Ég vildi aðeins minnast á þá grein. Hæstv. ráðh. gerði það að vísu nokkuð, en fór að mínum dómi ekki langt út í þær sakir.

Þessi breyting, er varðar samlögin og aðstöðu þeirra við skattálagningu, var sett inn í frv. í hv. Nd. með miklum meiri hluta atkv. eftir ýtarlegar umr. um þetta mál. Þegar hingað kom í þessa hv. d. og í meðferð fjhn., kom skattstjórinn á fund n., eins og hv. þm. S-Þ. lýsti. En það er fleira, sem hefur skeð við umr. um málið hérna í d. Það eru fullyrðingar hv. 1. þm. N-M. á einum fundi hér um daginn um það, að þótt samlögin kvörtuðu yfir tvískattlagningu og vildu gjarnan, að ákvæði það, sem er í 1. gr., héldist óbreytt, þá taldi hann það óþarfa, vegna þess að það hefði alltaf verið fellt niður af ríkisskattanefnd, þegar kært hefði verið og málið til þeirra rekið. Þetta er því miður ekki nema að nokkru leyti satt. Það er satt að nokkru leyti að því er snertir tvö ár, 1954 og 1955, þá mun ríkisskattanefnd hafa fellt niður eftir kæru skattálagningu, bæði útsvar og skatt, sem það samlag, sem ég starfa við, hafði orðið fyrir. En nú síðustu árin hefur þetta ekki verið gert. T. d. 1956 og 1957 rétti ríkisskattanefnd á engan hátt hlut þessara samlaga. Fyrir 1958 er það óúrskurðað og það hefur verið nokkur vafi á því, hvort úrskurður yfirskattanefndar yrði tekinn til greina af ríkisvaldinu, ef honum yrði áfrýjað. En ég heyrði það á ræðu hæstv. ráðh., að honum mundi ekki verða áfrýjað. Svipað kom fram um daginn í ræðu hv. þm. S-Þ., sem flutti hér fram ýmsar upplýsingar, sem hann bar skattstjórann fyrir og ég var áheyrandi að. En ég verð að segja það, að ég var ekki fyllilega sammála hv. þm. að því er vitnisburð skattstjórans snertir, því að mér fannst hann gefa heldur litlar skýringar á þessum málum yfirleitt, með því líka að hann hefur ekki síðasta úrskurðarvald í þessari skattálagningu, eins og vitað er. Ég hefði haldið, að þessi hv. d. gæti og gerði bezt í því að lofa greininni, eins og hún er núna í frv., eins og hv. Nd. skildi við frv., að vera óhreyfðri, en hv. þm. S-Þ, hefur lagt til, að hún verði felld niður. Ég tel, að þeir, sem vilja framgang málsins og vilja ekki tefja fyrir því að óþörfu, eigi ekki að fallast á samþykkt brtt. hv. þm. um að fella 1. gr. niður, það muni á engan hátt greiða fyrir framgangi málsins, þegar það fer til Nd. Og það hefur ekki í sér það réttlæti í garð hinna tvísköttuðu samlaga, sem hafa útflutningsverzlun með höndum, sem hv. þm. vildi, að því er virtist, í raun og veru efla, því að hann rífur niður, en byggir ekki upp með sinni brtt., því miður.

Ég skal ekki hafa hér um fleiri orð. En ég vona, að hv. d. geti fallizt á hvað 1. gr. snertir, að frv. verði í því formi, sem það kom frá hv. Nd., því að þar hafði einmitt þessi orðun á 1. gr. yfirgnæfandi fylgi eftir mjög miklar rökræður um málið frá ýmsum hliðum. Og það var, eins og vitað er, flokksbróðir hv. þm. S-Þ., sem barðist mest fyrir því, að þessi gr. væri ekki samþykkt, eins og hún er orðuð núna í frv. og ég tel líklegt, að þau bönd hafi einhver áhrif haft á það, að hv. þm. kemur nú með brtt. um að fella gr. niður.

Að sjálfsögðu tel ég víst, að allir hv. dm. vilji styðja hæstv. ráðh. í því að koma frv. í gegnum þingið, þannig að staðið verði við þá samninga, sem gerðir hafa verið við sjómennina og ég heyrði að hæstv. ráðh. hafði mikinn áhuga á að gert yrði.