16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

145. mál, byggingarsjóður Listasafns Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hinn 5. apríl s. l. afhenti Jóhannes Sveinsson Kjarval listmálari mér svo hljóðandi bréf:

„5. apríl 1959.

Listasafn Íslenzka ríkisins.

Þeir peningar eða fjárupphæð, sem íslenzka ríkið hefur ánafnað í Kjarvalshús; finnst mér æskilegast að gangi sem stofnfé í byggingarsjóð málverkalistasafns íslenzka ríkisins.

Virðing og umhyggja,

Jóhannes Sv. Kjarval.

Til menntamálaráðherra.“

Með frv. þessu er lagt til, að orðið verði við þeirri ósk Jóhannesar Kjarvals, að fé það, sem ætlað hefur verið til byggingar Kjarvalshúss og nemur nú samtals 1.1 millj, kr., renni sem stofnfé í byggingarsjóð Listasafns Íslands.

Í 1. gr. frv. er svo kveðið á, að stofna skuli byggingarsjóðinn og stofnfé hans sé það fé, sem Alþ. hafi lagt fram til að byggja vinnusal og íbúð fyrir Jóhannes Sveinsson Kjarval listmálara, en í 2. gr. er ákveðið, að þangað til bygging húss fyrir Listasafn Íslands hefjist, skuli sjóðurinn varðveittur og ávaxtaður í Landsbanka Íslands.

Tildrög þessa máls eru þau, að samkv. alþingissamþykkt hefur Jóhannesi Kjarval verið boðið, að byggður yrði vinnusalur og íbúð fyrir hann. Hann hefur nú eftir gaumgæfilega athugun málsins skýrt frá því, að hann æski þess ekki, að slíkt Kjarvalshús verði reist, heldur sé fé það, sem til þess hefur verið ætlað, notað eins og segir í bréfi hans og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Upphaf byggingarmáls Kjarvalshússins er orðið um 15 ára gamalt. Á Alþ. 1944 báru þeir Jónas Jónsson, Bjarni Benediktsson, Kristinn E. Andrésson og Haraldur Guðmundsson fram í sameinuðu Alþ. till. til þál. um listasafn o. fl., og hljóðar hún þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Sameinað Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að verja allt að 300 þús. kr. af tekjuafgangi ársins 1944 til að reisa í Reykjavík sýningarsal og íbúð. Skal ríkisstjórnin á 60 ára afmæli Jóhannesar Kjarvals næsta haust bjóða honum að búa og starfa í þessu húsi og gera jafnframt ráðstafanir til þess, að þar verði komið upp til varðveizlu og sýnis sem fullkomnustu safni af málverkum eftir þennan listamann.“

Greinargerð till. hljóðaði svo:

„Einn hinn stórbrotnasti íslenzkra listamanna, Jóhannes Kjarval, á sextugsafmæli á næsta hausti. Þjóðin á honum mikla þakkarskuld að gjalda fyrir starf hans í þágu íslenzkrar listmenningar og þykir ekki mega dragast lengur, en orðið er, að gefa honum kost á betri starfsskilyrðum, en hann hefur notið hingað til.“

Tillaga þessi var samþ. 2. marz 1945, eftir að fjvn. hafði um hana fjallað og gert á henni þá breyt., að í stað þess að fela ríkisstj. að verja allt að 300 þús. kr. í þessu skyni skyldi ríkisstj. heimilað að verja fé í þessu skyni.

Samkv. þál. skipaði þáverandi menntmrh., Brynjólfur Bjarnason, 27. marz 1945 3 manna nefnd til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Áttu sæti í nefndinni Sigurður Guðmundsson húsameistari, formaður, Kristján Jónsson kaupmaður og Valgeir Björnsson hafnarstjóri. Þáverandi fjmrh., Pétur Magnússon, fól húsameistara ríkisins, Guðjóni Samúelssyni, framkvæmd byggingarmálsins og sagði þá n. sú, er menntmrh. hafði skipað, af sér störfum.

Húsameistari ríkisins gerði lauslega uppdrætti að Kjarvalshúsi og þær 300 þús. kr., sem þál. gerði ráð fyrir að varið yrði til byggingar þess, voru lagðar til hliðar og eru geymdar í ríkissjóði síðan. Af byggingarframkvæmdum varð hins vegar ekki.

Í maí og júní 1957 átti ég nokkrum sinnum tal við Jóhannes Kjarval um byggingarmálið. Eftir þær viðræður og í samráði við listamanninn tók fyrrv. ríkisstj. málið til athugunar og taldi, að framkvæma bæri þál. frá 2. marz 1945, að því leyti sem unnt væri, þ. e. að reisa bæri hús, sem Jóhannesi Kjarval yrði boðið að búa og starfa í og gera jafnframt ráðstafanir til þess, að þar yrði komið upp til varðveizlu og sýnis safni af verkum eftir hann. Var ákveðið, að menntmrn. skyldi hafa framkvæmd málsins með höndum. Menntamálaráð Íslands ræddi mál þetta og á fundi sínum 6. nóv. 1957. Var þar einróma samþ. að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að efnt verði gagnvart Jóhannesi gamalt fyrirheit um vinnustofu og bústað og tilkynnti menntamálaráð þetta bæði menntmrn. og fjmrn. í bréfi, dags. 13: nóv. 1957.

Hinn 16. des. 1957 ritaði menntmrn. fjvn. Alþ. og fór fram á, að tekin yrði í fjárlög 1958 heimild til að verja úr ríkissjóði fé til viðbótar þeim 300 þús. kr., er um getur í fyrrnefndri þál., til þess að reisa Kjarvalshús.

Niðurstaðan varð sú, að teknar voru 300 þús. kr. í fjárlög fyrir árið 1958 til byggingar Kjarvalshúss og í fjárlfrv. fyrir árið 1959 voru teknar 500 þús. kr. í þessu sama skyni.

Þegar fyrsta viðbótarfjárveitingin var fengin, eða 7. marz 1958, skipaði menntmrn. n. til þess að sjá um undirbúning og framkvæmd byggingar Kjarvalshússins. Í n. voru skipaðir Guðbrandur Magnússon fyrrv. forstjóri, formaður, Helgi Sæmundsson formaður menntamálaráðs Íslands, Hörður Bjarnason húsameistari ríkisins, .Sigtryggur Klemenzson ráðuneytisstjóri í fjmrn. og Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri í menntmrn. Var nefndarskipunin gerð í samráði við listamanninn.

Byggingarnefndin kannaði, hvort unnt væri að nota teikningu þá, sem gerð hafði verið af Kjarvalshúsi á sínum tíma, til þess að byggja eftir henni nú. Kom í ljós við athugun málsins, að einungis hafði verið gerð lausleg útlitsteikning, en engar teikningar lágu fyrir, sem unnt væri að byggja eftir. Var því Herði Bjarnasyni húsameistara ríkisins falið að gera nýja teikning og lauk hann því verki. Var teikningin við það miðuð, að húsið yrði reist á þeirri lóð, sem á sínum tíma hafði verið fengin undir Kjarvalshús við hliðina á Listasafni Einars Jónssonar. Var jafnframt farið fram á það við bæjaryfirvöld Reykjavíkur, að ríkissjóði yrði á ný gefinn kostur á þessari lóð og hún gerð hæf til byggingar hið allra fyrsta. Forráðamenn Reykjavíkurbæjar sýndu málinu mikla velvild og létu rýma lóð þá, sem húsinu var ætluð og gáfu kost á henni til byggingarinnar. Einnig var sótt um fjárfestingarleyfi vegna hinnar fyrirhuguðu byggingar og fékkst fyrirheit um það.

Má þannig segja, að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu, að byggingarframkvæmdir hæfust, annað en það, að listamaðurinn sjálfur samþykkti fyrir sitt leyti, að húsið yrði byggt handa sér. Eftir gaumgæfilega athugun málsins varð það hins vegar niðurstaða hans að óska ekki eftir því, að húsið yrði byggt, heldur yrði umræddu fé varið til byggingar Listasafns Íslands.

Um það þarf ekki að fjölyrða; hver þörf er á því, að sem fyrst verði hafizt handa um byggingu húss yfir Listasafn Íslands. Hin unga íslenzka málaralist er þegar orðin einn af glæsilegustu þáttunum í íslenzkri listmenningu. Íslendingar hafa þegar eignazt meistara á sviði málaralistar. Málverkasafn ríkisins á nú fagurt og merkilegt safn íslenzkra málverka, en ástæður skortir til þess, að þjóðin geti skoðað þau og notið þeirra í viðeigandi húsakynnum.

Ég er þeirrar skoðunar og hef raunar lýst henni áður, að eitt brýnasta verkefni, sem nú sé fram undan í íslenzkum menningarmálum, sé einmitt að reisa hús fyrir Listasafn ríkisins. Jóhannes Sveinsson Kjarval listmálari hefur með bréfi því, sem ég las í upphafi, í raun og veru lagt hornstein þeirrar byggingar. Hann hefur átt þess kost, að honum yrði reist hús, sem hefði getað orðið allt í senn: vinnustofa, íbúð og safn yfir verk hans. Hann hefur átt þess kost, að honum yrði afhent slíkt hús kvaðalaust með öllu, þannig að honum yrði það algerlega frjálst, hvernig hann hagnýtti sér það. Þetta boð hefur hann afþakkað, eða réttara sagt: hann hefur kosið að gefa það sem grundvöll að byggingu fyrir Listasafn ríkisins. Í þessu felst hvort tveggja í senn, látlaus óeigingirni og stórbrotin rausn, sem ásamt öllu öðru, sem þessi frábæri listamaður hefur unnið þjóð sinni, mun stuðla að því að varðveita nafn hans í hug og hjarta íslenzku þjóðarinnar.

Ef þetta frv. verður samþykkt, eins og ég tel sjálfsagt og byggingarsjóður Listasafns Íslands þar með stofnaður, ætti Alþingi árlega að efla byggingarsjóðinn með myndarlegu framlagi, auk þess sem athuga ætti aðra möguleika til þess að afla fjár í hann, svo að þess verði sem skemmst að bíða, að listasafnshúsið rísi af grunni.

List Jóhannesar Kjarvals hefði að sjálfsögðu ávallt verið til þess sjálfkjörin að skipa eitt veglegasta sæti í salarkynnum Listasafns Íslands, þegar það verður reist. Til þess verður enn ríkari ástæða, eftir að listamaðurinn hefur með bréfi sínu farið þess á leit við hið háa Alþingi, að hornsteinninn yrði lagður að byggingu listasafnsins.

Herra forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.