29.04.1959
Neðri deild: 119. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

145. mál, byggingarsjóður Listasafns Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti.

Alþ. samþ. fyrir allmörgum árum að reisa hús fyrir listamanninn Jóhannes Kjarval og hefur veitt til þess fé, sem nú nemur nokkuð á 2. millj. kr. Undirbúningur hefur farið fram að því að reisa þetta hús fyrir listamanninn. En nú hefur það gerzt, að hann hefur látið í ljós þá ósk, að húsið verði ekki reist, heldur verði fé það, sem til þess hefur verið veitt, látið renna í byggingarsjóð Listasafns ríkisins. Hér liggur fyrir þinginu sérstakt frv. um þetta listasafn og hefur fram komið og mun óumdeilt, að það sé eitt brýnasta verkefni í lista- og raunar menntamálum þjóðarinnar. Með þessari höfðinglegu gjöf má segja, að Jóhannes Kjarval hafi lagt hornsteininn að því listasafni, sem hér verður væntanlega reist, áður en mörg ár líða. Með því að samþ. þetta frv. um byggingarsjóð Listasafns ríkisins er Alþ. í raun og veru að veita viðtöku þessari einstæðu og miklu gjöf. Menntmn. mælir með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.