13.05.1959
Efri deild: 121. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

145. mál, byggingarsjóður Listasafns Íslands

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um byggingarsjóð Listasafns Íslands er stjórnarfrv. Það var flutt í hv. Nd. og fór óbreytt og ágreiningslaust gegnum þá hv. d. Frv. var fyrir stuttu vísað til menntmn. þessarar hv. d., og n. hafði fund um málið í gær og hefur gefið út nál. á þskj. 535.

Efni frv. er það, að stofna skal byggingarsjóð Listasafns Íslands. Stofnfé sjóðsins á að vera það fé, sem Alþ. hefur lagt fram til byggingar vinnusalar og íbúðar fyrir Jóhannes Kjarval listmálara.

Nú eru liðin 14 ár, síðan Alþ. samþ. fyrstu fjárveitingu í þessu skyni, samt hefur ekki verið hafizt handa um byggingu enn þá. Með samþykkt fjárlaganna hér á hæstv. Alþ. fyrir skömmu eru fjárveitingar til þessarar byggingar orðnar samtals 1 millj. og 100 þús. kr. Þessi upphæð verður stofnfé byggingarsjóðs Listasafns ríkisins samkv. þessu frv. Þann 5. apríl s. l. skrifaði Jóhannes Kjarval bréf til hæstv. menntmrh. og er það birt með grg. frv. Það er stutt og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Listasafn íslenzka ríkisins.

Þeir peningar eða fjárupphæð, sem íslenzka ríkið hefur ánafnað í Kjarvalshús, finnst mér æskilegast að gangi sem stofnfé í byggingarsjóð málverkaistasafns íslenzka ríkisins.

Virðing og umhyggja,

Jóhannes Sv. Kjarval.

Til menntamálaráðherra.“

Það er vegna þessa bréfs, sem frv. þetta er flutt. Hæstv. ríkisstj. vill verða við þessum óskum listamannsins, að með fjárveitingum til Kjarvalshúss verði stofnaður byggingarsjóður Listasafns Íslands. Það er mín skoðun, að varla sé hægt að gera minna fyrir þennan glæsilega og dáða listamann íslenzku þjóðarinnar, en samþ. þetta frv., sem er í samræmi við bréf hans.

Menntmn. leggur einróma til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Einn nm., hv. 4. landsk. þm. (FRV), gat ekki mætt á fundi n. í gær, en hefur tjáð mér, að hann sé samþykkur þessari afgreiðs)u á málinu.

Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann setji nýjan fund hér í hv. d. að lokinni þessari umr. um málið og taki málið síðan fyrir til 3. umr. í þeirri von, að afgreiðslu þess geti orðið lokið í dag.