26.01.1959
Neðri deild: 62. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Vegna þess að þetta mál var talsvert mikið rætt í sambandi við frv. um niðurfærslu kaupgjalds og verðlags, þá er minni ástæða til þess að ræða það almennt nú, en ella hefði verið. Eins og kunnugt er, urðu þær umr. nokkuð almenns efnis og var rætt æði mikið á víð og dreif um viðhorfið í efnahagsmálum og raunar nokkuð stjórnmálaviðhorfið almennt.

Ég mun þess vegna ekki efna til almennra umr. í sambandi við þetta mál, en víkja nokkuð að einstökum þáttum í þessu frv. eða í sambandi við það, sem mér sýnist nauðsynlegt að fá nokkru gleggri upplýsingar um, jafnvel áður en málið fer til hv. fjhn.

Ég vil þá fyrst leyfa mér að minna á, að eitt af því, sem talið var efnahagsmálalöggjöfinni, sem sett var s. l. vor, sérstaklega til gildis og var tvímælalaust ávinningur, var það, að hún færði aukið samræmi í efnahagsmálin og efnahagslífið. Það var minnkaður stórkostlega sá mismunur, sem gerður var á milli einstakra atvinnugreina og var orðinn ákaflega háskalegur að allra dómi. Þessi mismunur var ákaflega mikið minnkaður og samræmi yfirleitt stórkostlega aukið.

Nú sýnist mér aftur á móti sá ágalli vera á þessu frv., og vil aðeins benda á það, að nú sé ekki því sama til að dreifa, heldur sé það því miður þannig, að yfir höfuð verði þær ráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir til viðbótar, til þess að auka aftur þann mismun, sem hefur verið æði lengi á milli einstakra greina í þjóðarbúskapnum. Það er náttúrlega ekki hægt að segja, að þetta sé spor í rétta átt. Á þetta vil ég benda.

Þá vil ég þessu næst minnast á þann þátt, sem að landbúnaðinum lýtur í þessari löggjöf. Eins og menn sjálfsagt vita margir, sem kunnugir eru þessum efnum, þá hefur landbúnaðurinn búið við sömu útflutningsuppbætur, sama stuðning við sinn útflutning og bátaútvegurinn hefur fengið hann beztan, þ. e. a. s. sömu kjör og bátar á þorskveiðum eða bátaútgerð til þorskveiða.

Mér er ekki alveg ljóst, hvernig beri að skilja orðalag þessa frv. að þessu leyti, en vil mega skilja það svo, að þannig eigi þetta að vera áfram. En þetta hefur verið reiknað þannig, að það hafa verið teknar saman allar bætur, sem bátaútvegurinn á þorskveiðum hefur fengið, hvort sem það hafa verið útflutningsuppbætur, niðurgreiðsla á vátryggingariðgjöldum eða aðrir fleiri liðir slíkir og hafa þeir verið teknir saman og landbúnaðinum síðan verið ákveðin útflutningsuppbót, sem samsvarar öllum þessum hlunnindum samanlagt.

Ég vil spyrjast fyrir um það og vil, að það komi skýrt fram, hvort það sé ekki meiningin, að skilja eigi þá gr. frv., sem um þetta fjallar, á þann hátt, að þessu eigi að halda áfram. Ég er ekki að segja, að það sé hægt að skilja þetta öðruvísi, en það er breytt um orðalag á gr., og til þess að þetta sé ljóst, þá þarf náttúrlega að hnitmiða orðalagið. Ég vildi vita, hvort hæstv. ríkisstj. lítur ekki svo á, að sú regla, sem gilt hefur um þetta, eigi að halda áfram.

Þá vil ég sérstaklega benda á það, sem ég hef stundum bent á áður, að ég tel það vafasamt og hef talið, að síldveiðarnar fyrir Norður- og Austurlandi eigi að búa við allt aðrar uppbætur, en t. d. síldveiðar annars staðar við Ísland. Ég tel þetta ákaflega hæpna ráðstöfun, þó að þetta hafi verið svo um margra ára skeið. Menn hafa fært fyrir þessu þær ástæður, að það væri von meiri afla, þegar veitt væri með herpinótum og í snurpunætur, heldur en þegar eingöngu væri veitt í reknet og þess vegna ættu menn að geta sætt sig við lakari uppbætur á Norður- og Austurlandssíld, en aðra síld. Þessi rök tel ég ekki góð og gild. Þetta eru leifar frá þeim hugsunarhætti eða frá því viðhorfi, sem var til síldveiðanna við Norðurland hér áður, á meðan þar voru stórfelld uppgrip, en síðan þar fór að verða reytingsveiði árlega, eiga þessi rök alls ekki við. Ef gert er ráð fyrir álíka veiði á þessum slóðum og verið hefur nú árum saman, þá er engin frambærileg rök hægt að finna fyrir því, að þessi atvinnuvegur skuli búa við miklu lakari uppbætur, en nokkur önnur grein sjávarútvegsins. Er í þessu efni stórkostlega hallað á þá, sem stunda þessa veiði og þá, sem eiga mikið undir henni, bæði þá, sem reka báta til síldveiða og þá, sem á bátunum vinna og einnig þann mikla fjölda fólks í þeim byggðarlögum, þar sem tekið er á móti síldinni og eiga afkomu sína undir þessari atvinnugrein.

Ég hef bent á þetta áður, þegar ég hef undanfarið átt um þessi mál að fjalla í ríkisstjórnum, en það hefur aldrei fengizt, að í þessu væri haft fullt samræmi. Var þó stigið stórt skref í áttina til samræmis í þessu tilliti í efnahagsmálalöggjöfinni í fyrra. Nú átta ég mig ekki alveg á því til fulls, eins og þetta liggur fyrir í dag, hvort hér er enn efnt til meira ósamræmis að þessu leyti, en verið hefur, hvort það dregur í sundur á milli þessara síldveiða og síldveiða annars staðar við landið. Þetta tel ég að þurfi að athuga mjög gaumgæfilega í þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar.

Þá vil ég víkja hér að einu miklu nýmæli, sem hefur komið fram nú í sambandi við þetta mál, en ekki eru ákvæði um í sjálfu frv., en getið er um í grg. frv. og í þeim bréfum, sem farið hafa á milli hæstv. ríkisstj. og útgerðarsamtakanna í sambandi við samninga, sem gerðir hafa verið um rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, eins og farið er að orða það. Þetta nýmæli minntist hæstv. forsrh. líka á lauslega í sinni ræðu, en það er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „að breytist grunnkaup eða kaupgreiðsluvísitala frá þessu“ (þ. e. a. s. frá 185) „endurskoðast samkomulagið í samræmi við þær breytingar.“ Svo stendur: „Þó skal sú endurskoðun ekki hafa áhrif á þá upphæð sérstakra bóta, sem að framan getur.“ Og í öðru bréfi, sem er til annarra aðila, er á þessu mjög svipað orðalag. Þar stendur: „Breytist grunnkaup eða kaupgreiðsluvísitala frá þessu, endurskoðast samkomulagið í samræmi við þær breytingar.“ Þó er sá fyrirvari, að það hafi ekki áhrif á þessar svokölluðu sérbætur. Geri ég ráð fyrir því, þó að ég hafi það ekki hér fyrir framan mig, að sams konar ákvæði séu í bréfinu til þriðja aðilans, sem er Landssamband íslenskra útvegsmanna, en þessi bréf, sem ég var að lesa úr, eru til fiskvinnslustöðvanna.

Hér er um stórfellt nýmæli að ræða, því að áður hefur það verið þannig, að það hefur verið gert samkomulag á milli ríkisstj. með alþingisstuðningi annars vegar og svo útgerðarsamtakanna hins vegar um ákveðinn rekstrargrundvöll og hlunnindi og fiskverð í því sambandi og þetta samkomulag hefur gilt tiltekinn tíma, en ekki verið fest við vísitöluspóluna.

En hér er farið inn á þá braut að festa þetta bæði við vísitöluna og einnig, að endurskoða skuli þetta allt saman í samræmi við grunnkaupsbreytingar, sem verði. En eins og bent er á í grg. frv., þá leitar stjórnin ekki neinnar lagaheimildar í þessu sambandi. Það er ekkert á þetta minnzt í frv., heldur aðeins greint frá því í grg., að þetta samkomulag hafi verið gert.

Mér sýnist hér vera á ferðinni mikið stórmál og mikil nýjung, sem þurfi að skoða ofan í kjölinn og átta sig á því, hvernig viðhorfið er í raun og veru eftir þessar bréfgerðir hæstv. ríkisstj. og vildi ég í því sambandi reyna að fá þetta dálítið skýrara með því að bera fram spurningar um það atriði.

Þá kemur fyrst til athugunar: Hvaða gildi hefur þessi yfirlýsing eða þessi samningur? Ber að skoða þetta sem samning hæstv. ríkisstj. við útgerðarmannasamtökin? Ber að skoða þetta sem samning, sem sé orðinn skuldbindandi fyrir ríkið, þannig að ef hér verði breytingar á grunnkaupi og vísitölu, þá eigi þessi samtök orðið lagalega kröfu á ríkið fyrir hækkuðum bótum, sem því svarar? Og ef hæstv. ríkisstj. lítur þannig á þetta og þetta telst vera þannig löguð skuldbinding, hvernig er þá hægt að komast hjá því að fá úr því skorið á hæstv. Alþ., hvort það vill samþykkja þessa skuldbindingu eða ekki? Verður ekki að leita lagaheimildar fyrir þessu, ef hér er um skuldbindingu að ræða, — lagalega skuldbindingu?

En ef þannig er á þetta litið, að hér sé aðeins um að ræða viljayfirlýsingu hæstv. ríkisstj., en enga skuldbindingu, þá horfir málið náttúrlega öðruvísi við. En hvaða trygging er þá í þessu fyrir útgerðarmenn eða þau samtök, sem hér eiga hlut að máli? Ef þetta er aðeins viljayfirlýsing hæstv. ríkisstj., sem ekki hefur þingmeirihluta að baki sér til þess að festa þetta í lög, þá er þetta bara viljayfirlýsing minnihlutastjórnar, en þá þarf líka að koma fram, að það sé ekki annað. En ef hér er um að ræða raunverulega lagalega skuldbindingu fyrir ríkið, þá verður að fjalla um þetta á einhvern annan hátt, en þann að segja aðeins frá þessu og láta síðan lönd og leið í sambandi við þá löggjöf, sem verið er að setja um þessi efni.

Í þessu sambandi kemur einnig upp spurningin um það, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar, hvort sem hér er um skuldbindingu lagalega að ræða eða aðeins viljayfirlýsingu af hennar hendi, — hvernig hún ætlar að snúast við þessu máli, ef það kæmi í ljós, að grunnkaup hækkaði og vísitala hækkaði, eftir að hæstv. Alþ. er farið heim og situr ekki lengur, en stjórnin aðeins minnihlutastjórn? Hvernig hefur hún þá hugsað sér að standa við viljayfirlýsingu sína, að ég nú ekki tali um, hvernig hún hafi hugsað sér að standa við lagalega skuldbindingu sína, ef hún hefur gert slíka skuldbindingu með þessu? Og hvernig hefur þá hæstv. ríkisstj. hugsað sér tekjuöflun í sambandi við þær nýju ráðstafanir, sem þá kæmu til greina? Mér sýnist alveg óhjákvæmilegt vegna fordæmis og framtíðarinnar, að þetta atriði sé krufið til mergjar, hvernig þessu er í raun og veru háttað, hvað það er, sem hér hefur gerzt, hver hefur skuldbundið hvern í þessu sambandi og hvernig með skuli fara.

Loks vil ég svo í sambandi við þetta atriði minnast á, vegna þess að það er óljóst eftir bréfunum, sem gerð hafa verið, hvernig þetta er hugsað í einstökum atriðum varðandi uppgjör á kauphækkunum, að það hlýtur að vera einhver regla, sem þar er hugsuð, því að í bréfunum stendur aðeins: breytist grunnkaup eða vísitala. Það er náttúrlega ljóst með kaupgreiðsluvísitöluna, það er tiltekinn hlutur, sem menn hafa fyrir framan sig. En hvað meina menn með þessu, breytist grunnkaup? Hvaða reglur hafa menn komið sér saman um í því tilliti, ríkisstj. annars vegar og þessi samtök hins vegar? Hvernig á það að mælast og vegast, hver breyting á grunnkaupi almennt er, því að nú vitum við, að grunnkaup er oft að taka breytingum, ein stéttin í dag og önnur á morgun? Hvernig á að ráða fram úr því, hversu oft á að skoða þetta? Ég hef ekki orðið var við neina reglu um það, hversu oft eigi að skoða og þá ekki heldur, hvernig eigi að meta þetta í sambandi við endurskoðun. En það stendur á hinn bóginn, að það skuli endurskoða í samræmi við þær breytingar, sem verða.

Þá er það um heildaráætlunina í efnahagsmálunum. Þau koma nú fram í mörgum bútum, eins og kunnugt er og erfitt að fá yfirsýn um, hvernig heildarmyndin verður og í ýmsu tilliti nokkuð óljóst enn. Þó gerði hæstv. forsrh. nokkra tilraun við 1. umr. málsins um lækkun kaupgjalds og verðlags til þess að bregða upp mynd af því, hvernig hann hugsaði heildarmyndina. Og honum fannst, að það mundi vera um 170–180 millj., sem þyrfti að mæta og hafði þá samkv. því, sem fram kom í umræðunum, gert ráð fyrir því að hækka tekjuáætlun útflutningssjóðs frá því, sem sérfræðingar höfðu verið að meta áður, um talsvert verulega fjárhæð með tilliti til væntanlegrar lántöku. Þegar hann hafði gert ráð fyrir þessu, þá talaði hann um 170–180 millj. og þá gerði hæstv. ráðh. ráð fyrir því, að þessu ætti að mæta með því að skera niður 40 millj. eða svo á fjárlfrv. og með því að hækka tekjuáætlun fjárl. Það var ekki alveg ljóst, hvort hæstv. ráðh. áleit, að það væri hægt að hækka áætlunina um 83 millj. eða hvort það yrði að hækka hana einungis um 83 millj. mínus 35 millj. eða svo fyrir hugsanlegum umframgreiðslum. Þetta kom ekki ljóst fram. En það hefur verið talað um í þeim herbúðum, að það gæti jafnvel komið til greina að hækka áætlunina um 83 millj. og síðan að nota eitthvað af greiðsluafgangi s. l. árs til þess að greiða niður hallann, sem fyrirsjáanlegur væri á þessu ári. En svo var allt óljóst um, hvernig ætti að fara með þá milljónatugi, sem enn þá munar, ef dæmið er hugsað svona.

En í þessu sambandi og án þess að fara í kappræður um þetta fram og aftur núna vil ég spyrja um tvennt eða þrennt til þess að reyna að fá smátt og smátt, ef unnt væri, skýrari mynd af því, hvernig þetta allt saman er hugsað.

Það er þá í fyrsta lagi: Virðist stjórninni, að það megi byggja á því, að 6 millj. dollara lán í Bandaríkjunum fáist? Er það mál að færast í það horf, að stjórnin telji óhætt að byggja á því, að það muni fást?

Er ef til vill þessi bjartsýni, sem menn verða nú varir við hjá stjórnarflokkunum í sambandi við afgreiðslu efnahagsmálanna núna, að einhverju leyti miðuð við, að þeir ætli að fara fram á að fá meiri lán en þessar 6 milljónir dollara? Er það fyrirhugað, eða er það ekki fyrirhugað?

Í annan stað langaði mig til þess að spyrjast fyrir um, hvort það sé nokkuð nær, nú en áður virtist koma fram, að stjórnarflokkarnir stæðu saman um að skera niður á fjárl. um 40 millj. og hvort það mundi vera mögulegt að fá í sambandi við þetta mál upplýsingar um, hvað það væri, sem þeir ætluðu að skera niður. Þó að það komi bezt í ljós afstaðan alveg endanlega í sambandi við fjárl., þá snertir þetta allt, sem ég er að tala um núna, þetta mál, því að hér er um að ræða, hvernig eigi að mæta þessum gífurlegu, stórfelldu nýju skuldbindingum, sem í þessu frv. felast, — hvort það sé nokkuð nær, en áður um það, að stjórnarflokkarnir standi saman um að skera niður um 40 millj. á fjárl., og hvað það er, sem þeir hafa hugsað sér að skera niður.

Loks vildi ég leyfa mér að spyrja, hvort stjórnarflokkarnir standa saman um að nota greiðsluafganginn eða eitthvað talsvert af honum til þess að mæta þeim halla, sem fyrirsjáanlegur er á öllum þessum afgreiðslum í ár, hvort það sé frá því gengið.

Ef kæmu skýr svör við þessum spurningum, þá væri miklu nær en áður, að menn gætu áttað sig á því, hvert verið er að fara, en eins og allir sjá, þá er ómögulegt að átta sig á því, nema meginlínurnar varðandi afgreiðslu efnahagsmálanna geti orðið dregnar upp og þá ekki aðeins það, sem hæstv. forsrh. hugsar sér, heldur það, sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um.

Loks vil ég benda á í þessu sambandi, að þegar verið er að tala um þessar 170–180 millj., sem vanti, sem hæstv. forsrh. talar um að þurfi að mæta og ég talaði um í því sambandi 230 millj., vegna þess að ég taldi þá ekki með tekjuauka útflutningssjóðs væntanlegan vegna lánsins, — sá mismunur stafar af því, — en þegar talað er um þessar stóru fjárhæðir, þá er þó ekki svo sem eins og það sé hægt að álíta, að öll kurl séu komin til grafar í þessum fyrirætlunum, sem nú eru fram undan, það vantar vafalaust mikið á það. Og það liggur í því, að nú hafa verið teknar skuldbindingar um það að hækka við sjávarútveginn, ef nokkrar hækkanir verði yfir höfuð og það er sú áhætta, að þær geti orðið og þá bætist vitanlega við þessa fjárhæð. Í annan stað hefur stjórnin sjálf látið í það skína, að það muni geta farið svo, að það verði að auka niðurgreiðslur til þess að ná því marki, sem hún hefur sett sér varðandi vísitöluna í sambandi við ákvörðun um að miða kaupgjaldið við 175. Það kostar líka mikla peninga, auk þess sem sannleikurinn er sá, að ósamræmið af niðurgreiðslunum er þegar orðið svo mikið, að það er sízt á það bætandi. En það er önnur saga.

Þarna geta sem sagt komið til greina verulegir útgjaldaliðir umfram þessar fjárhæðir, sem við hæstv. forsrh. höfum nefnt, auk þess sem það hefur aldrei komið fyrir, að afgr. hafi verið fjárl. þannig, að ekki hafi komið í ljós einhverjir liðir, sem þingið neyddist til að setja inn á þau, en fyrir slíku er alls ekki gert ráð í þessum bollaleggingum. Það er gert ráð fyrir því, að það þurfi engu að bæta nýju inn á fjárl. nema aðeins grunnlaunauppbótunum til opinberra starfsmanna og vegna elli- og örorkutrygginganna. En þó að miklir ráðdeildarmenn séu teknir við þessum málum, þá verður aldrei hægt að gera ráð fyrir því, að það verði hægt að komast alveg hjá því að taka til greina eitthvað af nýjum liðum inn á fjárl. Og þá kemur það líka inn í þessa fjárhæð, sem þarf að mæta með niðurskurði og tekjuöflun.

Loks vil ég benda á eitt atriði, sem er að vísu ekki alveg ljóst, en mér sýnist þó vera eins og ég ætla að greina.

Eins og menn vita, voru í fyrra teknar út af fjárl. niðurgreiðslurnar og varð mikill úlfaþytur út af því, eins og menn muna og útflutningssjóði var ætlað að standa undir þessum greiðslum. Það þótti alveg eðlilegt að skilja þarna á milli, að útflutningssjóður stæði undir öllum uppbótunum til framleiðslunnar og öllum niðurgreiðslunum, vegna þess að þessi tvenns konar útgjöld eru í raun og veru eins og tveir endar á sama prikinu, ef svo mætti segja. Það liggur í því, að eftir því sem niðurgreiðslurnar eru meiri, eftir því eru útflutningsuppbæturnar yfir höfuð minni og svo aftur öfugt. Og það sýndist alveg eðlilegt málefnalega, að þetta væri allt í einum stað. En mér sýnist helzt á þessu frv., sem hér liggur fyrir, og grg., að nú sé ætlunin að koma þessu þannig fyrir, að sumt af niðurgreiðslunum verði hjá útflutningssjóði framvegis og sumt á fjárl. Held ég þó, að allir hljóti að geta verið sammála um, að sízt sé það til bóta eða geri þessa mynd skýrari að grauta þessu svo herfilega að hafa sumt af niðurgreiðslunum á fjárl. og sumt á útflutningssjóðnum. Ég held, að það sé ekki nema um tvær aðferðir að ræða í þessu, önnur aðferðin er sú, sem fyrrv. stjórn hallaðist að, að hafa allar þessar greiðslur á útflutningssjóðnum eða þá að færa þær aftur allar yfir á fjárl. Þetta vil ég benda á. Þeir, sem áttu erfitt með, að því er þeir sögðu sjálfir í fyrra, að fylgjast með þessu, ef greiðslurnar yrðu færðar allar inn í útflutningssjóð, hljóta náttúrlega að eiga enn erfiðara, ef tekinn verður sá háttur að hafa niðurgreiðslurnar bæði hjá útflutningssjóði og ríkissjóði. Og þykir mér það einkennilegt, ef þeim, sem þóttust hafa mikinn áhuga fyrir því að hafa þetta skýrt og einfalt, þ. e. sjálfstæðismenn, líkar það að grauta þessu svona. Annars er þetta fyrirkomulagsatriði. En það er þó ekki einskisvert, vegna þess að það er ástæða til að reyna að hafa þessi mál eins skýrt uppsett og mögulegt er, þau eru alveg nægilega flókin fyrir því. Og sú uppsetning, sem ofan á varð í fyrra, er alveg tvímælalaust langskýrust og langeðlilegust. Það er að hafa alveg sér reikningshald fyrir allar þessar ráðstafanir vegna atvinnuveganna og framleiðslunnar, en hafa ríkisbúskapinn sjálfan út af fyrir sig. Ef menn vilja ekki hafa þetta svona, þá er að setja þetta allt inn undir ríkisbúskapinn og inn á fjárl. En allra verst er að skipta sumum liðunum í þessu niður á fjárl. annars vegar og útflutningssjóð hins vegar.

Ég skal svo láta máli mínu um þetta lokið, en ég vænti þess, að hæstv. forsrh. vilji koma inn á þessar fyrirspurnir, sem ég hef gert.