27.01.1959
Neðri deild: 63. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var hér fyrst og fremst í sambandi við nokkur ummæli, sem féllu í umr. í gær hjá hv. 1. þm. Reykv. (BBen), sem ég vildi segja hér nokkur orð.

Hv. þm. lýsti því yfir, að hann teldi rétt, eins og ég hafði bent á í minni ræðu, eða að heppilegra hefði verið, að afgreiðsla á efnahagsmálinu sem heild hefði hér legið fyrir í einu lagi, helzt í einu frv., en væri ekki slitin í sundur á þann hátt, sem hér væri gert. En hann vildi hins vegar reyna að afsaka þessi vinnubrögð með því, að vegna sérstakra aðstæðna nú hefði ekki verið hægt að koma öðru við. Það hefði verið hætt við því, að önnur vinnubrögð hefðu leitt til þess, að flotinn hefði stöðvazt og við fengið hér efnahagslegt tjón af því.

Þetta er nú vitanlega aðeins tilbúin afsökun hjá hv. þm. Málið liggur vitanlega ekki fyrir á þessa lund. Það hefur enginn fundið hér að því, að hæstv. ríkisstj. snerist strax í því fyrir áramótin og dagana eftir áramótin að semja við útgerðina í landinu og koma flotanum af stað. Enginn hefur fundið að því. Það var vitanlega sjálfsagt.

Það, sem hins vegar ágreiningurinn stendur um, er þetta, hvort það sé réttmætt að leggja hér fram frv., sem gerir ráð fyrir stórkostlegum nýjum útgjöldum hjá útflutningssjóði, en hefur ekki að geyma neinar till. um tekjur fyrir þennan sama útflutningssjóð. Ég hefði talið, að það væri miklu eðlilegra að láta þetta frv. bíða og alla afgreiðslu þess, þar til þetta lægi fyrir, jafnvel þótt það þyrfti að bíða fram í maímánuð.

Nei, það, sem hér er raunverulega verið að gera, er það, að það á að slá föstum útgjöldunum með lagasetningu frá Alþingi yfirleitt í öllum aðalgreinum, en það á að víkja sér undan þeim vanda, sem felst í því að ákveða, hvaðan tekjurnar skuli koma og hve miklar tekjurnar skuli vera, sem sjóðurinn á að fá til þess að standa undir þessum nýju útgjöldum. Og það er mér alveg ljóst líka, að það er m. a. flokkur hv. 1. þm. Reykv., sem er að reyna að skjóta sér undan þessum vanda og hann ætlar að reyna að geyma fram yfir næstu tvennar kosningar, þangað til á næsta hausti, að þurfa að standa við þessi loforð eða sjá um greiðslur á þeim.

Þá var önnur afsökun þessa hv. þm. sú, að ekki færist mér og þeim, sem hefðu verið í fyrrv. ríkisstj., að kvarta undan því, að þessi háttur væri nú hafður á, því að svona hefði það einmitt verið í tíð fyrrv. ríkisstj. Hún hefði veitt útgerðarmönnum og framleiðendum ný loforð um uppbætur um áramótin eða í ársbyrjun 1958, en hefði hins vegar ekki aflað tekna, fyrr en í maímánuði, eða nærri því mánuði síðar og var allstórorður í þeim efnum og taldi, að við ættum ekki að gefa tilefni til þess að rifja hér upp þann hörmungarviðskilnað, eins og hv. þm. orðaði það, sem hefði verið hjá fyrrv. ríkisstj. í þessum efnum.

Öllu er þessu nú snúið öfugt hjá hv. þm. Sannleikur málsins er sá, að þannig stóðu þessi mál um þessi áramót, sem hann minntist hér á eða í árslok 1957, ársbyrjun 1958, að þá skuldaði útflutningssjóður, sem átti að sjá um bætur til framleiðslunnar, þegar allt var til tínt þar, um 24 millj. kr. samkvæmt því, sem reikningar liggja fyrir um. En hann hafði unnið svo mikið á frá þeim tíma, sem þessi hv. þm. fór frá völdum eða úr ríkisstj., hv. 1. þm. Reykv., að þá hafði þessi skuld numið yfir 120 millj. kr. Það var því sannarlega verið að grynna hér á. Árið 1957 gekk þannig, að það var ekki aðeins staðið að fullu og öllu í skilum með það, sem þá féll raunverulega til, heldur var einnig verið að vinna stórkostlega upp að greiða upp gamlan skuldahala. Þetta veit hv. þm. mætavel.

Þau nýju loforð, sem síðan voru gefin í sambandi við samninga til framleiðslunnar í ársbyrjun 1958, voru mjög óveruleg. Það var metið, að heildarútgjaldaaukningin hjá útflutningssjóði mundi verða vegna þeirra samninga í kringum 25 millj. kr. Það var því ekkert, sem beinlínis lá á með það, eins og málin stóðu þá um áramótin, að fá samþykkta nýja tekjustofna fyrir útflutningssjóð, enda var þá vandinn í rauninni miklu meiri, eins og honum var uppstillt þá, vegna ríkissjóðs. Það var rétt, að það voru uppi deilur um það, hversu líklegt væri með tekjur útflutningssjóðs á árinu 1958. Það var alveg augljóst mál, að ef jafnilla tækist til með aflaföng á árinu 1958 og var á árinu 1957, þá mundi hafa orðið allverulegur halli hjá útflutningssjóði og auðvitað hjá ríkissjóði einnig. En ef menn hefðu leyft sér að vona, að það yrði nokkrum mun betra árferði með aflaföng á árinu 1958 heldur, en var á árinu 1957, eins og ég m. a. gerði mér vonir um, þá var í rauninni ekki undan neinu að kvarta í þessum efnum.

Að vísu var það svo, að það lá fyrir, en um það höfðu ekki verið gerðir samningar í ársbyrjun 1958, að það var nauðsyn á því að bæta rekstrarafkomu togaraflotans frá því, sem verið hafði. Það var vitað mál, að togaraflotinn hafði verið rekinn með miklum halla á undanförnum árum og þó að rekstrargrundvöllur hans væri bættur allmikið á árinu 1957, þá hrökk það hvergi til, vegna þess að afli var með eindæmum lélegur hjá togurunum árið 1957. Á því ári héldu því togararnir áfram að tapa líka. Nú tókust ekki samningar við togaraeigendur í ársbyrjun 1958. Það var því ekki búið að ákveða, hvaða bætur ætti að heita togurunum að nýju og það var ekki gert fyrr, en í maímánuði. Þar til bjuggu þeir við óbreytt kjör frá því, sem áður hafði verið. En það var mér ljóst, að það var gjarnan þörf á því að bæta rekstrarafkomu togaranna frá því, sem verið hafði, nema þá skipti stórlega til hins betra með afla hjá togurunum.

Svona lá þetta fyrir, og af þessum ástæðum, sem ég hef nú greint, er þessi afsökun hjá hv. þm. líka röng. Hún fær heldur ekki staðizt. Það er ekki neinu saman að líkja, því sem nú er verið að gera, og því, sem gert hafði verið áður í tíð fyrrv. ríkisstj. í þessum efnum.

Það blandast auðvitað engum manni hugur um það, að verði útflutningssjóði nú ekki séð fyrir nýjum tekjum með einum eða öðrum hætti upp á 150–200 millj. kr., þá hlýtur að skapast hér mjög verulegur skuldahali hjá sjóðnum. Það er ómögulegt, að öðruvísi fari.

Hv. 1. þm. Reykv. reyndi að snúa út úr orðum mínum með það, sem ég hafði sagt viðvíkjandi samningum þeim, sem gerðir höfðu verið við útgerðarmenn, sagði, að ég hefði sagt hér, að vel mætti vera, að ekki hefði verið hægt að ná betri samningum fyrir útflutningssjóð og ríkið, en gert var, en með því að ég hefði sagt þetta, þá hefði ég líka kippt grundvellinum undan aðfinnslum mínum eða umsögn minni um það, að nú hefði verið gert betur við útveginn en áður. Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm. Ég hef aðeins sýnt fram á það í rauninni með alveg óyggjandi dæmum, enda treystir hann sér ekki til þess að hrekja það á neinn hátt, að samningarnir við útgerðina nú eru á þeim grundvelli, að rekstrarafkoman ætti að vera nokkru betri, en áður. Með því er ekki sagt, að það hafi ekki verið nauðsynlegt kannske eða ekki hægt að komast hjá því, til þess að samningar fengjust og til þess að samningar fengjust í tæka tíð, að fallast á auknar kröfur frá útgerðinni. Ég er ekki að dæma um það. En ég álít, að það eigi að koma fram, sem rétt er, að það hefur verið samið við hana á nokkru hagstæðari grundvelli, en áður hefur verið gert.

Ég vil líka vekja athygli á öðru. Það er alveg furðulegt, að þeir, sem standa að þessum samningum, skuli skammast sín fyrir að hafa gert slíka samninga. Af hverju vilja þeir ekki viðurkenna, að þeir hafi gert samninga, sem bæta hag útgerðarinnar nokkuð frá því, sem áður var? Hvers vegna þurfa þeir að afneita því, þegar það liggur alveg ljóst fyrir?

Ég hef sagt það hér, að ég er ekki fyrst og fremst að deila á það, að hér hafi verið gert betur við útgerðina. Ég hef aðeins leitt í ljós, að það hafi verið gert. En ég segi: Það, sem skiptir þó útgerðina enn þá meira máli, en góðir samningar, en há loforð, það er það, að séð sé um það alveg örugglega, að hægt sé að standa við loforðin.

Í framhaldi af þessu kom svo hv. 1. þm. Reykv. með nokkuð furðulegar dylgjur í sambandi við rekstrarafkomu og rekstraraðstöðu nokkurra togarafélaga og nefndi þar tiltekna aðila. Það var auðvitað ekki gott að átta sig á því, hvaða tilefni varð til þess að koma með þessar slúðursögur, sem hann var hér með. Ja, maður skal helzt halda það, að það hafi verið í tilefni af því, að ég hafði sagt, að um það væri ekki að villast, að afkoma útgerðarinnar almennt séð hafi verið heldur hagstæð á s. l. ári. Líklega hefur hv. þm. ætlað sér að reyna að afsanna það, að svo hafi verið. En ég vil segja honum það, að hann fær ekki marga, ekki einu sinni neinn útgerðarmann, hygg ég, til þess að reyna að halda því fram með sér, að afkoma t. d. togaraútgerðarinnar hafi verið sérlega léleg á s. l. ári. Nei, það munu allir viðurkenna, að almennt séð var rekstrarafkoman hagstæð, enda hefur farið fram athugun á þessu af hálfu ríkisstj. og liggja þar fyrir óyggjandi skýrslur um það, sem sýna, að rekstrarafkoman hjá togaraflotanum var, þegar litið er á heildina, mjög góð. Og svipað má segja um ýmsar aðrar greinar sjávarútvegsins, að rekstrarafkoman var hagstæð.

Hitt er svo alveg rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér í umr. um málið, að þó að rekstrarafkoma togaranna t. d. hafi verið hagstæð í fyrsta skipti nú um langan tíma á s. l. ári, þá mun hafa verið alveg fullnóg fyrir togarana að gera við þann rekstrarafgang, sem almennt hefur orðið, til þess að greiða upp nokkuð af þeim töpum, sem á þá hafa fallið á undanförnum árum. Það er allt annað mál. Togaraútgerðin þurfti sannarlega á þessu að halda, eins og komið var, almennt séð.

En ég skal víkja svolítið nánar að þessum dylgjum hv. 1. þm. Reykv. viðvíkjandi tilteknum togaraútgerðum, sem munu hafa reynzt vera í vanskilum.

Hann minntist á togaraútgerð á Austurlandi og alveg sérstaklega á Seyðisfirði, þar sem togari mundi nú hafa legið um skeið vegna taprekstrar eða erfiðra fjárhagsástæðna og bætti því svo við, að einnig ekki ýkja langt þar frá mundi líka fyrirfinnast togari, þar sem fjárhagurinn væri ekki í góðu lagi og ríkissjóður hefði þar jafnvel nýlega þurft að hlaupa í skarðið og greiða allstórar fjársummur.

Það skal tekið fram, að í fyrsta lagi eru gerðir út í landinu yfir 40 togarar og allir þeir, sem a. m. k. þekkja nokkuð til útgerðarrekstrar vita, að það fer aldrei svo, þó að hin almenna afkoma sé hagstæð, að þá finnist ekki eitthvert skip í flotanum eða einhver aðili, sem ber skarðan hlut frá borði og kann að lenda í erfiðleikum. Þar vitanlega grípur svo margt inn í,og það er því aðeins af fáfræðinni einni saman, ef ekki af öðru enn lakara, sem menn eru að færa fram sem eitthvert sönnunargagn, þó að þeir geti fundið eitthvert eitt skip eða svo, sem illa hefur farið út úr rekstrinum, eins og það sé nokkurt sönnunargagn um það, hver afkoman hafi verið almennt séð.

En það er nauðsynlegt í þessu efni að upplýsa þennan hv. þm. um það, hvernig málin standa í þessu efni. Við vitum það flestir, að mjög stóran þátt í hinni tiltölulega góðu afkomu togaranna á s. l. ári á hin mikla karfaveiði, sem varð á árinu, þar sem togararnir hafa veitt á s. l. ári um og yfir 80 þús. tonn af karfa við Ameríkustrendur og flutt hingað heim til vinnslu. Þetta er jafnvel langstærsta ástæðan til þess, að afkoma togaranna hefur verið allgóð.

Nú gefur það auga leið, a. m. k. fyrir þá, sem eru kunnugir, að einmitt togarar á Austurlandi liggja þarna mjög illa við og er nálega ókleift fyrir suma þeirra að notfæra sér þessa miklu veiði. Smærri togararnir á Austfjörðum geta varla tekið þátt í þessum veiðum, ef þeir ætla að reyna að sinna atvinnuástandinu heima fyrir. Það mundi taka þá fulla 8 sólarhringa að sigla á miðin og af miðunum aðra 8 sólarhringa. Þetta hefur orðið til þess, að m. a. Seyðisfjarðartogarinn hefur ekki treyst sér til þess að taka þátt í þessum veiðum nema að sáralitlu leyti með örfáa túra, þar sem hann hefur þá orðið að landa aflanum hér fyrir sunnan. Svipað er að segja um Fáskrúðsfjarðartogarana tvo, að það hefur farið svipað hjá þeim. Og vegna þessa hafa þessir togarar reynt í lengstu lög að halda áfram fiskveiðum hér við land og landa aflanum heima með vitanlega miklu lakari afkomu.

Hvernig svo sem líður að öðru leyti fjárstjórn togaraútgerðar á Seyðisfirði og þar á fjörðum, — það skal ég ekki segja um, ég er ekki kunnugur um það, — veit ég mætavel, að það er alltaf svo, að nokkur munur er þar á, hvernig á málum er haldið. En ég efast ekkert um, að mjög stór ástæða í þeim efnum, að þarna er um fjárhagsörðugleika að ræða, mjög stór ástæða í sambandi við Seyðisfjarðarútgerðina liggur einmitt í þessu, að aðstaða þeirra öll til þess að stunda þessar veiðar hefur verið miklu lakari.

En þetta var aðeins hliðarspor hjá hv. þm. því að það var auðvitað alveg greinilegt, að það, sem miðað var á í þessum efnum, var ekki Seyðisfjarðartogarinn eða aðrir togarar á Austfjörðum. Hv. þm. hélt, að hann gæti náð sér eitthvað niðri á mér með því að nálgast Norðfjarðartogarann, þar hlyti hann þó að ná sér eitthvað niðri á mér og er það vel í samræmi við annan málflutning hjá þessum hv. þm. í sambandi við þær efnisumr., sem hér fóru fram.

Þetta er auðvitað, hvernig sem á það mál er lítið, allt saman ein samfelld skekkja hjá þessum hv. þm. Í fyrsta lagi nær hann sér ekkert niðri á mér frekar, en sínum eigin flokksmönnum, því að það hefur nefnilega verið þannig háttur á, í sambandi víð útgerðarrekstur togarans á Norðfirði, að frá upphafi vega, það eru ekki nema tæp tvö ár, sem þessi togari hefur verið í rekstri, hann er eitt af okkar nýjustu skipum í flotanum, — þá hefur rekstrarstjórn þessa skips verið í höndum allra flokkanna í Neskaupstað. Það hefur verið fjögurra manna útgerðarstjórn þar: einn sjálfstæðismaður, einn sósíalisti, einn framsóknarmaður og einn Alþfl.-maður, jafnvel þó að Alþfl. hafi þar engan mann átt í bæjarstjórn, af því að það hefur verið fullkomið samkomulag á milli flokkanna þar, að þeir skyldu þar allir hafa jafna aðstöðu til, svo að það er mikill misskilningur, ef hv. þm. heldur, að hann nái sér eitthvað niðri á mér sérstaklega, jafnvel þó að það fyndist, að þeim hefði eitthvað skjöplazt með stjórnina austur í Neskaupstað á þessum togara. Það er líka misskilningur.

En hvernig er þetta svo, sem hann er að slúðra hér með varðandi sérstakar greiðslur, sem hafi þurft að inna af höndum fyrir togarann Gerpi? Jú, það er rétt, það hafa nú fyrir skömmu verið greiddar rúmar 800 þús. kr. vegna ríkisábyrgðar fyrir þetta skip í sambandi við kaup á skipinu úti í Þýzkalandi. En ætli þetta sé eitthvað nýtt í sambandi við togarann? Ég veit ekki betur, en að afborganir og vextir vegna ríkisábyrgðar á erlendum lánum hafi verið greidd og einnig á s. l. ári fyrir alla þá togara, sem ríkið hefur verið í ábyrgð fyrir í sambandi við erlend lán. Af þeim tíu togurum, sem keyptir voru í Englandi 1949 og 1950 og tekið var enskt lán fyrir og ríkissjóður var í ábyrgð fyrir, hefur þetta verið greitt. Þannig hafa verið greiddar allar afborganir og vextir fyrir tvo af Patreksfjarðartogurunum, einn af Ísafjarðartogurunum, einn af Akureyrartogurunum, því að þangað fóru þessi skip og einn af Hafnarfjarðartogurunum. Hér er því ekkert sérstakt á ferðinni, nema það eina, sem má segja að sé sérstakt í þessu sambandi við Gerpi, að það hefur staðið algerlega sérstaklega á með Gerpi. Hann er keyptur nú nýlega á tvöföldu verði á við hin skipin. Og vegna þess að það er enginn stofnlánasjóður til í landinu til þess að veita stofnlán til kaupa á nýjum togara, þá varð vitanlega að sæta afarkostum, þegar svo vildi til, að slík óhöpp bar að höndum eins og það austur frá, austur í Neskaupstað, þar sem þeir misstu sín skip og það þótti sjálfsagt að ráðast í að kaupa nýtt skip í staðinn. Og fyrrv. ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. stóð dyggilega að því að hjálpa bæjarstjórninni í Neskaupstað til þess að fá skip í skarðið, þegar hún hafði misst bæði sín skip vegna slysfara, en það var enginn stofnlánasjóður til í landinu til þess að veita hér eðlileg lán. Það varð því að kaupa skipið með þeim hætti, að helminginn af andvirði skipsins — eða 6 millj. kr. — varð að taka að láni hjá skipabyggingarstöðinni í Þýzkalandi aðeins til 4 ára og síðan tókust samningar hér við Framkvæmdabankann um það, að hann ætlaði að reyna að lengja þetta lán ásamt nokkru viðbótarláni, sem hann veitti, lengja þetta lán þannig, að einhverjar líkur væru til þess, að útgerðin gæti staðið undir þessu.

Svo hefur það gerzt með Gerpi, einn allra togaranna, sem svona hefur staðið á um að eiga erlent lán, að hann hefur vogað sér út í það að borga nokkurn hluta af sínum lánum sjálfur. Það hafa fallið á útgerðina 4 víxlar samkv. þessum stuttu lánum. Ríkissjóður hefur greitt einn, útgerðin hefur greitt þrjá. Önnur skip hafa ekki borgað af sínum lánum. En það er rétt, einn aðili, bæjarsjóður Reykjavíkur, hefur endurgreitt ríkinu það, sem ríkið hefur lagt út fyrir Reykjavíkurtogarana, fyrir bæjarútgerðartogara Reykjavíkur.

Sé þetta athugað enn nánar í sambandi við Gerpi, þá hefur hann í þessu sambandi enn meiri sérstöðu. Hann er í hópi þeirra, sem fá á sig með miklum þunga yfirfærslugjaldið frá því á s. l. vori. En af því að hér var enginn stofnlánasjóður, sem gat lánað út á skipið, þegar það er keypt, með eðlilegum hætti, þá verður að taka þetta stutta erlenda lán, og yfirfærslugjaldið fellur með miklum þunga á í þessu tilfelli. Þegar síðasta afborgunin átti að fara fram, þá var bara yfirfærslugjaldið af afborgununum og vöxtunum yfir 500 þús. kr. En ríkið hefur sem sagt lagt út í þessu tilfelli fyrir skipið rúmar 800 þús. kr. Sú upphæð nemur ekki einu sinni alveg því, sem yfirfærslugjaldíð nemur, sem féll til viðbótar á það, sem afborganir og vextir voru við rétta samninga.

Það er því engin ástæða til þess að vera að dylgja neitt um það í almennum umr. hér á Alþ., hvorki til þess að reyna að beina skeytum að mér né yfirleitt útgerð Gerpis, að hann sé eitthvert sérstakt dæmi um það, hversu óskaplega hafi gengið illa. Ég vil líka benda á, að fyrrv. ríkisstj. var það ljóst og öllum, sem hafa haft með þessi mál að gera, að það sköpuðust ákveðin vandamál í sambandi við stutt erlend lán hjá útveginum í landinu yfirleitt við tilkomu yfirfærslugjaldsins 55%. Það voru vitanlega margir fiskibátar, sem höfðu verið keyptir til landsins á undanförnum árum, þar sem nokkur hluti af stofnverðinu stóð enn þá í erlendri skuld og þessar erlendu skuldir stórhækkuðu á þessum aðilum með tilkomu 55% gjaldsins. Hvernig fór þetta í framkvæmd? Það fór þannig í framkvæmd gagnvart öllum bátaflotanum í landinu, sem hér átti hlut að máli, að fiskveiðasjóður og bankarnir urðu að greiða út þessi 55% fyrir þessa aðila með auknum lánveitingum. Um þetta var samið alveg sérstaklega fyrir þessa aðila. En Gerpir vitanlega hefur ekki komizt undir þetta, af því að það var enginn lánveitingasjóður til, sem stóð að því, að hann gæti fengið venjulegt lán. Hefði hann notið þar sömu réttinda og aðrir, þá hefði ekki einu sinni komið til þess, að það hefði þurft að greiða þessa upphæð.

Auk þessa gildir vitanlega það í sambandi við rekstur þessa skips, sem hér hefur verið reynt á ósmekklegan hátt að draga inn í umr. af hv. 1. þm. Reykv., að það hefur vitanlega gilt um Gerpi eins og aðra Austfjarðatogara, að hann hefur ekki haft sömu aðstöðu til þess að afla með það fyrir augum að koma aflanum heim til verkunar og skipin hér suðvestanlands og annars staðar á landinu í sambandi við þessi fjarlægu fiskimið, þó að hann hafi hins vegar haft betri aðstöðu en hinir Austfjarðatogararnir til þess að sækja þessi mið og gert það líka meira. Svo kann vel að vera, að stjórnin hjá þeim við fyrirtækið hafi ekki heldur verið upp á það bezta, ekki skal ég neita því. Ég hef ekki haft hlutdeild í því nú og skal ekki taka þar neitt í forsvar, en ég hygg samt, að það hafi verið svipað því, sem hefur verið í flotanum.

En eitt vil ég svo benda á, að Gerpir hefur orðið fyrir því tjóni, sem er út af fyrir sig mjög alvarlegt. Við höfum keypt tvo togara nú í seinni tíð frá Vestur-Þýzkalandi og haldið, að við værum þar að kaupa það bezta, sem við áttum völ á. Það hefur hins vegar til tekizt svo, bæði með Gerpi og Reykjavíkurtogarann Þormóð goða, sem þarna hafa verið keyptir, að á þessum skipum hafa komið fram mjög alvarleg tjón. Vegna óviðráðanlegs vélatjóns, þar sem byggingarfirmað sjálft viðurkennir sökina á sig og verður að greiða útlagðan kostnað vegna viðgerðarinnar, hefur Gerpir þurft að liggja úti í Þýzkalandi tvívegis á s. l. ári í alllangan tíma frá rekstri af þessum sökum. Hið sama hefur komið fyrir Reykjavíkurtogarann Þormóð goða. Og hann verður einmitt núna um þessar mundir að fara út vegna slíks tjóns.

Svona atvik geta vitanlega alltaf komið fyrir og kunna kannske að vera góð til þess, að hv. 1. þm. Reykv. geti beygt sig hér út um það, að þarna hafi svona tekizt til, og ætlar að nota það sem sönnun fyrir því, að rekstrarafkoma útgerðarinnar í landinu hafi verið léleg. En það verða ekki metin þungbær rök.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. Ég held, að um það sé ekki að villast, að hagur sá, sem togaraflotinn hefur búið við á undanförnu ári, miðað við allgóðan afla, hafi verið allgóður. En hitt vil ég fyrir mitt leyti undirstrika, sem ég hafði minnzt hér á áður í umr. og voru orð hæstv. forsrh., að vegna mikils taprekstrar hjá togaraflotanum á undanförnum árum þurfti togaraflotinn vissulega á þessu að halda. Og hann mun hafa nóg við sínar greiðslur að gera núna fyrst í stað og það er ekkert mikilvægt eða stórt atriði fyrir mér, þó að svo kunni að fara, að jafnvel eitthvert einstakt skip kunni þar að vera með lélega útkomu, kannske vegna meiri háttar mistaka.

Aðeins þar til viðbótar vildi ég segja það líka, að hér hefur verið minnzt á í þessu efni eitt stórt vandamál, sem er fyrir togaraflotann í landinu og þar með fyrir þjóðarbúið í heild, sem afleiðing af því og það er mjög tilfinnanlegt, að það skuli ekki vera til neinn stofnlánasjóður í landinu, sem getur séð um, að hægt sé að fá stofnlán með eðlilegum kjörum til þess að kaupa nýja togara til landsins. Og það er ósköp hætt við því, að það fari svo hjá fleiri en einum, að ef togararnir verða að kaupast til landsins með erfiðleikakjörum, þá hljóti það raunverulega að falla á ríkið meira eða minna með afborganir og vextí eða aðra fjárhagsaðstoð, ef útgerðinni er ætlað að standa undir þessum afborgunum og vöxtum á óeðlilega skömmum tíma. Ég get aðeins nefnt það hér í leiðinni, að svo stóð þetta illa í tíð fyrrv. ríkisstj., að þegar eitt af bezt reknu og beztu útgerðarfélögunum í landinu, togarafélagið Fylkir, tapaði sínu skipi af slysförum, skipi, sem yfirleitt hafði verið metaflaskip í flotanum lengst af, þegar það þurfti að endurnýja eða fá sér annað skip í stað þess, sem tapaðist, þá fór það svo, að félagið gat ekki keypt skipið, það gat ekki borgað það nema að nokkru leyti, það gat ekki fengið viðbótarlán. Ríkið varð að hlaupa undir baggann og svo getur þetta vitanlega orðið hjá fleirum, nema hin leiðin sé farin, að ekkert skip sé keypt, jafnvel þótt um bein tjón verði að ræða, á meðan ekki er til neinn stofnlánasjóður í landinu, sem getur lánað þessum rekstri með eðlilegum hætti stofnfé. Það væri vitanlega furðuleg skammsýni að ætla að nota það sem rök fyrir því, hvernig afkoma togaranna hefur verið á síðasta ári, að nefna t. d. togarann Fylki sem dæmi um það, að þar þurfti ríkið einnig að koma til og veita aðstoð, því að á þeirri útgerð hefur vissulega verið góður rekstur á allan hátt og mikil og góð afkoma, þó að það standi ekki undir því að borga kaupverð skipsins strax á fyrsta ári.