29.01.1959
Neðri deild: 66. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs á fundinum á þriðjudaginn til leiðréttingar ummælum hv. 2. þm. S-M. (LJós). Í sjálfu sér er ekki ástæða til þess að fjölyrða um það, vegna þess að þegar þau eru skoðuð, þá rekst þar hvert á annars horn. Hann mótmælir sér í raun og veru bezt sjálfur. Hann sagði nú, að hann hefði aldrei fundið að því, að samningurinn við útvegsmenn var gerður strax upp úr áramótum, heldur væri hann að finna að því, að þetta frv. væri lagt fram, án þess að tekjuöflun fylgdi með því. Ég vil benda á, að ef eitthvað er athugavert í þessu sambandi, þá hlýtur það að vera samningsgerðin sjálf, því að annaðhvort hefur hún gildi, og þá er það hún, sem þyrfti að taka ákvörðun um, eða hún er algerlega marklaus og þá er það auðvitað athugavert og aðfinningar að gera slíkan samning. En mér skildist á hv. 2. þm. S-M., að hann teldi, að samningurinn sjálfur væri í gildi og hefði sízt verið aðfinningarvert að gera hann. Ef svo er, þá er auðvitað algert aukaatriði, hvenær og í hvaða formi þetta frv. er lagt fyrir þingið. Ég hef aftur á móti fundið að því og tel það vera misráðið, að samið skyldi við útvegsmenn fyrr, en málið allt var afgreitt. Hitt er annað mál, að ég skil til hlítar þær ástæður, sem urðu þess valdandi, að hæstv. ríkisstj. taldi sig nauðbeygða til þess að fara þá leið, sem hún gerði.

Þá taldi hv. þm., að það stæði allt öðruvísi á nú, en í fyrra, vegna þess að í fyrra hefði verið hægt að leysa vanda sjávarútvegsins án þess, að nokkurrar nýrrar tekjuöflunar hefði þurft við og var að tala um 25 millj. kr. í því sambandi, sem viðbótarútgjöld. Öll þjóðin veit, að deilan, sem var innan fyrrv. hæstv. ríkisstj., var einmitt um þær fjárhæðir, sem þurfti að verja í þessu skyni og því vandamáli var ekki lokið fyrr en í maí og þá á þann veg að, að sögn stjórnarfl. sjálfra var ekki um neinar 25 millj. kr. að ræða, heldur töluvert á þriðja hundrað millj. kr., sem auka þurfti gjöld af þessum sökum og að réttu lagi voru gjöldin þó miklu meiri, eða kringum 800 millj. kr. Sú var afleiðingin af þeim ákvörðunum, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. gerði um áramótin 1957–58. Og hv. þm. gaf þá loforð til útvegsmanna um, að þeir skyldu fá uppbætur, með þeim árangri, sem síðan er fram kominn. Efnahagslöggjöfin, sem við höfum verið að ræða undanfarna daga, stöðvunarfrv., er bein afleiðing þess, hvernig málum var háttað um áramótin 1957–58, sem hv. þm. stóð fyrir og var að reyna að afsaka í ræðu sinni hér á þriðjudaginn. Það er sá vanskilavíxill, sem nú er verið að vísa fram til greiðslu og þjóðin kemst ekki hjá að taka á sig, vegna þeirrar ógæfu, sem hún lenti í að fela hv. þm. og öðrum hans félagsbræðrum stjórn sinna mála.

Það þarf ekki að rekja nánar, en ég ætla að lokum að vekja athygli á því, að hv. þm. staðfesti, að togarinn Gerpir hefði lent í vanskilaskuld og ríkið orðið að leysa hana til sin fyrir nokkuð á níunda hundrað þús. kr. Hann sagði að vísu, að það væri ekkert einstakt og varð þó að undantaka togara bæjarútgerðar Reykjavíkur, sem hann sagði að hefðu staðið við allar skuldbindingar sínar í þessum efnum. En sérstaklega var eftirtektarverð skýringin, sem hann gaf á þessari vanskilaskuld Gerpis, því að hún var sú, að það væri vegna yfirfærslugjaldsins, sem hann sjálfur átti þátt í að leggja á þjóðina og þar með á þetta fyrirtæki á s. l. vori. Það er vegna þessara dæmalausu bjargráða, sem þetta fyrirtæki lendir í slíkum örðugleikum, að sjálft ríkið verður að hlaupa undir bagga með nærri millj. kr. handa því að sögn þm. sjálfs.