04.05.1959
Neðri deild: 121. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að hafa mörg orð um þessa till., sem hér var verið að lýsa. En mér þykir ástæða til þess að segja fáein orð út af þeim ummælum hv. þm. Mýr. (HS), sem hann viðhafði hér áðan, þegar hann harmaði, að það væri ekki viðhöfð sama stefna nú og í fyrra í sambandi við skattlagningu og tekjuöflun til útflutningssjóðs og ríkissjóðs. En það var sú stefna að skattleggja allar vörur jafnt, hvort sem það væru brýnustu lífsnauðsynjar manna eða aðrar vörur, sem að vísu mætti segja að væru nauðsynlegar, en þó ekki eins nauðsynlegar. Það er að heyra á hv. þm. Mýr., að hann telji eðlilegt að skattleggja að jöfnu brýnustu nauðsynjar, brýnustu rekstrarvörur og t. d. fólksbifreiðar, sem að vísu eru nauðsynlegar. Ég skal viðurkenna, að það væri æskilegt, að ekki þyrfti að grípa til þess að skattleggja bifreiðar frekar en annað og vera laus við alla skattlagningu. En þegar litið er til þess ástands, sem var við s. l. áramót, þá býst ég við, að menn séu yfirleitt sammála um það og líka hv. þm. Mýr., að það hafi verið vel sloppið við afgreiðslu fjárlaganna, að ekki skuli þurfa að grípa til frekari skattlagningar en raun ber vitni, því að útlitið var á allt annan veg við s. l. áramót. Og það er enginn vafi á því, að vinstri stjórnin hefði ekki sagt af sér, fyrrv. hæstv. forsrh., formaður Framsfl., hefði ekki sagt af sér 4. des. s. l. með þeim orðum, sem hann viðhafði, ef hann hefði reiknað með því, að mögulegt væri að koma saman fjárlögum án skatta, eins og raun ber vitni um nú. En ummæli hans mótuðu þá skoðun, sem var meðal framsóknarmanna um ástandið og staðfestu það, sem ýmsir fyrrv. stjórnarliðar höfðu sagt, að það lægi fyrir að leggja á þjóðina nýja skatta, a. m. k. 400–500 millj. kr., miðað við þá vísitölu, sem var 1. jan., eða 202 stig. En þessar 400–500 millj. hefðu vitanlega ekki nægt, ef vísitalan hefði haldið áfram að hækka, eins og þá var, ef stjórnarstefnunni hefði ekki verið breytt. Það verður þess vegna að viðurkenna, að vel hafi tekizt með það að stöðva dýrtíðina að þessu sinni og koma í veg fyrir það, að nýir skattar séu lagðir á landsmenn eins og á s. l. ári.

Þjóðarheildin hefði ekki þolað það að búa eitt ár í viðbót við þá stjórnarstefnu, sem var á s. l. árum, og við þá skattlagningu, sem þá var viðhöfð. Ég vil aðeins undirstrika þetta vegna ummæla hv. þm. Mýr., sem eru byggð á miklum misskilningi og miklu vanmati á því ástandi, sem var við s. l. áramót og þeim afleiðingum, sem urðu af skattlagningunni á s. l. ári. Og það er nauðsynlegt, að jafnvel hv. þm. Mýr. fari að gera sér grein fyrir því, hverjar afleiðingar það hefur fyrir þjóðina í heild, hinar einstöku atvinnustéttir og þjóðarheildina, að leggja á þjóðina svo gífurlega skatta sem gert hefur verið. Það er þess vegna nauðsynlegt, að það sé spyrnt við fótum og komið í veg fyrir hinar miklu skattahækkanir. Það hefur tekizt nú að öðru leyti en þessu, að það er á lagður nýr skattur á innfluttar fólksbifreiðar, sem bezt hefði verið að þurfa ekki að grípa til. En það vantaði tekjur til þess að ná endunum saman.

Hv. þm. Mýr. kemur með brtt. við frv. um útflutningssjóð um það, að þessara tekna verði ekki aflað, en hann flytur ekki brtt. um að ná tekjunum á annan hátt. Sýnir það ábyrgðarleysi, sem ekki er sæmandi þessum hv. þm. Bifreiðar í þessu landi eru nauðsynlegar, eins og hesturinn var í gamla daga. Þess vegna er það ekki tiltökumál, þótt menn vilji eiga bifreiðar og menn þurfa ekki að vera ríkir til þess að óska sér þess og til þess að hafa bifreiðar. Þess vegna væri á ýmsan hátt æskilegt að vera laus við skatta á þessum nauðsynlegu farartækjum. En ég kemst ekki hjá því, þegar við erum að tala um, að innfluttar bifreiðar verði dýrar eftir þessa skattlagningu, að vekja athygli á því, að bifreiðar, þriggja, fjögurra og jafnvel fimm ára gamlar, eru seldar manna á milli á eins háu verði og nýjar bifreiðar, sem innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fæst fyrir. Það er ástæða til að gera sér þetta ljóst, um leið og við tökum afstöðu til þessarar skattlagningar á innflutta bila, og ég verð að segja, að þessi staðreynd dregur nokkuð úr þeim mótmælum, sem annars eru á vissan hátt eðlileg gegn hækkuðum gjöldum á innflutta fólksbíla. Það er enginn vafi á því, að notaðir bílar ganga kaupum og sölum, oft á eins háu verði og nýr bíll kostar og það hafa þess vegna verið mikil hlunnindi að fá innflutningsleyfi fyrir bílum, miðað við það, að margir aðrir hafa orðið að kaupa notaða bíla á mjög háu verði. Ef hv. þm. Mýr. eða aðrir framsóknarmenn vildu gera svo vel að benda á aðra tekjuöflunarleið, sem væri hagkvæmari, þá vil ég hlusta á það. En ég vil ekki hlusta á það, að þessi tekjuöflunarleið sé felld niður og það verði halli á útflutningssjóði og finnst mér, að hv. þm., um leið og hann gerir till. um að fella þetta niður, verði að benda á aðra leið til tekjuöflunar, sem geti komið í staðinn fyrir þetta.