04.05.1959
Neðri deild: 121. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Við 2. umr. málsins minntist ég á það hér, að mér fyndist vanta í þetta frv. ákvæði, sem raunverulega tryggðu útflutningssjóði tekjur á móti þeim skuldbindingum, sem hann er búinn að taka á sig, þannig að það sé eitthvert öryggi fyrir því, að sjóðurinn raunverulega geti staðið við þessar skuldbindingar og ég gat þess, að ég mundi ef til vill flytja hér brtt. við 3. umr. um þetta atriði.

Nú hef ég lagt fram brtt., en það er ekki búið að útbýta henni hér. Ég vildi — með leyfi hæstv. forseta — mega gera hér grein fyrir henni og leggja hana þá fram skriflega.

Till. mín er þess efnis, að við 5. gr. frv. bætist eins og hér segir:

„Ríkissjóður skal greiða útflutningssjóði 152.100.000 kr. á árinu 1959. Þriðjungur fjárhæðarinnar skal falla í gjalddaga 15. maí, en eftirstöðvarnar skulu greiðast með jöfnum mánaðarlegum greiðslum“.

Það, sem hér er lagt til, er í fullu samræmi við það, sem gert hefur verið ráð fyrir í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Þar hefur verið gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði útflutningssjóði þessa fjárhæð á árinu 1959 og ég álít því, að það sé rétt að taka þessa áætlunarupphæð á fjárl. inn í lögin um útflutningssjóð, því að í l. um útflutningssjóð eiga ekki aðeins að vera þær skyldur, sem snerta hans útgjöld, heldur eiga þar einnig að vera þau ákvæði, sem tryggja honum tekjur á móti, eins og l. voru upphaflega upp byggð og eins og þau eru í rauninni enn. Því á að taka inn ákvæði um þetta og til þess svo að tryggja, að sjóðurinn fái þessa greiðslu frá ríkissjóði reglulega, þannig að hann geti staðið reglulega við sínar skuldbindingar, þá á líka að tiltaka greiðsludaga frá hálfu ríkisins. Þetta er í fullu samræmi við það, sem áður var. Áður var það svo, að útflutningssjóður átti að greiða ríkissjóði samkv. ákvæðum útflutningssjóðslaganna 20 millj. kr. á ári og þá var það bundið í lögunum um útflutningssjóð, hvernig þessi greiðsla skyldi fara fram, hvernig gjalddögum skyldi vera háttað og af því er það í fyllsta máta eðlilegt, að þetta sé hér gert einnig í sambandi við afgreiðslu þessa frv. um breyt. á l. um útflutningssjóð.

Ég sem sagt legg fram þessa till. og ætla þá, að með afgreiðslu hennar megi koma skýrt í ljós, hvort það er meiningin að lögbinda aðeins skylduna hjá útflutningssjóði, að eiga að greiða útflutningsbætur á tilteknum tíma, án þess að það sé þá búið að lögbinda það jafnframt, að sjóðurinn fái tekjur líka reglulega, til þess að hann geti raunverulega staðið undir þessum skuldbindingum sínum.

Ég vil svo leyfa mér að leggja fram þessa brtt., sem verður að leggjast hér fram skriflega, og óska eftir því, að hæstv. forseti leiti eftir afbrigðum fyrir þessari till.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða hér um þetta mál frekar né þær umr., sem hér hafa farið fram á milli hv. 1. þm. Rang. (IngJ) og þm. Mýr. (HS), vil þó aðeins benda hv. 1. þm. Rang. á, að það er auðvitað alls fjarri því, að nokkuð hafi það gerzt hér í okkar efnahagsmálum, sem hafi breytt þar nokkru stóru um og það ætti hann að vita manna bezt. Það er vitanlega algerlega að skýra rangt frá staðreyndum að halda því fram, að dýrtíðin hafi nú verið stöðvuð, — algerlega rangt. Hitt er miklu nær hinu sanna, sem form. Sjálfstfl. sagði á landsfundi sjálfstæðismanna, að menn yrðu að hafa hugfast, að það hefði í rauninni ekkert annað gerzt í þessum efnum, en það að greiða niður vöruverð allverulega og að þær niðurgreiðslur mundu kosta nokkuð á annað hundrað millj. kr. En eins og hann sagði: Fólkið verður að greiða alla þessa fjárhæð síðar, — og það má ekki draga neina dul á það, sagði form. Sjálfstfl., að láta menn vita um það, að fólkið á eftir að greiða alla þessa fjárhæð síðar. — Það er ekkert annað, sem gerzt hefur, en það, að ákveðið hefur verið að halda niðri ákveðinni verðhækkun, sem raunverulega var hér á skollin, á þennan hátt og ákveða það, að menn skuli verða að borga þessa upphæð síðar. Svo geta menn auðvitað orðað það svo, að það hafi verið vel sloppið. Ég hygg nú, að þegar menn haga orðum sínum á þá lund, þá reikni þeir með því, að vissir flokkar og vissir menn telji sig hafa sloppið nokkuð vel út úr vanda og að þessi „sleppa“ eigi að ná fram yfir kosningar, ota skuli að mönnum vissri verðlækkun og stöðvun verðbólgunnar, fullyrða, að hún hafi verið stöðvuð og þannig eigi að reyna að sleppa fram yfir kosningar, en svo komi hins vegar að því, sem form. Sjálfstfl. tilkynnti: Auðvitað verða menn að borga alla þessa upphæð síðar — og að þá sé allt í lagi að leyfa þessu að koma. Og þá vitanlega hætta menn að tala um það, að búið sé að leysa allan vandann, verðbólgan hafi verið stöðvuð.

Nei, hv. 1. þm. Rang. ætti ekki að halda þessu svo mjög á lofti, ekki a. m. k. þar, sem menn hafa alveg á reiðum höndum ívitnanir beinlínis í form. hans eigin flokks í þessum efnum.