12.05.1959
Efri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þó að ég hafi gefið út sérstakt nál., stutt og gæti ekki verið við 2. umr. þessa máls til að gera grein fyrir því, þá hef ég sáralítið að segja út af því nál., sem ég gaf út.

Ég geri ráð fyrir, að ég skipti mér sem þm. lítið af því, hvernig fer um þetta mál. Það er að vísu ljóst, að setja þarf ný lagaákvæði um útflutningssjóðinn, en ég dreg það mjög í efa og er í raun og veru alveg sannfærður um, að tekjur sjóðsins hrökkva alls ekki fyrir þeim útgjöldum, sem honum er ætlað að bera og tel ég lítt forsvaranlegt að ganga þannig frá málinu. Hins vegar veit ég það af reynslu á þessu Alþingi, að það þýðir ekkert fyrir mig eða menn úr mínum flokki að bera fram neinar brtt. um það atriði og mun ég því ekki gera það.

Ég býst við, að ég hefði sleppt þessari framsögu, ef framsögu skyldi kalla, ef mér hefði ekki sem formanni fjhn. borizt bréf út af þessu máli, sem ég vil kynna hv. d., án þess að ég leggi dóm á það að öðru leyti. En málið var afgr. í fjhn., áður en þetta bréf barst og ég sá ekki ástæðu til að kalla n. saman aðeins til að lesa henni þetta bréf. Bréfið er frá bílstjórafélagi Akureyrar, dagsett á Akureyri 7. maí 1959 og er svo hljóðandi:

„Stjórn bílstjórafélags Akureyrar leyfir sér hér með að skora á hv. fjhn. Ed. Alþingis að beita sér fyrir því, að ekki verði hækkað leyfisgjald á bifreiðar, sem fluttar eru inn handa atvinnubílstjórum. Leyfir stjórnin sér að benda á, að slík ráðstöfun mundi gera atvinnubílstjórum miklum mun erfiðara að stunda atvinnu sína og jafnframt valda hækkun á ökutöxtum.

Virðingarfyllst,

f. h. stjórnar Bílstjórafélags Akureyrar.

Jón B. Rögnvaldsson, formaður“.

Frekar ætla ég ekki að taka fram um þetta mál.