12.05.1959
Efri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Björgvin Jónsson:

Herra forseti. Ég og hv. 8. landsk. þm. (BjörnJ) höfum leyft okkur að bera fram á þskj. 502 brtt. við lögin um útflutningssjóð. Till. þessi er að mestu samhljóða till., sem þeir báru fram í Nd., hv. þm. Mýr. (HS) og hv. þm. A-Sk. (PÞ). Ég mun ekki hafa langa framsögu um þessa till., enda skýrir hún sig að mestu sjálf.

Fyrsti liður till., að í staðinn fyrir 225% leyfisgjald komi 160%, stafar af því, að við teljum, að leigubifreiðastjórum, sem hafa haft sitt lífsframfæri af akstri, beri að sýna nokkra sanngirni, þegar lögð eru á yfirfærslugjöld. Það kemur þar til nokkuð annað, en þegar um aðrar fólksbifreiðar er að ræða.

Í öðru lagi höfum við lagt til, að inn í lögin verði sett ákvæði um það, að fluttar verði inn á árinu 1959 allt að 100 bifreiðar handa atvinnubifreiðastjórum. Um það er það að segja, a. m. k. hvað fólksbifreiðar varðar, að það hefur engin endurnýjun orðið á bifreiðakosti leigubifreiðastjóra síðan á árinu 1955. Á þessu verður að verða breyting og þegar þannig vill til eins og nú á þessu ári, að verja á óvenjulega miklu af gjaldeyri til innflutnings á hátollavörum og bifreiðar eru, þrátt fyrir það, þótt ekki komi til nema 160% leyfisgjald, hæst tolluðu vörur, sem fluttar eru til landsins, þá finnst okkur, að nú sé einmitt tækifæri til að bæta þarna úr brýnni þörf.

Enn fremur eru í brtt. okkar ákvæði um, að 100 innflutningsleyfum fyrir bifreiðum án gjaldeyris verði úthlutað til þeirra, sem með vinnusamningum hafa gjaldeyristekjur, með sama álagi og er á almennum gjaldeyris- og innflutningsleyfum. Okkur er það ljóst um innflutning án gjaldeyris, að þetta hefur verið nokkuð misnotað á undanförnum árum og að útilokað er, að hægt sé að flytja inn, eins og áætlað er á þessu ári, allt að 400 bifreiðum án þess að veita fyrir þeim gjaldeyri, án þess að þurfi að rýmka verulega um þær reglur, sem gilt hafa til þessa. En þrátt fyrir það, þó að öllum sé kunnugt, að þetta hefur verið misnotað, þá finnst okkur það ekki réttlæta, að þessi réttindi séu tekin af t. d. sjómönnum og farmönnum, sem hafa löglegar gjaldeyristekjur. Okkur finnst, að þeir eigi að sitja við sama borð og allur almenningur. Ég segi fyrir mig, að ég skipti mér ekki af því, þó að þessu gjaldi sé breytt að öðru leyti á þeim, sem afla gjaldeyris á vafasaman hátt, en ég tel alveg útilokað að flokka þá menn, sem hafa svona löglegar gjaldeyristekjur, undir það og setja á þá nokkurs konar sérstakt hegningargjald.

Um síðasta lið brtt. er það að segja, að við leggjum þar til, að allt að 100 innflutnings- og gjaldeyrisleyfi verði veitt til báta- og togarasjómanna. Það liggur nú fyrir eftir upplýsingum frá hæstv. ríkisstj., að allt að 1.200 bifreiðum verður úthlutað á þessu ári. Við vitum, að þeir menn, sem við sjósókn fást, eiga oft erfiðast með að standa í stappi við nefndir og ráð hér í Reykjavík til að fá innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir bifreiðum og okkur finnst það ekki óviðeigandi, að Alþingi sýni í verki, að það vill þó ætla þessum mönnum nokkra sérstöðu, þeim mönnum, sem flytja að landi mest af hinu dýrmæta útflutningsverðmæti okkar.

Ég vona, að deildin sjái sér fært að samþ. þessar sanngjörnu till. okkar.