12.05.1959
Efri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Í 4. gr. frv. er ríkisstj. heimilað að innheimta sérstakt gjald af innfluttum bifreiðum og má það nema allt að 250% af fob-verði hverrar bifreiðar, en þó má gjaldið ekki vera nema allt að 225%, þegar úthlutað er gjaldeyri til kaupa á bifreiðum fyrir atvinnubifreiðastjóra.

Á þskj. 521 flyt ég brtt. þess efnis, að aftan við þennan málslið bætist orðin „og lækna“, þannig að gjaldið verði ekki hærra en 225%, þegar úthlutað er gjaldeyri til kaupa á bifreiðum til atvinnubifreiðastjóra og lækna.

Ég flyt þessa brtt. samkvæmt ósk Læknafélags Íslands, sem hefur sent um það erindi til hins háa Alþingis. Þar er á það bent, að læknar komist ekki hjá að nota bifreiðar til sinna starfa og því ekki úr vegi að setja þá a. m. k. til jafns við atvinnubifreiðastjóra. Auk þess má benda á það, að bifreiðarkostnaður er fastur liður í rekstrarkostnaði lækna. Hækkun á þeim rekstrarkostnaði hefur áhrif í árlegum samningum milli læknasamtakanna annars vegar og sjúkrasamlaga hins vegar. Þetta finnst mér sérstaklega ástæða til að benda á.

Í öðru lagi hefur að sjálfsögðu allur hækkaður rekstrarkostnaður lækna áhrif á taxta þeirra almennt. Atvinnubifreiðastjórum er þarna hyglað. Þeir aka að jafnaði heilbrigðu fólki og því skyldi þá ekki læknum hyglað, sem allan daginn aka til sjúkra manna?

Ég vænti þess, að hv. d. taki þessari till. vel og líti á hana með sanngirni.