12.05.1959
Efri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það kom fram í framsöguræðu hv. minni hl. þessarar d., forseta d., 1. þm. Eyf. (BSt), að hann drægi það nokkuð í vafa, að tekjur útflutningssjóðs mundu endast til þess að standast á við gjöldin. Nú hefur aftur á móti það dæmi verið reiknað af sérfræðingum ríkisstj. og komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta mundi takast, tekjurnar og gjöldin mundu standast nokkurn veginn á, þó þannig, að út af stæðu upp undir 20 millj. kr., sem ekki væri séð fyrir tekjum fyrir, eftir þeim tekjumöguleikum, sem reiknað hefði verið með í þeirra dæmi. En þeir eru náttúrlega nokkuð óvissir og ekki ástæða til kannske að gera veður út af því, að þessi mismunur væri eða þarna stæði þessi upphæð út af, þar sem ýmis og kannske stærri óviss atriði gætu gengið inn í þennan reikning. Hitt er náttúrlega augljóst, að með þessu er teflt á nokkuð tæpt vað, þó að það sé engin goðgá að leggja af stað með sjóðinn með þessum tekjuvonum, sem hann hefur, eftir því sem frv. er byggt upp. En hitt er náttúrlega alveg auðséð, að hvað eina sem borið er fram, til þess að draga úr þeim tekjumöguleikum, sem sjóðurinn hefur, verður til þess að minnka þá möguleika, að tekjur og gjöld sjóðsins geti staðizt á. Mér finnst, að sjónarmið hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. Seyðf., sem hér hefur borið fram brtt. um að draga mjög úr tekjum sjóðsins, stangist nokkuð á í þessu efni, því að það er náttúrlega ekki ráðið til þess að tryggja hag og afkomu sjóðsins að draga úr tekjumöguleikum hans.

Það má vel vera, að það sé margra eða einhverra meina bót að lækka yfirfærslugjaldið á þeim bílum, sem úthlutað verður til atvinnubílstjóra, úr 225% niður í 160%. Þó hygg ég, að það dragi þá ekki eins mikið og útflutningssjóðinn að missa þær tekjur, sem þannig er stofnað til að hann missi.

Ég vil þess vegna láta í ljós þá skoðun, að ég tel, að með þessari lækkun yfirfærslugjaldsins frá því, sem hugsað er í frv., eru náttúrlega tekjumöguleikar sjóðsins skertir og verður það þá að vera á ábyrgð þeirra manna, sem að þeirri skerðingu standa.

Það sama gildir náttúrlega alveg eins um till. hv. 1. landsk. þm. (AG), sem var að mæla fyrir sinni brtt. áðan og þarf ekki að endurtaka rökin gegn þeirri till. frá því, sem ég nú hef rætt um till. hv. þm. Seyðf. og hv. 8. landsk. þm.

Annað atriði, sem farið er inn á, á þskj. 502, sem ég vil vara við, er að ákveða með lögum um innflutning á þessum hlutum, Ég veit ekki til þess, að það hafi verið gert áður á svipaðan hátt og hér er nú farið fram á að gera, að ákveða með lögum, að viss fjöldi bifreiða skuli fluttur inn í ákveðnu skyni. Ég tel þetta mjög óheppilega leið og þessi töluákvörðun um bílana verði að gerast að miklu betur athuguðu máli, en þessi hv. þm. eða þeir, sem till. flytja, geti hafa haft möguleika til að gera.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Till. eru þannig, að þær koma þvert á, í fyrsta lagi megintilgang frv. um að afla tekna til að standa á móti útgjöldunum, og í öðru lagi fara þær að nokkru leyti, að því er tekur til till. á þskj. 502, inn á braut, sem er áður óþekkt og ég held óheppileg um þessi mál.