12.05.1959
Efri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til viðbótar því, sem ég áður hafði sagt um þetta mál.

Hv. síðasti ræðumaður minntist á, að nú væri gert ráð fyrir að flytja inn mikið af hátollavörum og það er rétt, nokkru meira, en gert hafði verið í fyrra. En allt byggist þetta kerfi á því, að hægt sé að flytja inn hátollavörur og brotnar alveg greinilega saman, ef það er ekki hægt.

Hins vegar um samanburðinn á árinu 1958 og 1959 vil ég segja það, að áætlunin fyrir 1959 er lægri en áætlunin var 1958, þó að ekki tækist að flytja inn allt það magn af hátollavörum, sem þar var gert ráð fyrir, þannig að náttúrlega getur verið nokkuð í óvissu, hvað til tekst á árinu, eftir því, hvaða gjaldeyristekjur falla til.

En svo kom þessi hv. þm. með þá frumlegu skýringu á sinni till., að ef veitt væru atvinnubílstjórum leyfi til þess að kaupa bifreiðar til atvinnurekstrar síns, þá mundi það með þessari lækkun á yfirfærslugjaldinu, sem hann leggur til, gefa meiri tekjur í útflutningssjóðinn, en að till. óbreyttri. Það reikningsdæmi get ég nú ekki skilið, því að vitanlega var gert ráð fyrir því, að atvinnubílstjórar fengju leyfi hjá innflutningsskrifstofunni til þess að flytja inn bifreiðar og ef þær verða fluttar inn samkvæmt leyfi eða samkvæmt lögum, þá gerir það ekki þann mun, að ég geri ráð fyrir, að svipuð tegund bifreiðar mundi verða keypt í hvoru tilfellinu sem væri, og þá er náttúrlega gefið, að hver lækkun á yfirfærslugjaldinu, dregur úr tekjumöguleikum sjóðsins.

Ég vil undirstrika það, sem ég sagði áðan, að afkomumöguleikar sjóðsins eru slíkir, að allt, sem gert er til þess að draga úr tekjumöguleikum hans, getur orðið til þess, að afkoma hans verði verri, en æskilegt væri. E. t. v. þolir hann það, e. t. v. þolir hann það ekki. En allt, sem miðar að því að draga úr tekjumöguleikunum, er til hins verra og verkar náttúrlega gagnstætt því, sem mér skildist á hv. 1. þm. Eyf. hér áðan að þyrfti að gera, að tryggja afkomu sjóðsins betur, en gert er nú. En þessar till., sem hér eru bornar fram, stefna í þveröfuga átt.