10.11.1958
Neðri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

40. mál, þingsköp Alþingis

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það fór nú eins og mig grunaði, að hv. þm. reyndist ekki sá kappi, að hann þyrði að standa við þær stóru fullyrðingar, er hann hafði hér í frammi áður. Hann varð nú að heykjast á því að standa við það og í rauninni játa það, að hann gæti ekki fært sínum stóru orðum neinn stuðning. Hann reyndi þó aðeins að halda því hér fram, að það, sem hann hefði átt við með sínum stóru orðum, væri það að ásaka mig fyrir að hafa ekki viljað standa að því að færa út eða breyta grunnlínupunktum. Nú veit þessi hv. þm. það og það vita í rauninni allir þm., að þetta er algerlega úr lausu lofti gripið hjá þessum hv. þm. Það liggur fyrir skrifleg till. frá mér í þeirri nefnd, sem starfaði frá öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi, um framkvæmdir í þessu máli, flutt 28. apríl 1958 í landhelgismálanefndinni, þar sem ég legg til, að grunnlínunum verði breytt á þann hátt, sem ýtrast höfðu komið fram till. um, en fulltrúi Sjálfstfl. í nefndinni hefur ekki tekið undir það og daginn áður en reglugerðin var sett, var hann og aðrir spurðir sérstaklega að því, hvort hann vildi standa að því að breyta grunnlínunum, og hann fékkst ekki til þess að taka undir þær tillögur, ekki með einu orði, vildi ekki standa að því. Það hefur því sannarlega ekki staðið á mér eða mínum flokki að vilja fara út í enn frekari útfærslu á landhelginni, heldur en nú var gert og breyta m.a. grunnlínupunktum, en það stóð á fulltrúa Sjálfstfl., sem vann í nefndinni. Hann flutti aldrei till. um það og hann vildi ekki styðja till., sem fram kom í nefndinni um það. Þetta veit hv. þm. G-K. ofur vel, því að ég hygg, að það sé svo, að það hafi ekki staðið á fulltrúa Sjálfstfl., sem í nefndinni var, sjálfum að vera með þessu, en það mun hafa staðið m.a. á formanni flokksins og flokknum sem heild að vera með þessu. Það er því vitanlega algerlega haldlaust að kasta fram slíkum fullyrðingum eins og þessi hv. þm. gerði hér í sinni ræðu og ætla að komast út úr því með því að reyna að ásaka mig fyrir það, að ég hafi ekki viljað standa að því að breyta grunnlínum. Það er með öllu tilgangslaust. En eftir stendur svo hitt, að þessi þm. sá þó þannig að sér, að hann mundi, ef til vill vera að skaða málstað Íslands út á við, með slíkum dylgjum sem þessum og í rauninni verð ég að segja það, að það er meira en ég gat búizt við af honum, að hann rynni frá þessum stóru orðum sínum, sem hann hafði hér, vegna þess að hann fann það, þegar hann var búinn að segja þetta, að þá stefndi hann að því að skaða málstað Íslands út á við — og það mætti kannske þakka honum fyrir það að renna þó á þessari fullyrðingu sinni, þegar hann sá, að svona var fyrir honum komið.