24.10.1958
Neðri deild: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

12. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 22, felur í sér það eitt að breyta l. um útflutning hrossa á þá leið, að hann sé heimill yfir nóvembermánuð, en samkvæmt lögum frá síðasta þingi er takmarkið lok októbermánaðar. Á síðasta þingi var þetta mál til meðferðar og samþ. í þessari hv. d. á sömu leið og þetta frv. fer fram á, en breytt á síðustu stundu í Ed. þannig að stytta heimildina um þennan eina mánuð.

Það er kunnugt mál, að á mörgum undanförnum árum hefur gengið mjög illa að koma hrossum í verð og eiginlega enginn markaður á löngu tímabili annar, en sláturmarkaður og þá helzt fyrir folaldakjöt. Hins vegar er það vitað, að það eru tugir þúsunda af stóði í landinu, sem nauðsynlegt er að koma í verð og það ber þess vegna að fagna hverjum þeim möguleika, sem skapast til þess, að hrossin geti orðið seld til útflutnings. Sá möguleiki, sem hér hefur verið um að ræða með sölu til Þýzkalands, er að vísu mjög takmarkaður, en ég verð að segja það, og það er skoðun landbn., að það fer illa á því, ef Alþ. er að gera takmarkanir á þeim möguleika.

Landbn., þeir fjórir nm., sem mættir voru á fundi í gær, var sammála um að mæla með þessu frv. óbreyttu, en 5. nm., hv. 6. landsk. (GJóh), var ekki mættur í þinginu í gær og hafði fjarvistarleyfi.

Eins og menn sjá, er þetta frv. miðað við það, að það þarf að samþykkjast í gegnum þingið fyrir mánaðarlok og vil ég því fyrir hönd landbn. fara fram á, að því verði sem mest flýtt og vildi mega vænta þess, að hv. Ed. færi ekki að setja fótinn fyrir þessa breytingu, eins og á síðasta þingi.