24.10.1958
Neðri deild: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

12. mál, útflutningur hrossa

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki neitt í sambandi við þetta frv. sérstaklega, sem gefur mér tilefni til að taka til máls. Í því felst aðeins að rýmka heimildina um þann tíma, sem leyfður er til hrossaútflutnings. En málið hefur áður verið á dagskrá hér, og mér dettur í hug, hvort ekki sé tímabært að hreyfa hér almennri athugasemd í sambandi við hrossaútflutninginn.

Eins og málið horfir núna við, þá skilst mér, að það sé helzt að vænta markaðs í Þýzkalandi og þá vegna þess, að það sé í uppsiglingu, að menn vilji nota og eiga íslenzka hestinn til reiðmennsku. Af því tilefni langar mig til að spyrja, hvort það hafi þá ekki komið til umræðu fyrr eða síðar í landbúnaðarnefndum þingsins, hvort ekki sé orðið tímabært að setja almennar reglur um það, hvernig hrossaútflutningnum skuli hagað. Ef hér er verið að selja í bili á markað, sem er álitlegur og gæti kannske í framtíðinni orðið álitlegur, vitum við náttúrlega ekkert um, hvenær þessi markaður verður orðinn lokaður vegna þess, að þeir, sem kaupa hesta nú, verða búnir að koma sér upp hrossabúum úti, miðað við það, hvernig útflutningnum hefur verið hagað fram til þessa, þar sem bæði eru fluttar út merar og folöld og ung hross og óvanaðir hestar og ekkert því til fyrirstöðu, að menn, sem kynnu að hafa „interessu“ af því, kæmu hreinlega upp íslenzkum hrossabúum erlendis til þess að sitja að þessum reiðhestamarkaði, sem mér skilst, að nú sé fyrir hendi.

Ég vildi aðeins varpa fram þessari aths., hvort þessi sjónarmið hafi ekki komið til athugunar nú eða áður innan landbúnaðarnefndanna og hvort það sé ekki orðið tímabært, að það mál sé sérstaklega tekið til athugunar, þótt ég viðurkenni, að það snerti ekki sérstaklega framgang þessa frv., sem hér um ræðir.